Félagar hafa safnað 6.000.000 í kosningasjóð!

Nú hafa um 6 milljónir safnast í sóknarátaki okkar jafnaðarmanna – og aðeins rúm vika liðin. Um leið og við þökkum fyrir frábærar viðtökur minnum við á að betur má ef duga skal. Ógreiddir gíróseðlar eru enn í heimabankanum en einnig er hægt að leggja inn í greiðslugátt á vef flokksins https://xs.is/

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sendi flokksfólki bréf fyrir mánaðarmót þar sem hann biðlaði til félaga að styðja við kosningabaráttuna.

Sóknarátak jafnaðarmanna

Kærir félagar.  Stundum tekur lífið óvænta stefnu og stillir okkur gagnvart nýjum og krefjandi verkefnum. Samfylkingin stendur í dag frammi fyrir einu slíku; kosningum. Vissulega hefði hefði ég kosið að flokkurinn fengi nú 2 – 3 ár til að endurvinna traust, byggja brýr, milli félagsmanna en einnig til þeirra sem hafa kosið að yfirgefa okkur á síðustu árum. En þar sem aldrei er hægt að treysta á fyrirframgefna atburðarás verðum við að horfa á möguleikana í stöðunni eins og hún blasir við í augnablikinu. Og þeir eru til staðar.

Okkur gefst nú með samtakamætti, vilja, einbeitni og sannfæringu að vopni að byggja sterkari grunn undir uppbyggingu flokksins. Það er lykilatriði, til að Samfylkingin nái aftur vopnum sínum, að hún eignist þingmenn í öllum kjördæmum þann 28. október. Ef það tekst getum við aftur orðið nægilega sterkt afl í  íslenskum stjórnmálum til að hér verði mynduð félagshyggjustjórn.

Á rúmlega einu ári hefur tveimur ríkisstjórnum verið hent út á gaddinn af almenningi. Báðar hafa þær fallið á siðferðilegu prófi.  Það er því óboðlegt að kosningarnar snúist ekki að einhverju leyti um gildi eins og heiðarleika, virðingu og gagnsæi. Nú við þinglok kom líka í ljós að mannúð verður að fá stærri sess í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það er því miður ekki samstaða um að taka betur á móti börnum á flótta, þeim verður áfram mætt með köldum stálhnefa ef ekkert breytist.

Samfylkingin fer kokhraust inn í þessa baráttu. Hún mun snúast um aukin jöfnuð, betri kjör almennings og öfluga opinbera þjónustu. Þá munum við líka ræða siðferði og gildi en ekki síst þá nauðsynlegu stoðir undir öflugt atvinnulíf og vel launuð störf sem góð menntun og kraftmikil nýsköpun er. Þannig mætum við fyrirsjáanlegum breytingum á vinnumarkaði þar sem mörg störf munuúreldast. Fólk í forréttindastöðu má ekki eitt njóta góðs af alþjóðavæðingu og öðrum tækniframförum. Framtíðin verður að byggjast á þátttöku allra og sá undirbúningur þarf að hefjast á morgun.

Kosningabarátta kostar peninga sem við eigum lítið af. Við höfum aldrei farið inn í kosningar með jafn lítið á milli handanna. Þess vegna leitum við til félagsmanna eftir fjárstuðningi. Við ætlum að nýta þennan mánuð sem er til kosninga til þess að kynna nýja lista og kosningamálin af miklum krafti. Listarnir verða samþykktir á næstu dögum og flokksstjórnarfundur 6. október í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ markar formlegt upphaf kosningabaráttunnar. Ég hvet ykkur öll til að mæta.

Áður hefur verið leitað til félaga í Samfylkingunni með góðum árangri. Hátt í 2.000 félagar hafa greitt til flokksins á liðnum árum og í aðdraganda síðustu kosninga söfnuðust 7 m.krEndurtökum leikinn 2017 minnug þess að bakhjarlar fjöldahreyfingar jafnaðarmanna eru ekki fjársterk fyrirtæki, heldur fyrst og fremst einstaklingarnir sem í henni eru; við sjálf.

Í dag mun birtast í heimabankanum hjá þér ósk um stuðning frá Samfylkingunni að upphæð 5.000 kr. sem við biðjum þig að taka vel. Krafan er  valkvæð með eindaga 28.október 2017 og fellur niður sjálfkrafa 15.  nóvember 2017 sé hún ógreidd.  Kjósir þú að greiða aðra upphæð, þiggjum við það með þökkum. Reikningsnr. Samfylkingarinnar er 0111-26-019928 og kt. 690199-2899 og hér er greiðslugátt á vefsíðu okkar.

Hreyfing jafnaðarmanna þarf á þínum stuðningi að halda.

Með baráttukveðju,