Stjórnmálaályktun flokksstjórnarfundar

Stjórnmálaályktun flokksstjórnarfundar á Laugarbakka 2024

Flokksstjórn Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands, sinnir kröfu um árangur. Að þjóðin, fólkið í landinu, geti treyst því sem stjórnmálaflokkar segja og að orð þeirra endurspeglist síðan  í verkum þeirra. Þannig vill jafnaðarfólk vinna og þannig mun Samfylking starfa í ríkisstjórn.

Risastórar áskoranir blasa við á Íslandi: Óstöðugleiki með viðvarandi hárri verðbólgu og háum vöxtum, mönnunarvandi og skipulagsleysi í heilbrigðiskerfinu og stöðnun í samgöngu- og  orkumálum. Uppnám er á húsnæðismarkaði og almenningur hefur misst trú á núverandi ríkisstjórn til að leysa úr aðsteðjandi verkefnum og vandamálum, hvort heldur til skemmri eða lengri tíma. Utanríkisstefna landsins þarf að vera traust á ófriðartímum. Þetta eru áskoranir sem jafnaðarfólk treystir sér til að takast á við.

Frá síðustu áramótum hefur Samfylkingin átt samtöl og samráð við þjóðina um atvinnu- og samgöngumál á 26 opnum fundum um allt land og heimsóknum í 180 fyrirtæki. Við hlustum og afraksturinn er áherslur flokksins sem byggja á grunngildum jafnaðarstefnunnar, stefnuplaggið Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum sem kynnt var og rædd á fundi flokkstjórnar og verður kynnt almenningi í næstu viku.

Á sama hátt skilaði flokkurinn af sér metnaðarfullri áætlun um endurreisn heilbrigðiskerfisins síðasta haust, eins konar verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn sem við bjóðum okkur fram til að leiða. Á næstu mánuðum verða húsnæðis- og kjaramálin tekin fyrir með jafn skipulögðum og markvissum hætti, þar sem verkefnaskrá jafnaðarfólks verða framsett með raunhæfum og uppbyggilegum hætti.

Samfylkingin gerir kröfu um framfarir. Frá aldamótum hafa fjárfestingar í samgöngum dregist aftur úr öðrum Norðurlöndum og meðaltali OECD-ríkja. Og í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur uppbygging orkuinnviða setið á hakanum, þó sérstaklega uppbygging flutningskerfis raforku. Á næstu 10 árum viljum við lyfta innviðum Íslands upp í nýjan styrkleikaflokk til að auka öryggi og efla atvinnulíf um land allt með sjálfbæra þróun leiðarljósi.

Samfylkingin sinnir kröfu um aukna framleiðni og verðmætasköpun á traustum grunni. Frá árinu 2017 hefur hagvöxtur hérlendis verið keyrður áfram af hröðum vexti í vinnuaflsfrekum atvinnugreinum og að miklu leyti borin upp að erlendu vinnuafli. Hagvöxtur á mann hefur verið nokkuð minni á Íslandi en á Norðurlöndum og í Evrópu. Um leið hefur fjöldi innflytjenda sem hér býr tvöfaldast án þess að nauðsynlegir innviðir hafi haldið í við þá þróun.

Samfylkingin vill taka fast á félagslegum undirboðum og koma í veg fyrir að hér verði til tvískipt samfélag. Það stangast á við grunngildi jafnaðarfólks að bjóða innflytjendum upp á lakari réttindi á vinnumarkaði en innfæddum eða ófullnægjandi tækifæri til þátttöku í samfélaginu.

Lífskjör okkar á Íslandi eiga að byggjast á góðum og vel launuðum störfum, atvinnugreinum með háa framleiðni og sterku velferðarkerfi. Allir skulu njóta þess.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar telur mikilvægt að vinna gegn skautun í samfélaginu þegar kemur að útlendingamálum. Til þess að ná árangri þarf heildstæða sýn í málaflokknum með gildi jafnaðarmennsku um mannúð og inngildingu að leiðarljósi.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna er fyrir löngu komin á leiðarenda. Það vita allir. Kosningar á komandi hausti er eina skynsamlega flóttaleiðin fyrir ríkisstjórnina og hið eina rétta fyrir íslenskt launafólk, atvinnulíf og íslenskan almenning. Samfylkingin er tilbúin til verka fyrir land og þjóð.