Skuldbindandi reglur um aðferðir við val á framboðslista

1. Inngangur

1.1 Reglur þessar fjalla um og ná yfir þær aðferðir sem aðildarfélög, fulltrúaráð og kjördæmisráð skulu nota til að velja frambjóðendur Samfylkingarinnar fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.

1.2 Reglur þessar eru bindandi og samþykktar af flokksstjórn í samræmi við lið g í 7.04 gr. í lögum Samfylkingarinnar þar sem kemur fram að eitt af hlutverkum flokksstjórnar sé að setja flokknum skuldbindandi reglur um val á framboðslista.

1.3 Að öðru leyti en kveðið er á um í reglum þessum vísast til laga flokksins.

2. Ákvörðun um aðferð við val á framboðslista

2.1 Kjördæmisráð, fulltrúaráð eða aðildarfélag ákveður, í samræmi við reglur þessar, með hvaða hætti skuli velja á framboðslista Samfylkingarinnar.

Samkvæmt 9.11 gr. laga Samfylkingarinnar skulu kjördæmisráð ákveða framkvæmd og fyrirkomulag niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar við alþingskosningar og skal valið fara fram eftir reglum sem flokksstjórn samþykkir.

Samkvæmt 10.08 gr. laga Samfylkingarinnar skal fulltrúaráð – eða stærsta aðildarfélagið í sveitarfélaginu – ákveða framkvæmd og fyrirkomulag niðurröðunar á framboðslista Samfylkingarinnar við kosningar til sveitarstjórnar og skal valið fara fram eftir reglum sem flokksstjórn samþykkir.

2.2 Ef stærsta aðildarfélagið í sveitarfélaginu ákveður fyrirkomulag og niðurröðun á framboðslista skal það gert á fundi sem er opinn öllu flokksbundnu samfylkingarfólki með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.

2.3 Fundi sem taka ákvörðun um tilhögun við val á framboðslista skal boða með skýrum hætti í samræmi við lög og reglur viðkomandi félags eða stofnunar. Einfaldan meirihluta atkvæða þarf á fundi til að samþykkt sé lögmæt.

2.4 Tillögur um tilhögun framboðsmála, sem bera skal upp á til þess boðuðum fundi, skal leitast við að senda út með fundarboði. Þó er heimilt að taka tillögur til afgreiðslu sem borist hafa fundarboðanda eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir upphaf fundar, nema samþykktir eða lög viðkomandi einingar kveði á um annað. Fundarboðandi skal kynna allar tillögur sem fyrir fundi liggja á vef Samfylkingarinnar, í tölvupósti eða með öðrum sambærilegum hætti.

2.5 Hafi til þess bærir aðilar ekki boðað til fundar er stjórn viðkomandi einingar skylt að halda fund innan 4 vikna um framboðsmál ef 15 félagsmenn óska þess skriflega. Slík ósk verður að koma fram eigi síðar en 5 vikum fyrir lok framboðsfrests til Alþingis eða sveitarstjórna. Ef ákvörðun um tilhögun framboðsmála hefur verið tekin á löglegum, til þess boðuðum fundi, er ekki hægt að krefjast fundar í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

2.6 Kjördæmisráð, fulltrúaráð, aðildarfélag eða til þess valdir aðilar setja nánari reglur um framkvæmd vals á framboðslista. Þar skal m.a. koma fram hversu marga frambjóðendur skuli kjósa, hvað gerir kosningu bindandi o.s.frv., í samræmi við neðangreindar reglur.

3. Aðferðir við val á framboðslista

Fjórar leiðir eru í boði við að velja á framboðslista Samfylkingarinnar.

3.1 Flokksval – prófkjör þar sem flokksmenn einir hafa kosningarétt.

3.2 Flokksval – prófkjör þar sem flokksmenn og skráðir stuðningsmenn einir hafa kosningarétt.

3.3 Kjörfundur – kosið á kjörfundi í hvert sæti fyrir sig. Kjörfundur getur verið:

a) Kjördæmisþing eða fundur fulltrúaráðs (þar sem sitja fulltrúar kosnir af aðildarfélögum).

b) Aukið kjördæmisþing eða aukinn fundur fulltrúaráðs (þar sem sitja fulltrúar kosnir af aðilarfélögum og varamenn þeirra).

c) Félagsfundur aðildarfélags.

3.4 Uppstilling – raðað á framboðslista af sérkjörinni uppstillinganefnd. Setja skal uppstillinganefnd starfsreglur og afmarka verksvið hennar.

