Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum

Lykilverkefni í nýrri ríkisstjórn

Lesið Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum í heild sinni hér á pdf formi.

Það er kominn tími á breytingar

Allt hefur sinn tíma. Við höfum leitt breytingar í Samfylkingunni – með því að fara aftur í kjarnann og færa flokkinn nær fólkinu í landinu. Og nú er kominn tími á breytingar við stjórn landsmála.

Ný forysta Samfylkingar lagði fram plan haustið 2022 um metnaðarfulla málefnavinnu um land allt í þeim málaflokkum sem helst brenna á þjóðinni. Þetta plan hefur gengið eftir. Við opnuðum flokkinn upp á gátt til að fá sem flesta að borðinu og höfum staðið í ströngum undirbúningi.

Afraksturinn er þrjú útspil, sem við höfum unnið þétt með þjóðinni, þar sem við höfum sett fram áherslur, forgangsröðun og útfærslur á stefnu okkar í ýmsum veigamiklum málaflokkum:

Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum

Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum

• Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum

Útspilin eru aðgengileg öllum á vef Samfylkingarinnar og þar er einnig stefna okkar á öðrum sviðum. Með þessari skipulögðu vinnu viljum við bjóða upp á skýran valkost um breytingar í kosningunum til Alþingis, þann 30. nóvember 2024, og um leið tryggja að við verðum tilbúin til verka frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn – fáum við til þess traust í kosningunum.

Njótið lestursins. Næstu vikur verða mikilvægar. Við vinnum þetta saman!

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands

Hér má lesa inngang Kristrúnar að Framkvæmdarplan í húsnæðis- og kjaramálum í heild sinni.

1. Lægri vextir með styrkri stjórn efnahagsmála

Forgangsmál Samfylkingar er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Nú hafa stýrivextir verið um og yfir 9% í meira en ár, verðbólga yfir markmiði í 4 ár og samkvæmt áætlunum ríkis-stjórnarinnar stefnir í að ríkið verði rekið með halla í 9 ár.

Óstjórn í efnahagsmálum hefur leitt til þess að heimili landsins borguðu 40 milljörðum meira í húsnæðisvexti í fyrra en þau gerðu árið 2021. Þessir háu vextir eru ekkert annað en ofurskattur á ungt fólk og alla sem skulda.

Samfylkingin vill kveða niður vexti og verðbólgu. Lykillinn að því er að við náum aftur styrkri stjórn á fjármálum ríkisins, komum húsnæðis-markaðnum í fastari skorður og leggjum grunn að hagvexti sem er ekki knúinn áfram af fólks-fjölgun heldur aukinni framleiðni (sjá útspilið Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum).

Því minni sem ríkisstjórnin og ríkisfjármálin gera til að vinna gegn verðbólgu, því meira geriri Seðlabankinn og því hærri verða verða vextirnir.

Náum aftur stjórn á fjármálum ríkisins

Lögfestum stöðugleikareglu

  • Breytum lögum um opinber fjármál og tökum upp stöðigleikareglu um jafnvægi tekna og rekstrarútgjalda með tilliti til hagsveiflunnar, í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB
  • Eyðum ekki „verðbólgufroðunni“ heldur öflum tekna og/eða hagræðum til að mæta auknum útgjöldum
  • Þannig tryggjum við að lög um opinber fjármál þjóni tilhgangi sínum og aukum trúverðugleika hagstjórnar

Tökum til í ríkisrekstrinum

  • Setjum reglur um innri endurskoðun hjá ríkisstofnunum
  • Felum erlendum sérfræðingum að vinna hvítbók um hagræðingu og skilvirkni í ríkisrekstri
  • Förum betur með fé í opinberum framkvæmdum og skerpum á ábyrgðarskiptingu og gæðakröfum með nýjum heildarlögum um opinberar fjárfestingar
  • Drögum úr skriffinnsku og pappírsvinnu, meðal annars í heilbrigðiskerfinu (sjá útspilið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum), og eflum stafræna innviði hins opinbera til að draga úr rekstrarkostnaði til langs tíma

Jafnræði og skynsemi í skattheimtu

  • Lokum ehf-gatinu með aðferðum sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum til að koma í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur
  • Hækkum fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% en uppfærum frítekjumark vaxtatekna með hliðsjón af verðbólguþróun svo skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt
  • Tökum upp réttlát og skynsamleg auðlindagjöld af nýtingu náttúruauðlinda í sjávarútvegi, fiskeldi, orku-vinnslu og ferðaþjónustu (sjá útspilið Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum)

2. Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og kerfisbreytingar til lengri tíma

Íbúum á Íslandi hefur fjölgað meira en í nokkru öðru OECD-ríki síðastliðinn áratug. Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki haldið í við þessa þróun. Frá árinu 2013 hefur fjölskyldum fjölgað tvöfalt meira en íbúðum. Fyrir vikið hefur myndast verulegt ójafnvægi og fasteigna- og leiguverð rokið upp úr öllu valdi.

