Fjöldi funda á suðvesturhorni um húsnæði og kjaramál
Á dögunum efndi Samfylkingin til samtals hringinn í kringum landið um húsnæði og kjaramál. Nú hefur verið boðað til fjölda funda á suðvesturhorni landsins
„Þetta gekk vonum framar. Við byrjuðum á fjölskyldugrilli í Borgarnesi á mánudegi og þræddum svo allan hringinn, og enduðum í Eyjum og á Hvolsvelli á laugardeginum. Þetta voru 18 opnir fundir í allt, vel sóttir og gagnlegir, en ég hlakka til að halda áfram á höfuðborgarsvæðinu og í nærsveitum á næstu vikum,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, sem bindur miklar vonir við vinnu flokksins í húsnæðis- og kjaramálum.
„Já, þetta eru sennilega okkar mestu hjartans mál, lykilmálaflokkar jafnaðarfólks, og það má segja að fólkið í landinu sjái mikil tækifæri til að gera betur á þessu sviði. Svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það þarf að tryggja öllum öruggt húsnæði. Og sjá til þess að velferðarkerfið okkar sé þannig úr garði gert að allir landsmenn njóti virðingar og mannsæmandi lífskjara.“
Þá segir Kristrún að stjórn efnahagsmála brenni á flestum. Þegar sé farin að teiknast upp nokkuð skýr mynd í vinnu stýrihóps Samfylkingar um húsnæðis- og kjaramál. „En það verður spennandi að heyra hljóðið í fólki á suðvesturhorninu – hvort það er ekki mikill samhljómur í meginatriðum, og eins hvort það er einhver áherslumunur,“ segir Kristrún.
Nýtt útspil væntanlegt í lok október
Málefnastarf Samfylkingar er nú með nýju sniði. Stefna flokksins er sem fyrr samþykkt á landsfundi og unnin í málefnanefndum flokksins þess á milli. En því til viðbótar hefur forysta flokksins unnið að forgangsröðun, áherslum og útfærslum í völdum lykilmálaflokkum. Það er gert með víðtæku og opnu samtali við flokksfólk og almenning um land allt – en vinnan við hvert útspil er leidd af stýrihópi fólks héðan og þaðan úr flokknum. Þetta er nýlunda sem hefur aukið aðkomu flokksfélaga og almennings að stefnumörkun forystu Samfylkingar milli landsfunda.
Heilbrigðismál voru í forgrunni í fyrra og síðasta vetur voru atvinna og samgöngur efst á baugi. Afrakstur þeirrar vinnu má finna í útspilunum Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum og Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum. Nýtt útspil um húsnæði og kjaramál er væntanlegt í lok október eða skömmu fyrir næsta landsfund Samfylkingar sem fer fram í Reykjavík dagana 15. og 16. nóvember.
Næstu fundir á suðvesturhorninu
Ásamt almennum fundum um húsnæði og kjaramál verður efnt til sérstakra þemafunda á næstunni um ýmis mál. Þetta er meðal annars gert í samstarfi við stjórn verkalýðsmálaráðs Samfylkingar, Ungt jafnaðarfólk, Landssamtökin 60+, ASÍ-UNG og UngÖBÍ.
Fundasyrpan á suðvesturhorninu hófst í síðustu viku með góðu samtali í Vogum á Vatnsleysuströnd. Næstu fundir verða á eftirtöldum stöðum:
KJÖR ÖRYRKJA – fjarfundur
Zoom
mánudag 23. september kl. 20:00
HAFNARFJÖRÐUR – súpufundur
Kænan
þriðjudag 24. september kl. 19:00
AKRANES – súpufundur
Samfylkingarsalurinn (Stillholti 16-18)
fimmtudag 26. september kl. 19:30
KJÖR ELDRI BORGARA – morgunfundur
Safnaðarheimili Laugarneskirkju
laugardag 28. september kl. 10:00
REYKJANESBÆR – kaffispjall
Samfylkingarsalurinn (Víkurbraut 13)
mánudag 30. september kl. 17:00
SANDGERÐI – kvöldspjall
Varðan
mánudag 30. september kl. 20:00
VERKALÝÐSMÁLARÁÐ – kaffispjall með forseta ASÍ
Leiknisheimilið í Breiðholti
þriðjudag 1. október kl. 17:00
GRINDVÍKINGAR – kvöldspjall
Safnaðarheimili Bústaðakirkju
þriðjudag 1. október kl. 20:00
REYKHOLT Í BLÁSKÓGABYGGÐ – súpufundur
Mika veitingahús
fimmtudag 3. október kl. 12:00
ÞORLÁKSHÖFN – fjölskyldugrill
Versalir
fimmtudag 3. október kl. 17:30
SELFOSS – kvöldspjall
Tryggvaskáli
fimmtudag 3. október kl. 20:00
KJÖR UNGS FÓLKS – föstudagsspjall með UJ og ASÍ-UNG
Loft í Reykjavík
föstudag 4. október kl. 17:00
SELTJARNARNES – kvöldspjall
Vivaldisalur Gróttu
miðvikudag 9. október kl. 20:00
Verið öll hjartanlega velkomin!