3.5 Þegar ákvörðun er tekin um aðferð við val á framboðslista eftir 2. gr. þessara reglna er heimilt að ákveða að notast skuli við fleiri en eina af þeim leiðum sem taldar eru upp að framan þannig að notast sé við tiltekna leið í ákveðin sæti framboðslistans og aðra leið í önnur sæti framboðslistans.

4. Kjörgengi og kosningaréttur

4.1 Kjörgengir eru allir félagsmenn í Samfylkingunni sem uppfylla skilyrði landslaga um kosningarétt og kjörgengi og hafa meðmæli félaga í Samfylkingunni. Hvert félag eða kjördæmisráð/fulltrúaráð ákveður kröfur um fjölda meðmælenda en þeir skulu þó ekki vera fleiri en 30.

4.2 Kosningarétt í flokksvali eða á kjörfundi hafa allir félagsmenn í Samfylkingunni með lögheimili í viðkomandi kjördæmi eða sveitarfélagi, sem náð hafa 16 ára aldri á valdegi og hafa skráð sig í viðeigandi flokksfélag fyrir lokun kjörskrár. Kjörskrá skal lokað 7 dögum fyrir kosningar.

4.3 Kosningarétt í flokksvali skv. gr. 3.2 hafa allir þeir sem kosningarétt hafa skv. gr. 4.2 að viðbættum skráðum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar 16 ára og eldri, sem undirritað hafa stuðningsyfirlýsingu og skráð sig á kjörskrá innan lokafrests til skráningar. Skráðir stuðningsmenn skulu sérgreindir í kjörskrá.

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar skal setja reglur um skráða stuðningsmenn og gera eyðublað með yfirlýsingu sem þeir undirrita. Á því eyðublaði skal koma fram nafn, kennitala og lögheimili, netfang og sími og hvernig með stuðningsmannaskrár verður farið, t.d.:

 Að þær verði notaðar til útsendinga á upplýsingum sem flokksskrifstofa telur að eigi erindi við flokksmenn og almenning.

 Að skráðir stuðningsmenn hafi engar skyldur eða réttindi í félagsstarfi flokksins umfram óflokksbundið fólk.

 Að skráður stuðningsmaður verði að segja sig persónulega frá stuðningsyfirlýsingu sinni.

 Að með skrár yfir stuðningsmenn verði farið með sama hætti og segir í lögum flokksins um félagatöl, s.s. að þeim verði ekki dreift til óviðkomandi.

Telji framkvæmdastjórn þörf á öðrum upplýsingum eða ákvæðum á eyðublaði fyrir skráða stuðningsmenn en að ofan eru nefndar þá hefur hún sjálfdæmi þar um.

5. Réttindi og skyldur frambjóðenda og framkvæmdaaðila

5.1 Kjörnefnd eða kjördæmisráð gefa út sameiginlegt kynningarefni um frambjóðendur sem senda skal öllum á kjörskrá. Einnig standa þessir aðilar fyrir kynningarfundum þar sem frambjóðendur kynna framboð sitt.

5.2 Kostnaður sem hverjum frambjóðanda er heimilt að stofna til vegna framboðs má mest nema 20% af hámarksfjárhæðum sem koma fram í lögum nr. 162/2006 (4. mgr. 7. gr.) eins og þær eru á hverjum tíma, að meðtöldu þátttökugjaldi og sameiginlegum kostnaði ef við á. Kjörnir fulltrúar (aðalmenn í sveitarstjórnum og alþingismenn) sem taka þátt flokksvali eða kjörfundi mega aðeins nýta sér 75% áðurnefndrar kostnaðarheimildar. Óheimilt er að innheimta þátttökugjald af frambjóðendum í flokksvali eða á kjörfundi.

5.3 Frambjóðendur skulu skila fjárhagslegu uppgjöri innan tímamarka sem ákveðin eru hverju sinni. Í einu og öllu skal farið eftir gildandi landslögum og reglum Samfylkingarinnar um fjármál frambjóðenda.

5.4 Ef settar eru nánari reglur um framgöngu í prófkjörsbaráttu, þar sem ákveðnar eru lægri fjárhæðir en reglur þessar mæla fyrir um, eða þrengri skilyrði um aðgang að flokksskrá, reglur um kynningarefni og önnur slík atriði, skulu slíkar reglur (eða drög að þeim) liggja fyrir áður en framboðsfrestur rennur út.

5.5 Hlutfall kvenna skal tryggt í efstu sætum framboðslista með því að láta reglur um paralista eða fléttulista ráða í þeim sætum sem kosið er í bindandi kosningu.