Á sama tíma hefur orðið samþjöppun á markaði þar sem sífellt fleiri íbúðir rata í hendur fjárfesta og fyrirtækja en ekki einstaklinga og fjölskyldna í leit að heimili. Þúsund íbúða standa auðar eða eru leigðar út til ferðamanna gegnum Airbnb, jafnvel allan ársins hring.

Heimilin í landinu líða fyrir háa vexti, leiguverðshækkanir og óstjórn í efnahagsmálum. Sífellt fleiri eiga í erfiðleikum með að koma þaki yfir höfuðið og tækifæri til þess að eignast húsnæði ráðast í auknum mæli af því hverra manna þú ert og hve mikinn stuðning foreldrar geta veitt. Það er óásættanleg staða.

Samfylkingin vill ráðast í bráðaaðgerðir til að halda aftur af hækkun fasteigna- og leiguverðs. Til lengri tíma vill Samfylkingin grípa til kerfisbreytinga sem stuðla að betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði.

Bráðaaðgerðir strax

Samfylkingin vill ráðast í bráðaaðgerðir til að tryggja að stærri hluti íbúðarhúsnæðis nýtist sem heimili fólks frekar en fjárfestingarvara hinna efnameiri. Samhliða þarf að liðka fyrir uppbyggingu færanlegra einingar-húsa og breytingu vannýtts atvinnuhúsnæðis í vandaðar íbúðir.

Með eftirfarandi aðgerðum fjölgum við íbúðum á markaði um allt að 2 þúsund næstu tvö árin – umfram það sem núverandi spár gera ráð fyrir. Þannig tryggjum við að fjölgun nýrra íbúða samsvari áætlaðri íbúðaþörf að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og temprum fasteigna- og leiguverð.

Tryggjum að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks

  • Tökum stjórn á Airbnb
  • Herðum eftirlit og takmörkum heimagistingu við eigin lögheimili eða sumarbústað
  • Fólki verður áfram heimilt að leigja út heimili sitt eða sumarbústað í allt að 90 daga á ári
  • Leyfum gististarfsemi í atvinnuskyni aðeins í samþykktu atvinnuhúsnæði, en ekki í íbúðarhúsnæði, óháð því hvenær rekstarleyfi var gefið út
  • Heimilum sveitarfélögum að leggja svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir (e. vacant home tax), þ.e. fasteignaskattsálag með skýrum undanþágum – til að bregðast við bráðavanda á húsnæðismarkaði

Liðkum fyrir uppbyggingu færanlegs húsnæðis

  • Heimilum uppbyggingu á færanlegu einingarhúsnæði til skammtímanota án deiliskipulagsbreytinga, t.d. á þróunarreitum
  • Gerum kröfu um að byggt sé vandað húsnæði til leigu sem stendur á viðkomandi svæði í 10 til 15 ár en er svo flutt og fundin endanleg staðsetning
  • Mörkum skýrari umgjörð um tímabundna búsetu verkafólks og liðkum fyrir uppbyggingu starfsmanna-bústaða á athafnasvæðum undir stífu eftirliti og samkvæmt ströngustu gæðakröfum

Sköpum hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir

  • Breytum byggingarreglugerð og skipulags- og mannvirkjalöggjöf til að flýta fyrir umbreytingu skrifstofu-húsnæðis í vandaðar íbúðir án þess að gefa afslátt af brunavörnum og öryggiskröfum
  • Sköpum hvata til slíkra framkvæmda gegnum stofnframlaga- og hlutdeildarlánakerfin

Kerfisbreytingar til lengri tíma

Til viðbótar við bráðaaðgerðir í húsnæðismálum þarf að ráðast í kerfisbreytingar til að skapa jafnvægi á markaðnum til langs tíma. Þar verður ríkisstjórn að leika lykilhlutverk og taka ábyrgð á þróun húsnæðis-markaðarins í heild.

