Það er kominn tími á breytingar

Allt hefur sinn tíma. Við höfum leitt breytingar í Samfylkingunni – með því að fara aftur í kjarnann og færa flokkinn nær fólkinu í landinu. Og nú er kominn tími á breytingar við stjórn landsmála.

Ný forysta Samfylkingar lagði fram plan haustið 2022 um metnaðarfulla málefnavinnu um land allt í þeim málaflokkum sem helst brenna á þjóðinni. Þetta plan hefur gengið eftir. Við opnuðum flokkinn upp á gátt til að fá sem flesta að borðinu og höfum staðið í ströngum undirbúningi.

Afraksturinn er þrjú útspil, sem við höfum unnið þétt með þjóðinni, þar sem við höfum sett fram áherslur, forgangsröðun og útfærslur á stefnu okkar í ýmsum veigamiklum málaflokkum:

Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum

Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum

Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum

Útspilin eru aðgengileg öllum á vef Samfylkingarinnar og þar er einnig stefna okkar á öðrum sviðum. Með þessari skipulögðu vinnu viljum við bjóða upp á skýran valkost um breytingar í kosningunum til Alþingis, þann 30. nóvember 2024, og um leið tryggja að við verðum tilbúin til verka frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn – fáum við til þess traust í kosningunum.

Kjarnamál jafnaðarmennsku

Klassísk jafnaðarstefna grundvallast á þeirri sann-færingu að kraftmikil verðmætasköpun fari best með sterkri velferð, og að við höfum öll réttindi en líka skyldur hvert gagnvart öðru.

Það fer enginn neitt einn. Við erum sterkari saman. Og flestir Íslendingar vilja tilheyra þjóð sem getur verið stolt af sterkri velferð.

Þess vegna er þetta útspil um kjarnamál jafnaðarmennsku: Hvernig pössum við upp á efnahaginn? Hvað þarf að gera svo allir hafi öruggt húsnæði? Hver eru næstu skref til að tryggja örugga afkomu fólks um ævina alla – þar með talið barnafólks og þeirra sem geta ekki unnið fullt starf vegna örorku eða aldurs?

Það er eilífðarverkefni sósíaldemókrata í stjórnmálum að svara slíkum spurningum með lausnum og aðgerðum sem skila raunverulegum árangri í daglegu lífi. Undir þeirri ábyrgð ætlum við í Samfylkingu að rísa og þá er lykilatriði að vera með framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum.

Til framkvæmda reiðubúin

Á þessum 32 opnu fundum okkar um húsnæðis- og kjaramál í haust, hringinn í kringum landið, kom skýrt fram hve alvarlega fráfarandi ríkisstjórn hefur brugðist fólkinu í landinu í undirstöðuatriðum. Óstjórnin í efnahagsmálum hefur grafið undan fjárhagslegu öryggi ungs fólks og allra sem skulda. Úrræðaleysið í húsnæðismálum hefur skapað bráðavanda sem bitnar harðast á þeim sem síst skyldi. Og velferðarkerfið stendur ekki undir þeim kröfum sem við gerum um afkomuöryggi vinnandi fólks, barnafjölskyldna, eldri borgara og öryrkja.

Við heyrðum þessar sögur alls staðar. En við upplifðum líka sterka von og trú fólks á að ný ríkis-stjórn geti ráðist í nauðsynlegar breytingar til að snúa vörn í sókn. Á fundunum teiknaðist fljótlega upp skýr rauður þráður um lykilverkefni næstu ríkisstjórnar: Lægri vexti, bráðaaðgerðir í hús-næðismálum auk kerfisbreytinga til lengri tíma og loks aðgerðir til að tryggja örugga afkomu fólks í lífsins ólgusjó.

Tilfinninguna og þessa forgangsröðun sóttum við beint til fólksins. Á þeim grunni áttum við síðan fundi með verkalýðshreyfingunni, stofnunum, fyrirtækjum, hagsmunasamtökum og sérfræðingum í húsnæðis- og kjaramálum og samhliða unnum við tillögur okkar til aðgerða.

Við erum með plan. Og Samfylkingin er sannarlega til framkvæmda reiðubúin.

Samstaða um breytingar

Fólkið í landinu velur leiðina áfram fyrir Ísland og kosningarnar 30. nóvember eru tækifæri til að velja nýtt upphaf. Samfylkingin vill fylkja fólki aftur saman um jákvæða pólitík og stórhuga stjórnmál. Við viljum ná þjóðinni saman um málin sem mestu skipta í daglegu lífi. Samstaða um breytingar er leiðin sem við viljum fara – í stað þess að keyra á klofningsmálum sem hópaskipta samfélaginu.

Sumt af því sem við leggjum til í þessu útspili þarf

að framkvæma hratt. Þetta á til dæmis við um það forgangsmál Samfylkingar að endurheimta efna-hagslegan stöðugleika með því að ná aftur styrkri stjórn á fjármálum ríkisins og grípa til bráðaaðgerða í húsnæðismálum. Annað tekur lengri tíma, til að mynda þær kerfisbreytingar í húsnæðismálum sem við leggjum til og lögfestingin á rétti til leikskólavistar, sem kallar á breytta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Framkvæmdaplanið í húsnæðis- og kjaramálum er fullfjármagnað – annars vegar með ráðstöfunum á útgjaldahlið ríkissjóðs, áformum um hagræðingu og bætta nýtingu opinbers fjár, og hins vegar með tekjum sem fást með því að skrúfa fyrir skattaglufur og draga úr misræmi milli skattlagningar launa og fjármagns.

Njótið lestursins. Næstu vikur verða mikilvægar. Við vinnum þetta saman!

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarflokks Íslands

Sérstakar þakkir fær stýrihópur Samfylkingar um húsnæðis- og kjaramál, Jóhann Páll Jóhannsson formaður, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Hildur Rós Guðbjargardóttir og Kolbeinn H. Steáfnsson, auk fjölda fólks um land allt sem lagði okkur lið með einum eða öðrum hætti í málefnavinnunni.