Fjölmenni á flokksstjórnarfundi um helgina
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram á Laugarbakka laugardaginn 20. apríl
Fjölmenni var á vorfundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar sem var haldinn á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra laugardaginn 20. apríl. Um 150 manns komu saman í þéttsetnum sal og tóku þátt í fundinum og kvöldskemmtun. Yfirskrift fundarins var Krafa um árangur en á fundinum kynnti stýrihópur flokksins í atvinnu- og samgöngumálum útspil sitt sem hópurinn hefur unnið að síðastliðna mánuði. Afrakstur stýrihópsins verður kynntur á næstu dögum en hann var unnin eftir víðtækt samráð þar sem haldnir voru hátt í 30 opnir fundir hringinn í kringum landið og heimsótt voru 180 fyrirtæki.
Á fundinum flutti Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar ræðu ásamt því að setja af stað nýjan stýrihóp um húsnæðis- og kjaramál en hópurinn mun starfa fram að landsfundi sem fram fer í haust. Samhliða stýrihópnum var starf málefnanefnda flokksins fram að landsfundi kynnt en boðað var til opinna vinnufunda í öllum nefndum í maí. Málefnanefndirnar munu vinna markvisst að því að rýna stefnu flokksins og skila tillögum til flokksfélaga sem afgreiddar verða á landsfundi.
Að venju var gefinn góður tími í umræður og gafst fólki tækifæri til þess að eiga hreinskiptið og opið samtal við forystu flokksins og aðra fundargesti.
Að loknum fundi var kvöldverður og skemmtun sem veislustjórar að vestan, þau Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Ólafur Þór Ólafsson, stýrðu af mikilli snilld.
---
Stjórnmálaályktun fundarins má finna hér.
Samþykktar voru breytingar að tillögu stjórnar á grein 3.6 og 5.5 í reglum Samfylkingarinnar um aðferðir við val á framboðslista. Við grein 3.6 var heimild bætt við um að nota fleiri en eina af þeim leiðum sem taldar eru upp í þeirri grein. Grein 5.5 var breytt á þann veg að bundin sæti þurfa ekki að vera að lágmarki fjögur þegar valið er í prófkjöri. Þessi breyting opnar meðal annars á svokölluð leiðtogaprófkjör.
Þá var samþykkt tillaga um breytingu á grein 5.2. Tillöguflytjendur: Stein Olav Romslo, Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, Arnór Heiðar Benónýsson, Kolbrún Lára Kjartansdóttir og Stefán Pettersson. Breytingin fjallar um að nú sé óheimilt að innheimta þátttökugjald af frambjóðendum í flokksvali eða á kjörfundi.
Sjá skuldbindandi reglur um aðferðir við val á framboðslista eftir breytingar hér.
Tillaga að ályktun flokksstjórnarfundar. Tillöguflytjendur: Alexandra Ýr van Erven, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sabine Leskopf, Vilhjálmur Þorsteinsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Niðurstaða fundarins var að vísa henni í málefnanefnd flokksins sem er að störfum fram að næsta landsfundi. Málefnastarfið er opið öllu félagsfólki Samfylkingarinnar og verða fundir haldnir 11. og 25. maí sem verða auglýstir á næstu dögum.