  • Paralisti: Kvenframbjóðandi skal hið minnsta skipa annaðhvort sæti 1 eða 2, hið minnsta annaðhvort næstu tveggja sæta og svo koll af kolli í hver tvö sæti.
  • Fléttulisti: Aldrei skal vera meira en eitt sæti á milli kvenframbjóðenda á framboðslista

Þegar efstu sætum sleppir skal hlutfall kvenna vera tryggt á listanum öllum í samræmi við lög og reglur flokksins. Þá skal tryggja að framboðslistinn í heild endurspegli á sem bestan hátt fjölbreytni samfélagsins (t.d. með tilliti til aldurs, kyns og starfsstéttar). Víki frambjóðandi sæti eftir prófkjör færist næsti frambjóðandi upp eftir þeirri reglu að áður samþykkt kynjahlutfall haldist í gildi. Víki frambjóðandi sæti eftir prófkjör færist næsti frambjóðandi upp eftir þeirri reglu að áður samþykkt kynjahlutfall haldist í gildi.

5.6 Ávallt skal leitast við að á framboðslistum séu frambjóðendur yngri en 35 ára í að minnsta kosti fimmtungi þeirra sæta sem stillt er upp í.

5.7 Niðurstaða flokksvals eða kjörfundar er bindandi fyrir fyrirfram ákveðinn fjölda efstu sæta að teknu tilliti til reglna samkvæmt gr. 5.5 hér að ofan. Þeir frambjóðendur sem ekki ná bindandi sæti í flokksvali eða á kjörfundi öðlast ekki sjálfkrafa rétt til sætis neðar á listanum.

5.8 Með framboði undirgangast frambjóðendur góðar siðvenjur og siðareglur Samfylkingarinnar og heita því að orð þeirra og athafnir verði Samfylkingunni til sóma og framdráttar.

6. Framkvæmd flokksvals og kjörfunda

6.1 Þegar haldið er flokksval eða kjörfundur skal viðkomandi stjórn eða fundur velja sérstaka kjörstjórn sem sér um undirbúning og framkvæmd kosningar, kjörskrá, talningu atkvæða, úrskurð kærumála og tilkynningu úrslita.

6.2 Kjörstjórn skal bóka allar ákvarðanir sínar og niðurstöður.

6.3 Skrifstofa Samfylkingarinnar afhendir kjörstjórn félagatal kjördæmisráðs/fulltrúaráðs eða aðildarfélags til umsjónar eigi síðar en þremur vikum fyrir lokun kjörskrár. Skal kjörstjórn sjá um allar nýskráningar og afskráningar. Kjörstjórn afhendir skrifstofu Samfylkingarinnar leiðrétt og uppfært félagatal eigi síðar en 14 dögum eftir að flokksval hefur farið fram.

6.4 Kjörstjórn útbýr sérstaka kjörskrá sem notuð er á kjörfundi. Eftir að kjörskrá er lokað liggur hún frammi hjá kjörstjórn þar sem tekið er á móti athugasemdum vegna hennar.

6.5 Veita skal frambjóðendum aðgang að félagatali Samfylkingarinnar í samræmi við reglur flokksins um meðhöndlun félagatals.

6.6 Röð frambjóðenda á kjörseðli í flokksvali er ákveðin af handahófi þannig að nafn efsta frambjóðanda er dregið út og svo fylgja aðrir á eftir í stafrófsröð. Á kjörseðli skulu kjósendur merkja við tiltekinn fjölda frambjóðenda með númerum og raða þeim með því í sæti.

6.7 Fyrsta sætið fær sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í það sæti, annað sætið sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í fyrsta og annað sæti samanlögð, o.s.frv. Hlutkesti skal ráða ef frambjóðendur lenda í sama sæti við talningu.

6.8 Kjörstjórn er heimilt að skipa sérstakan trúnaðarmann sinn, einn eða fleiri, til þess að annast um og bera ábyrgð við undirbúning flokksvals og til þess að vera viðstaddur alla framkvæmd kosninganna. Trúnaðarmaður skal ekki vera úr hópi frambjóðenda.

6.9 Frambjóðanda er heimilt að láta umboðsmann sinn vera viðstaddan framkvæmd flokksvalsins á kjörstað og við talningu atkvæða.

6.10 Kjörstjórn skal ljúka afgreiðslu kærumála, m.a. vegna framkvæmdar flokksvals, kjörskrár og kosningaréttar, kjörgengis, framgöngu, notkun fjármuna og talningar. Allar kærur skal afgreiða með formlegum og rökstuddum hætti áður en úrslit eru tilkynnt. Brot á ákvæðum gr. 5.2 um hámarkskostnað geta varðað ógildingu á framboði þess sem í hlut á og ætíð ef brot er alvarlegt. Kærum vegna brota á reglum þessum um hámarksfjárhæðir í kosningabaráttu sem fram koma eftir að tilkynnt hefur verið um úrslit skal beint til framkvæmdastjórnar flokksins sem fer þá með þær heimildir sem kjörstjórn hefur skv. reglum þessum.

