Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum

Fimm þjóðarmarkmið

Lesið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum í heild sinni hér á pdf formi.

Öryggi er tilfinning sem er mikils virði

Við höfum öll persónulega reynslu af heilbrigðiskerfinu. Þegar það virkar sem skyldi þá veitir það fólki öryggi. Og það er á okkar viðkvæmustu stundum sem reynir á — þegar eitthvað kemur upp á hjá okkur sjálfum eða fólkinu sem stendur okkur næst. Þá reynir á hvort við búum við sterka velferð.

Þetta er tilfinning sem er erfitt að lýsa með orðum eða meta til fjár. Heilbrigðisþjónustan getur virst okkur fjarlæg um stundarsakir — eða jafnvel lengst af séum við heppin — en á einu augnabliki getur hún orðið svo nálæg að nær allt annað hverfur í samanburði. Þá veltur öryggið á aðgengi að vel menntuðu og vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki, sem vinnur við öruggar vinnuaðstæður og getur nýtt eins fullkomin tæki og lyf og kostur er á.

En öryggið felst líka í fleiru sem er erfitt að mæla í afköstum eða skilvirkni: í mannlegri tengingu. Augnsamband, hönd á öxl, manneskja sem tengir, hlustar og skilur — einhver sem annast mann og hefur tíma til að gera það af fullri athygli og alúð. Þessi mannlega tenging getur skipt sköpum þegar á reynir.

Stjórnmálafólk ber ábyrgð á umgjörð og stjórn heilbrigðis- og öldrunarmála í landinu. Milljarðarnir sem fara til þessara málaflokka á ári hverju geta virst fjarlæg stærð. En við sem erum í stjórnmálum megum þó aldrei missa sjónar á hinum daglega veruleika fólks sem þetta snýst allt um þegar upp er staðið.

Við getum litið á þetta sem tveggja kjörtímabila vegferð — þar sem fólkinu í landinu gefst tækifæri til að taka punktstöðu í hálffleik. Valkosturinn sem Samfylkingin býður upp á í næstu kosningum verður skýr — en það verður auðvitað í höndum fólksins í landinu að velja þessa leið.

Njótið lestursins. Og komið sem flest með okkur!

- Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands

Hér má lesa inngang Kristrúnar að Öruggum skrefum í heild sinni.

1. Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi

Eitt af því sem veldur óöryggi í heilbrigðiskerfinu er skortur á föstum tengilið sem þekkir sitt fólk og hefur yfirsýn. Það veldur líka álagi annars staðar í kerfinu.

Fólk vill öryggi

Óöryggið er óhagkvæmt. Rannsóknir sýna að innlagnir á sjúkrahús eru 30% algengari hjá þeim sem hafa ekki fastan heimilislækni. Að auki hefur fólk með heimilislækni bæði lægri dánartíðni og meiri lífsgæði (e. quality-adjusted life-years).

Nú eru aðeins um 50% Íslendinga með fastan heimilislækni. Í Noregi er hlutfallið yfir 95%. Ljóst er að styrkja þarf heimilislækningar í landinu. En „heimilisteymi“ þar sem fjölbreyttur hópur heilbrigðisstarfsfólks skapar fasta tengingu við fólk er hluti af lausninni til framtíðar.

Samfylkingin vill að fólk upplifi öryggi og trausta tengingu við heilbrigðiskerfið.

Þjóðarmarkmið:

Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi

  • 10 ára markmið um að allir Íslendingar fái heimilislækni og heimilisteymi
  • Á fyrsta kjörtímabili setjum við fólk yfir 60 ára og langveika í forgang

Örugg skref:

„Heimilisteymi“ á heilsugæslu sem veita fólki fastan tengipunkt við heilbrigðiskerfið — þetta er hægt að gera hratt

  • Heilsugæslur fái fjárhagslegan hvata til að koma upp teymum heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir tilteknum hópi einstaklinga
  • Heimilisteymi auka aðgengi, skilvirkni og samfellu í þjónustu — maður þarf ekki alltaf tíma hjá lækni

