Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Sí- og endurmenntun – uppfærum þekkinguna

Svo lengi lærir sem lifir. Áskorunum samtímans og framtíðarinnar verður eingöngu mætt með þekkingaröflun. Vægi símenntunar verður sífellt meira og tryggja þarf hindrunarlausan aðgang að henni, ekki síst fyrir fólk í atvinnuleit. Öll þurfum við að fá tækifæri til að takast á við breytingar í starfi vegna sjálfvirknivæðingar eða annarra þátta sem geta haft áhrif á starfsgrundvöll heilla atvinnugreina. Gera verður fólki á vinnumarkaði kleift að uppfæra þekkingu sína og skipta um starfssvið.

Samfylkingin leggur áherslu á að hið opinbera og samtök launafólks og atvinnurekenda greini þörfina fyrir virk sí- og endurmenntunarúrræði til að mæta breytingum á þeim störfum sem einstaklingum bjóðast og að launafólki bjóðist endurgjaldslaus sí- og endurmenntun sem hluti af virkri atvinnuleit við missi atvinnu. Stöðug sí- og endurmenntun á að vera hluti af starfskjörum launafólks á vinnumarkaði. Að sama skapi er brýnt að raunfærni sé metin og að menntun innflytjenda fáist viðurkennd og metin til launa á Íslandi.