Ein af hindrunum í vegi íbúðauppbyggingar er sú að núverandi tekjustofnar sveitarfélaga standa ekki undir þeim innviðakostnaði sem fylgir nýjum hverfum. Um leið halda byggingaraðilar að sér höndum vegna hárra vaxta og mikils fjármögnunarkostnaðar.

Samfylkingin vill stilla saman hagsmuni ríkis, sveitar-félaga og einkaaðila svo setja megi aukinn kraft í íbúða-byggingu um allt land. Það gerum við með nýrri nálgun í skipulagsmálum, framboðshvetjandi stuðningi, mark-vissari nýtingu ríkislóða til íbúðauppbyggingar og með fjölgun leiguíbúða á viðráðanlegu verði.

Ný nálgun í skipulagsmálum

  • Gerum uppbyggingu nýrra íbúðahverfa fjárhagslega sjálfbæra fyrir sveitarfélög
  • Semjum við sveitarfélög um skipulagningu og uppbyggingu nýrra hverfa og horfum til reynslu Finna af svokölluðum MAL-samningum um landnotkun, samgöngur og byggðaþróun
  • Styðjum við innviðauppbyggingu vegna grunnþjónustu, svo sem með hagstæðum innviðalánum eða eftirgjöf á virðisaukaskatti við byggingu skóla og leikskóla, gegn því að sveitarfélög ýti undir félags-lega blöndun og fjölbreytni við lóðarúthlutun og tryggi skilvirkt verklag og viðunandi málshraða í stjórnsýslu byggingar- og skipulagsmála
  • Einföldum skipulagsferlið:
  • Færum skipulagslöggjöfina til nútímans með einfaldari ferlum, styttri tímafrestum, skýrari undan- þáguheimildum og breytingum sem ýta undir að skipulagsáætlanir séu sniðnar að raunverulegum byggingaráformum
  • Setjum heildstæð lög um lóðarleigusamninga í þágu jafnræðis og fyrirsjáanleika við lóðarúthlutun
  • Skerpum á tímabindingu uppbyggingarheimilda til að koma í veg fyrir lóðabrask og frestun framkvæmda
  • Komum á reglulegum samráðsfundum ríkis, sveitarfélaga og verktaka um stöðu íbúðauppbyggingar og vinnum að samræmdari túlkun regluverks í skipulags- og mannvirkjamálum

Framboðshvetjandi stuðningur í þágu íbúðakaupenda

  • Tryggjum fyrirsjáanleika í lánveitingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) vegna byggingar og kaupa á íbúðum
  • Greiðum hlutdeildarlán út til byggingaraðila meðan íbúð er á framkvæmdastigi
  • Þannig drögum við úr fjármögnunarkostnaði og sköpum aukinn hvata til framkvæmda
  • Lánið er veitt með skilyrðum um hæfilegan framkvæmdatíma og gengur áfram til fyrsta kaupanda með milligöngu HMS þegar kaupsamningur er gerður
  • Semjum um stórtæka uppbyggingu hlutdeildarlánaíbúða við byggingaraðila sem uppfylla skilyrði um traustan fjárhag, þekkingu og reynslu

Ívilnun til uppbyggingar leiguíbúða og fjölbreytt búsetuform

  • Veitum húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti við byggingu íbúða
  • Nýtum ríkislóðir til íbúðauppbyggingar og tryggjum að stór hluti íbúðanna verði á vegum óhagnaðar-drifinna félaga
  • Styðjum við uppbyggingu félagslegs eignaríbúðakerfis eins og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir og liðkum fyrir aðkomu lífeyrissjóða að slíkum verkefnum
  • Leggjum niður sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og komum upp einu samræmdu kerfi á vegum ríkisins með viðmiði um að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 40% af ráðstöfunartekjum

3. Örugg afkoma um ævina alla

Með því að sýna festu í ríkisfjármálum og ná niður verðbólgu og vöxtum sköpum við svigrúm til að ráðast í hóflegar en markvissar aðgerðir, jafnt og þétt yfir kjörtímabilið, til að styðja betur við barnafjölskyldur og styrkja almannatryggingakerfið í þágu eldra fólks og öryrkja.