Tryggjum fasta tengingu við heilbrigðiskerfið fyrir alla Íslendinga

  • Hvatar til fastráðningar á heilsugæslu um land allt
    > Niðurfelling námslána hjá læknum sem ráða sig til lengri tíma á svæðum þar sem læknaskortur er viðvarandi — horft til fordæmis frá Noregi
  • Hluti nýrra námsplássa við læknanám í HÍ tekinn frá fyrir fjölbreyttari inntökuleiðir 
    > Litið til bakgrunns eða tengsla við svæði þar sem læknaskortur er viðvarandi — á Íslandi koma 75% nýnema í læknanámi HÍ úr þremur framhaldsskólum og aðeins 5% koma úr skólum utan stórhöfuðborgarsvæðis 
    > Fordæmi frá Svíþjóð: Ef inntökuskilyrði eru uppfyllt er horft til fleiri þátta en einkunnar á inntökuprófi 

Styrkjum heimilislækningar 

  • Eyrnamerkt fjármagn til fjölgunar læknanema við HÍ
    > Fylgjum áætlun um fjölgun úr 60 í 75 nýnema árið 2024 og upp í 90 árið 2028 
  • Styrkjum sérnám í heimilislækningum og komum á fót sérnámi í héraðslækningum
  • Skilgreinum viðmiðum æskilegan fjölda skjólstæðinga á hvern heimilislækni 

Styrkjum grunninn í heilsugæslunni

  • „Pössum gólfið“ þar til markmið um heimilislækna og heimilisteymi nást: Bætum starfsaðstæður og tryggjum svigrúm fyrir öfluga grunnþjónustu áður en verkefnum heilsugæslu er fjölgað 
  • Styrkjum stoðþjónustu, fjárfestum í tæknilausnum og drögum úr skriffinnsku
    (sjá kafla 4: Meiri tími með sjúklingnum)

„Þyrfti maður ekki að hafa sinn tengilið í heilbrigðiskerfinu? Sérstaklega þau sem eru eldri. Fólk hittir alltaf nýja og nýja manneskju og það er það sem fólki finnst óöryggi í.“ — Garðabær, 1. apríl 2023

„Það sem hvílir langþyngst á okkur er læknaskortur. Ástandið er mjög bagalegt á þetta stóru svæði og sérstaklega á veturna. Það er vont að vera ekki með fasta heimilislækna. Ég er kannski bara svona gamaldags en ég þoli ekki að byrja alltaf á allri rullunni frá því að maður var unglingur og allt til dagsins í dag. En sjálfsagt er þetta svona víðar á landinu.“ — Ísafjörður, 26. maí 2023

2. Þjóðarátak í umönnun eldra fólks

Brotakennd þjónusta við eldra fólk er einn helsti vandi heilbrigðiskerfisins í heild. Það sem er vanrækt í öldrunarþjónustu leiðir til ótímabærra innlagna á bráðamóttöku og á sjúkrahús. Og síðan er fólk geymt á göngunum vegna skorts á hjúkrunarrýmum — sem er óboðleg þjónusta og afleit nýting á skattfé.

Þetta snýst um virðingu fyrir fólki

Rannsóknir sýna að stærstur hluti kostnaðar við heilbrigðisþjónustu er við þau 10-15% eldra fóks sem veikast er á hverjum tíma; hóps sem glímir við fjölveikindi, færnitap eða félagslega erfiðleika. Það er viðkvæmasti hópurinn sem þarf að setja í forgang. Til þess verður að grípa inn fyrr og leggja áherslu á öfluga og vel fjármagnaða heimaþjónustu. Samhliða því verður að vinna upp uppbyggingarskuldina sem birtist í skorti á hjúkrunarrýmum fyrir þau sem þurfa.

Samfylkingin vill leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks á Íslandi með virðingu að leiðarljósi.

Þjóðarmarkmið:

Þjóðarátak í umönnun eldra fólks

  • Viðkvæmasta hópinn í forgang — með áherslu á öfluga heimaþjónustu
  • Viðurkennum að þetta kostar peninga og útheimtir pólitíska forgangsröðun

Örugg skref:

Fækkum ótímabærum innlögnum eldra fólks á sjúkrahús

  • Tryggjum eldra fólki fastan heimilislækni (sjá kafla 1: Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi)
    > Inngrip fyrr hjá viðkvæmasta hópnum sem glímir við fjölveikindi eða færnitap
  • Aukum fjármagn til heimahjúkrunar og eflum samþætta heimaþjónustu
    > Fjölbreyttur stuðningur til að auka lífsgæðin heima: heimahjúkrun, dagdvalir, félagslegur stuðningur, iðju- og sjúkraþjálfun
  • Byggjum sambýli fyrir einangraðasta hópinn sem glímir við félagslega erfiðleika

