Vertu með: Ný nálgun í málefnastarfi Samfylkingarinnar
Á flokksstjórnarfundi í Hafnarfirði 4. mars kynnti Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, nýtt og umfangsmikið málefnastarf sem flokkurinn mun standa fyrir á næstu misserum. Þessi vinna verður nú með breyttu sniði.
Kristrún sendi út ákall til fólks með jafnaðartaug um land allt á fundinum: „Nú er rétti tíminn til að koma með og mæta til leiks, því að Samfylkingin er lögð af stað í leiðangur. Við erum byrjuð að undirbúa okkur; undirbúa okkur fyrir verkefnin; undirbúa okkur til að taka við stjórn landsmálanna og leiða breytingar í íslensku samfélagi.“
Málefnastarfið er mikilvægur liður í þessum undirbúningi. „Þess vegna kynnum við í dag og setjum af stað nýtt málefnastarf með breyttu sniði — alvöru vinnu sem mun leggja grunninn að raunhæfum aðgerðum og raunverulegum breytingum fyrir fólkið í landinu,“ sagði Kristrún í ræðu sinni.
Vertu með: Skráðu þig til leiks í málefnastarfinu
Kristrún lagði áherslu á í ræðu sinni að allir flokksfélaga og hver einasta eining flokksins gæti lagt sitt af mörkum í þeirri vinnu sem er framundan í málefnastarfinu. Undirbúningurinn er hafinn og hér er hægt að skrá sig til leiks í málefnastarfinu: Skráningarblað fyrir málefnastarf.
„Og þessi vinna hefst núna strax. Þingmenn geta lagt sitt af mörkum og sveitarstjórnarfulltrúar og óbreyttir félagar. Við munum halda málþing og opna fundi alveg niður í minnsta aðildarfélag, kalla til sérfræðinga, fólkið á gólfinu, fólk sem er hokið af reynslu og líka unga fólkið sem vill móta sína eigin framtíð hér á Íslandi,“ sagði Kristrún í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi.
Eitt forgangsmál í einu — af fullum þunga
Málefnastarfið verður tvískipt. Annars vegar eru ákveðin forgangsmál sem flokkurinn mun fara í af fullum þunga þar sem eitt forgangsmál verður tekið í einu, yfir ákveðinn tíma. Þar er öllum boðið að koma með og leggja sitt af mörkum en þriggja manna stýrihópur heldur utan um og leiðir vinnuna.
„Útkoman á að vera verklýsing fyrir næstu ríkisstjórn; forgangsröðun og skýr pólitík; verkefnalisti frá fyrstu 100 dögunum og upp í fyrstu tvö kjörtímabilin í ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Og það gleður mig að tilkynna hér í dag að fyrsta forgangsmálið sem við förum í af þessum þunga eru heilbrigðismál og öldrunarþjónusta.“
Þessari vinnu við heilbrigðis- og öldrunarmálin á að ljúka fyrir flokksstjórnarfund næsta haust og þá tekur við næsta forgangsmál: Atvinna og samgöngur — sem verður í forgrunni frá hausti og fram á vor 2024. Þá verður farið af stað í þriðja forgangsmálið: Húsnæðis- og kjaramál — sem verða tekin fyrir fram að næsta landsfundi flokksins, haustið 2024.
Stýrihópur skipaður um heilbrigðismál og öldrunarþjónustu
Formaður í stýrihópnum um heilbrigðismál og öldrunarþjónustu er Anna Sigrún Baldursdóttir, með henni í hópnum eru þau Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og hjúkrunarfræðingur, sem hefur unnið við stjórn heimahjúkrunar, og Sindri Kristjánsson frá Akureyri, sem hefur meðal annars starfað sem sérfræðingur hjá Lyfjastofnun og í velferðarráðuneytinu. Aldís Mjöll Geirsdóttir verður starfsmaður stýrihópsins og tengiliður við þingflokk. Hafið samband við Aldísi Mjöll með tölvupósti á aldis.mjoll.geirsdottir (hjá) althingi.is til að koma athugasemdum eða spurningum á framfæri við stýrihópinn.
Hins vegar hefur stjórn Samfylkingarinnar skipað tengiliði sem sjá um hefðbundið málefnastarf flokksins í öðrum málaflokkum fram að landsfundi. Smellið hér fyrir frekari upplýsingar.