6.11 Úrskurðir kjörstjórnar eru kæranlegir til úrskurðarnefndar sbr. gr. 6.13 hér að neðan. Sá sem hyggst kæra úrskurð kjörstjórnar skal tilkynna kjörstjórn þá ákvörðun sína þegar í stað og áður en kjörstjórn lýkur störfum og tilkynnir úrslit. Sæti úrskurður kjörstjórnar kæru, skal kjörstjórn gera fyrirvara um úrslit þar til úrskurður kjörstjórnar og eftir atvikum úrskurðarnefndar liggur fyrir. Kjörstjórn skal eyða kjörgögnum þegar kærufrestir eru liðnir.

6.12 Framkvæmdastjórn flokksins skal í upphafi kjörtímabils síns kjósa þriggja manna úrskurðarnefnd sem hefur umsjón með reglum þessum og leiðbeinir kjördæmisráðum, fulltrúaráðum og aðildarfélögum um framkvæmd þeirra.

6.13 Ágreiningi um framkvæmd flokksvals/kjörfundar eða önnur atriði sem það varða má skjóta til úrskurðarnefndar. Skal hún að öllu jöfnu fella úrskurð innan þriggja sólarhringa frá móttöku erindis. Úrskurðir úrskurðarnefndar eru endanlegir.

7. Sérreglur um rafræna atkvæðagreiðslu og bréflega kosningu

7.1 Sérreglur rafrænnar atkvæðagreiðslu.

7.1.1 Við rafræna atkvæðagreiðslu skal notast við miðlægt rafrænt kosningakerfi Samfylkingarinnar. Kjörstjórn ber ábyrgð á skilum kjörskrár sem nota skal í rafrænni atkvæðagreiðslu.

7.1.2 Þeir sem hafa kosningarétt bera sjálfir ábyrgð á öflun aðgangslykils fyrir rafræna atkvæðagreiðslu.

7.1.3 Þegar kjörstaðir eru tilgreindir fyrir rafræna atkvæðagreiðslu skal kjörstjórn tryggja að tilnefndir séu umsjónarmenn sem aðstoða kjósendur sem þess þurfa við kosninguna í samræmi við ákvæði kosningalaga.

7.2 Bréfleg kosning í flokksvali.

7.2.1 Atkvæðaseðlar skulu sendir út til flokksmanna eigi síðar en tveimur vikum eftir að kjörskrá er lokað. Í kjörgögnum komi skýrt fram hvernig lögmæt kosning er framkvæmd og hvenær frestur til að skila atkvæði rennur út.

7.2.2 Atkvæðaseðlar skulu hafa borist kjörstjórn eigi síðar en 3 dögum eftir að kjörfundi lýkur. Kjósandi ber sjálfur ábyrgð á að koma seðli sínum til skila tímanlega. Póststimpill gildir sem staðfesting á því að skilað hafi verið innan tilskilins frests.

7.2.3 Gengið skal frá kjörgögnum í samráði við skrifstofu flokksins.

8. Samþykkt framboðslista

8.1 Fundur kjördæmisráðs, fulltrúaráðs eða félagsfundur aðildarfélags skal samþykkja endanlegan framboðslista að loknu flokksvali, eða starfi uppstillinganefndar, sé stillt upp á framboðslista.

8.2 Samkvæmt gr. 9.12 í lögum Samfylkingarinnar þurfa framboð til Alþingis á vegum Samfylkingarinnar endanlega staðfestingu flokksstjórnar.

9. Breytingar á reglum þessum

9.1 Tillögur um breytingar á reglum þessum skal bera upp á landsfundi eða á flokksstjórnarfundi skv. þeim reglum sem gilda um framlagningu tillagana skv. lögum flokksins og fundarsköpum flokksstjórnar. Til breytinga á reglum þessum þarf helming greiddra atkvæða og taka þær gildi strax nema annað sé tekið fram.

Samþykkt af flokksstjórn Samfylkingarinnar 25. ágúst 2012 Hótel Natura Reykjavík,

Breytingartillaga við lið 5.5, samþykkt á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 19. október 2019 í Austurbæ Reykjavík.

Breytingartillögur við grein 3.6, grein 5.2 og grein 5.5, samþykktar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 20. apríl 2024 á Laugarbakka.