Útskrifum fólk af sjúkrahúsum þegar meðferð er lokið

  • Þjóðarátak í uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarrýma fyrir þá sem ekki geta búið heima þrátt fyrir öfluga samþætta heimaþjónustu
  • Styrkjum rekstrargrunn hjúkrunarheimila til að bæta mönnun og umönnun eldra fólks á síðustu æviárum þess

„Ég tala bæði sem læknir og ekki síður sem notandi og aðstandandi. Þið vitið öll hvernig talað er um Landspítalann. En að mínu mati liggur mesti vandinn ekki þar heldur í brotakenndri þjónustu við aldraða.“ — Reykjavík, 1. apríl 2023

„Ég hef mestar áhyggjur af öldrunarmálum. Þetta fólk er búið að strita og púla fyrir okkur alla ævi og það er bara frumskylda okkar að fólki geti liðið vel þar sem það býr síðustu stundir ævi sinnar. Virðing og stolt eiga að vera leiðarljós og það þarf að passa upp á þetta mannlega.“ — Sauðárkrókur, 9. maí 2023

3. Öruggt aðgengi um land allt

Samþjöppun þjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur að hluta bitnað á aðgengi og verið á kostnað heimila í dreifðum byggðum.

Fólk vill öryggi óháð búsetu

Fólk hefur réttmætar og raunsæjar væntingar um ákveðna grunnþjónustu hringinn í kringum landið (sjá kafla 1: Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi og kafla 2: Þjóðarátak í umönnun eldra fólks). En það skilur að erfitt getur reynst að veita flóknari þjónustu heima í héraði; hana þarf að sækja í þéttbýli og við verðum öll að hafa aðgengi að henni.

Þess vegna eru samgöngur heilbrigðismál. Og fyrsta hjálp getur skipt sköpum.

Samfylkingin vill að allir landsmenn hafi öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ef þjónustan er sótt yfir heiðina eða í gegnum fjallið þá verður það að vera öruggt fyrir sjúklinginn og hann á ekki að greiða flutninginn úr eigin vasa.

Þjóðarmarkmið:

Öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt

  • Aukinn kraftur í styrkingu sjúkraflutninga og niðurgreiðslu ferðakostnaðar til að taka á áhrifum af samþjöppun í heilbrigðiskerfinu á undanförnum áratugum
  • Efling heilsugæslu (sjá kafla 1: Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi) og aukið aðgengi að sérfræðiþjónustu á landsbyggðunum (sjá kafla 5: Tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild)

Örugg skref:

Styrkjum fyrsta viðbragð um land allt og styttum viðbragðstíma, m.a. með sjúkra- og björgunarþyrlum

  • Höggvum á hnútinn: Fjölgum þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar og staðsetjum eina sérútbúna sjúkra- og björgunarþyrlu utan höfuðborgarsvæðisins
    > Vel staðsett­ar sjúkra- og björgunarþyrl­ur yrðu bylt­ing í öruggu aðgengi allra Íslendinga að heil­brigðisþjón­ustu, til sjós og lands
  • Tryggjum læknisfræðilega ráðgjöf við bráðatilfelli með þjónustu „fjarskiptalæknis“
  • Vinnum áfram að hærra menntunarstigi sjúkraflutningafólks — ekki síst í dreifbýli þar sem fyrsta viðbragð skiptir mestu máli

Uppfærum greiðsluþátttöku hins opinbera þegar heilbrigðisþjónusta er sótt um langan veg

  • Tökum tekjutap fjölskyldna með í reikninginn
    > Svo sem vegna vinnutaps og barnagæslu — þetta skiptir sérstaklega miklu máli fyrir fjölskyldur langveikra barna
  • Breytum reglum þannig að greiðsluþátttakan nái einnig til fyrirbyggjandi meðferða

Nýtum og eflum til muna velferðar- og heilbrigðistæknilausnir til að styðja við grunnþjónustu hringinn í kringum landið (sjá meira í kafla 4: Meiri tími með sjúklingnum)