Örugg afkoma eldra fólks

  • Stöðvum alfarið kjaragliðnun milli launa og lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins (TR)
  • Bindum greiðslur almannatrygginga til eldra fólks og öryrkja við launavísitölu
  • Hækkum frítekjumark ellilífeyris úr 25 í 60 þús. kr. á mánuði til þess að eldra fólk njóti meiri ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði
  • Komum á frítekjumarki vaxtatekna þannig vaxtatekjur upp að 300 þús. kr. á ári skerði ekki greiðslur almannatrygginga og færri fái harkalegan bakreikning frá TR

Öryggi fyrir barnafólk

  • Lögfestum rétt barna til leikskólavistar frá tilteknum aldri eins og gert hefur verið í öllum ríkjum Norðurlanda að Íslandi undanskildu
  • Setjum af stað vinnu við endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þannig að gert sé ráð fyrir rekstri leikskóla sem lögbundins og fjármagnaðs verkefnis sveitarfélaga
  • Tryggjum örugga afkomu í fæðingarorlofi:
  • Hækkum lágmark fæðingarorlofsgreiðslna og höldum 450 þús. kr. af viðmiðunartekjum óskertum
  • Hækkum fæðingarstyrki til námsmanna og fólks utan vinnumarkaðarLögfestum rétt til launaðs meðgönguorlofs í allt að fjórar vikur fyrir áætlaðan fæðingardag
  • Komum þróun barnabóta í fastari skorður
  • Hækkum barnabætur árlega til jafns við hækkun þrepamarka í tekjuskattskerfinu og uppfærum skerðingarmörk þannig að fjöldi heimila sem fá stuðning haldist stöðugur

Ljúkum endurskoðun örorkulífeyriskerfisins

  • Tryggjum farsæla framkvæmd nýrra laga þannig að fólk með skerta starfsgetu búi við afkomuöryggi og reisn
  • Leggjum áherslu á valdeflingu í stað refsistefnu
  • Vinnum markvisst að því að draga úr nýgengi örorku með fyrirbyggjandi aðgerðum og eflingu frumendurhæfingar
  • 6 af hverjum 10 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum eru konur og fjórðungur kvenna á aldrinum 63 til 66 ára er á örorkulífeyri. Þetta kallar á sértækar aðgerðir

Fjárhagslegt sjálfstæði fatlaðs fólks

  • Komum upp aðgengis- og aðlögunarsjóði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að norskri fyrirmynd og tryggjum fólki styrki til breytinga á húsnæði vegna fötlunar
  • Styðjum fyrirtæki til breytinga á atvinnuhúsnæði til að auka aðgengi og ýta undir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks þegar nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi
  • Fjármögnum til fulls þann fjölda NPA-samninga sem gefin hafa verið fyrirheit um

Áhrif á fjármál ríkisins

Samfylkingin leggur áherslu á að kraftmikil verðmætasköpun og sterk velferðarþjónusta fari saman. Þetta hefur verið rauður þráður í málefnavinnu Samfylkingar og þeim þremur útspilum sem við höfum kynnt. Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum felur í sér aðgerðir sem munu stuðla að jafnvægi á húsnæðis-markaði með auknu framboði og draga þannig úr verðþrýstingi til lengri tíma. Þá mun lögfesting stöðug-leikareglu og stefnumið um aukinn aga í ríkisfjármálum styrkja trúverðugleika hagstjórnarinnar og styðja við markmið um efnahagslegan stöðugleika

Framkvæmdaplanið er fullfjármagnað með tekjum sem fást með því að skrúfa fyrir skaðlegar skattaglufur og taka upp fjármagnstekjuskattskerfi í anda hinna Norðurlandanna og með svigrúmi sem verður til með skil-virkari ráðstöfun opinberra fjármuna (samtals 0,5% af vergri landsframleiðslu). Aukin rekstrarútgjöld í út-spilinu eru einkum vegna styrkingar velferðarkerfisins (sjá kaflann „Örugg afkoma um ævina alla“). Þau eru áætluð um 0,5% af vergri landsframleiðslu þegar aðgerðirnar eru að fullu komnar til framkvæmda en þær verða tímasettar með tilliti til hagsveiflunnar í samræmi við áherslu Samfylkingar á verðstöðugleika og lága vexti.

Samanlagt eru útspilin þrjú sem Samfylkingin hefur kynnt á síðustu misserum (í heilbrigðis- og öldrunar-málum, atvinnu- og samgöngumálum og nú húsnæðis- og kjaramálum) hlutlaus með tilliti til ríkisfjármála. Þau fela í sér aukin rekstrarútgjöld upp á u.þ.b. 1,75% af vergri landsframleiðslu en á móti koma tekjur af aukinni verðmætasköpun, almennum auðlindagjöldum, hækkun fjármagnstekjuskatts og aðgerðum til að skrúfa fyrir skattaglufur.