„Samgöngumál eru líka heilbrigðismál hjá okkur. Þjónustan sem við fáum er góð en það verða líka að vera öruggar og tryggar samgöngur svo að við höfum aðgengi að henni þegar á þarf að halda. Og til að sjúkrabíllinn komist til og frá samfélaginu í neyðartilvikum.“ — Siglufjörður, 13. apríl 2023

„Það sem snýr að venjulegu fólki hér er ekki síst kostnaðurinn sem við berum umfram til dæmis fólk á höfuðborgarsvæðinu. Ferðir, gisting og ég tala nú ekki um vinnutapið — ef til dæmis kona fer upp á land til að eignast barn og maðurinn fer með. Við borgum sömu skatta en fáum auðvitað ekki sömu þjónustu. Það ætti að koma betur til móts við okkur varðandi kostnaðinn.“ — Vestmannaeyjar, 31. maí 2023

4. Meiri tími með sjúklingnum

Ef mönnun í heilbrigðiskerfinu er ekki viðunandi getur það leitt af sér vítahring versnandi starfsaðstæðna og þjónustu — sem stuðlar svo aftur að verri mönnun. Um 25% hjúkrunarfræðinga á Íslandi hætta að starfa við fagið innan 5 ára frá útskrift. Það getur ekki verið hagkvæmt. Við verðum að halda í fólkið okkar.

Heilbrigðisstarfsfólk vill öruggar vinnuaðstæður og tíma til að sinna sjúklingum sínum vel

Á undanförnum árum hefur fjarað undan stoðþjónustu við heilbrigðisstarfsfólk og um leið fer sífellt meira af tíma þess í ýmiskonar skriffinnsku. Læknir á heilsugæslu ver sem dæmi að jafnaði um 50% af tíma sínum með sjúklingum.

Tæknilausnir munu ekki koma í stað mannlegra tengsla í heilbrigðisþjónustu. Þvert á móti, fjárfesting í nýrri tækni á að tryggja meiri tíma fyrir hið mannlega.

Samfylkingin vill að heilbrigðisstarfsfólk fái meiri tíma með sjúklingnum.

Þjóðarmarkmið:

Meiri tími með sjúklingnum

  • Sköpum aðstæður þar sem fólk vinnur við það sem það hefur menntað sig til að gera
  • Styrkjum stoðþjónustu við heilbrigðisstarfsfólk, fjárfestum í nýjum tæknilausnum og drögum úr tímanum sem fer í skriffinnsku

Örugg skref:

Tökum stjórn á sjúkraskrárkerfunum og komum á einni miðlægri sjúkraskrá

  • Miðlæg sjúkraskrá dregur úr endurtekinni vinnu, bætir yfirsýn heilbrigðisstarfsfólks og eykur öryggi almennings
  • Tækni í heilbrigðiskerfinu á að vera á forsendum sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, ekki tæknifyrirtækja sem selja þjónustuna

Fjölgum starfsfólki í stoðstéttum heilbrigðiskerfisins

  • Til að heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma með sjúklingnum þarf viðeigandi stoðþjónusta að vera til staðar — hvort sem það er umsjónarmaður fasteigna, heilbrigðisgagnafræðingur, tölvunarfræðingur eða sérhæft aðstoðarfólk

„Landspítalinn ver gríðarlegum fjármunum í að mennta fólk sem fer síðan í kulnun og til annarra starfa. Við erum með rosalega mikið af menntuðu heilbrigðisstarfsfólki sem vill ekki vinna í kerfinu vegna þess hvernig starfsaðstæðurnar eru. Þegar ég fór að vinna í Noregi var ég með einn bráðveikan sjúkling og einn venjulegan. Á Íslandi var ég kannski með upp í sex bráðveika og fólk hrökklast bara frá.“ — Blönduós, 8. maí 2023

„Nýtt hús breytir náttúrulega ekki neinu ef það verður ekki meiri mannskapur. Og það þarf líka að bæta við fólki úr ýmsum stoðstéttum. Ég eyði hálfum deginum í skriffinnsku — skrifa niður nótur um sjúklinga, vottorð og tilvísanir. Í staðinn fyrir að ég gæti talað við helmingi fleiri sjúklinga yfir daginn ef það væri gervigreind sem skrifaði nótur til dæmis. Við þurfum að verja alltof miklum tíma í skriffinnsku í þessu kerfi.“ — Ungt heilbrigðisstarfsfólk í Reykjavík, 25. apríl 2023

Tökum vottorðagerðina í gegn

  • Heilbrigðisstarfsfólk ver alltof miklum tíma í að skrifa vottorð og umsóknir
  • Fylgjum tillögum starfshóps um vottorðagerð — meðal annars um að hætt verði að gefa út læknisvottorð fyrir veikindum í skemmri tíma en viku eða gjald vegna slíkra vottorða verði hækkað

Fjárfestum í nýjum tæknilausnum sem auka skilvirkni og skapa meiri tíma með sjúklingnum

  • Með því að draga úr tíma sem fer í skriffinnsku og uppflettingar heilbrigðisstarfsfólks má bæta samskipti við sjúklinga og skapa svigrúm fyrir hið mannlega
  • Hættum með flatar aðhaldskröfur sem koma í veg fyrir stafræna vegferð
    > Fjármögnuð áætlun um stafræna vegferð í heilbrigðismálum eykur skilvirkni og dregur úr kostnaði til lengri tíma litið

Berum virðingu fyrir reynslu fólks og tímanum sem fer í að miðla henni

  • Hvatar til að byggja upp sérhæfða þjálfun og starfsreynslu á vinnustað — þannig fjárfestum við í þekkingu
  • Fleiri sjúkrastofnunum gert kleift að taka að sér starfsnema og umbunað fyrir það

5. Tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild

Stjórnmálafólk ber ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild. Það gildir jafnt um opinberan rekstur og einkarekstur. Samfylkingin skilur kostina við blandað heilbrigðiskerfi. En flest sem fer úrskeiðis í kerfinu lendir í fangi sjúkrahúsa. Því er lykilatriði að ákvarðanir um útvistun til einkarekstrar veiki ekki getu sjúkrahúsa til að veita bráðaþjónustu eða aðra flókna þjónustu.

Stjórnmálafólk ber ábyrgð á heilbrigðiskerfinu

Rammi um sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa ætti að grundvallast á kröfu um jafnt aðgengi — enda er þjónustan borguð með skattfé. Og auðvitað þarf öflugt eftirlit til að tryggja bestu nýtingu fjármuna í þessum stærsta útgjaldaflokki hins opinbera, óháð rekstrarformi.

Samfylkingin vill að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sé á forsendum hins opinbera. Enda er þjónustan greidd með skattfé almennings.

Þjóðarmarkmið:

Tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild

  • Jöfnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu — þar á meðal þjónustu sérgreinalækna
  • Bætum samspil einkarekstrar og sjúkrahúsa

Örugg skref:

Tryggjum Sjúkratryggingum Íslands bolmagn til að markmið um jafnt aðgengi og hagkvæmni náist í samningum við einkaaðila

  • Forsendur þess eru að fyrir liggi kröfulýsing um magn og gæði þjónustu og að eftirlit sé fullnægjandi
  • Aukum rekstrarfé Sjúkratrygginga sem hlutfall af veltu
    > Stofnunin veltir 130 milljörðum á ári — en rekstrarfé hefur dregist saman á undanförnum árum
  • Í næstu samningum við sérgreinalækna verði lögð megináhersla á jafnara aðgengi um land allt:
    > Þeir fái þjónustuna sem helst þurfa
    > Þjónustan er fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna — ekki á að veita hana á forsendum búsetu eða „fyrstur kemur, fyrstur fær“ eins og nú er

Endurskoðum og lækkum greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu

  • Eitt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf eykur sanngirni og gagnsæi

Veitum sjúkrahúsum aukið svigrúm til að ákveða hvernig þau vinna með einkarekstri

  • Útvistun til einkarekstrar má ekki veikja getu sjúkrahúsa til að veita bráðaþjónustu eða aðra flókna þjónustu sem á að veita innan sjúkrahúsa
  • Aukið svigrúm og aukin ábyrgð sjúkrahúsa: Þau taki sjálf ákvarðanir um útboð til einkarekstrar

Eflum eftirlit með hagkvæmri ráðstöfun fjármuna, óháð rekstrarformi

  • Sjúkratryggingar og embætti landlæknis fái bolmagn til að sinna eftirlitshlutverki sínu
  • Innra og ytra eftirlit með heilbrigðisstofnunum í opinberum rekstri

Fjármögnun

Samfylkingin stefnir að því að auka fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála í skrefum til að styrkja kerfið og standa undir þjóðarmarkmiðunum fimm. Örugg skref í rétta átt fela í sér að á tveimur kjörtímabilum undir stjórn jafnaðarfólks muni framlög til heilbrigðis- og öldrunarmála hækka sem nemur 1 - 1,5% af landsframleiðslu á ársgrundvelli miðað við núverandi fjárlög. Slíkt viðbótarfjármagn mun skipta sköpum til að nýta betur það fjármagn sem nú þegar er veitt til málaflokksins.

Fjárlög ársins 2024 gera ráð fyrir 7,6% af landsframleiðslu í heilbrigðis- og öldrunarmál ef litið er framhjá framlögum til uppbyggingar Nýja Landspítalans. Það verkefni mun ekki fara frá okkur. Fjármagn verður áfram tryggt í verkefnið enda fjárfesting til áratuga. En eftir standa undirliggjandi rekstraráskoranir. Það er reglulegur rekstur sem útheimtir föst fjárframlög — sem þarf að fjármagna að fullu.

Rétt fjármögnuð úrræði munu spara okkur hundruð milljarða fram í tímann. Alltof lengi hafa ráðamenn komist upp með að verja peningum í að leysa stök verkefni á meðan grunnvandinn stendur óleystur og býr til kostnað annars staðar í kerfinu.

Við rekum í dag okkar dýrustu legudeildir fyrir eldra fólk á sjúkrahúsum landsins í stað þess að annast fólkið okkar í réttum og velfjármögnuðum úrræðum. Við vitum að líkur á innlögn og notkun flóknari og dýrari heilbrigðisþjónustu eru 30% meiri ef fólk hefur ekki fastan heimilislækni. Og vanfjárfesting í tæknilausnum sem henta heilbrigðiskerfinu hefur leitt til þess að tækifæri til sparnaðar í rekstri fara forgörðum.

Valkosturinn sem Samfylkingin býður fólkinu í landinu upp á er að við sameinumst um nýja leið — til að bæta lífsgæði fólks og treysta reksturinn í málaflokknum. Til þess verðum við að sameinast um að sækja tekjur og taka meðvitaða ákvörðun um að fjármagna vegferðina. Annars fáum við kostnaðinn í fangið síðar meir en samsetningin verður ekki með þeim hætti sem við hefðum óskað.

Við getum hafið þessa vegferð, í átt að sterkari velferð og betur reknu ríki, með nokkrum öruggum skrefum.

Fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála (% af VLF). Ef leiðrétt er fyrir framlögum til byggingar á nýjum Landspítala þá hafa fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála staðið í stað frá árinu 2017 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Örugg skref kalla á 1-1,5% hærra hlutfall af landsframleiðslu eftir 8 ár eða tvö kjörtímabil undir forystu jafnaðarfólks.

Örugg skref:

Árleg fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála hækki um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu

  • Fjárframlög aukin jafnt og þétt á 8 árum — tveimur kjörtímabilum
  • Fjármögnun tryggð á tekjuhlið ríkissjóðs

Á tæpum áratug getum við sem samfélag fjármagnað þessa vegferð — meðal annars með því að:

  • Draga úr misræmi milli skattlagningar fjármagns- og launatekna
  • Tryggja að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu samfélagsins alls
    > Útfært nánar eftir samtal við fólkið í landinu um atvinnu og samgöngur veturinn 2023 til 2024
  • Endurskoða tekjuskattskerfið með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda
    > Útfært nánar eftir samtal við fólkið í landinu um húsnæðis- og kjaramál frá vori fram á haust 2024

„Ef við ætlum að gera stórátak í heilbrigðiskerfinu sem víða er þörf á – þá þarf náttúrulega að ná þjóðarsamstöðu. Hvar ætlum við að ná fjármagninu? Ætlum við að fara í skattahækkanir? Kannski er þjóðin til í það en þetta gæti orðið stórt mál í næstu kosningum.“

— Hvammstangi, 9. maí 2023