ÞINGFLOKKSFRÉTTIR

Þingflokkur, jól, gríma,

Í september kynntum við Ábyrgu leiðina – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Ábyrga leiðin er leið jafnaðarmanna með  markvissum aðgerðum til að fjölga störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, létta undir með atvinnulausu fólki og fjölskyldum þeirra, stíga fastar til jarðar í loftslagsmálum og beita ríkisvaldinu af krafti til að fjárfesta í grænni uppbyggingu til að renna fjölbreyttari stoðum undir útflutning og verðmætasköpun.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Kæru félagar

Hér koma nokkrir fréttapunktar af starfi þingflokksins á haustönninni 2020.

Þingsetning í haust var 1. október en ekki annan þriðjudag í september eins og lög gera ráð fyrir. Ástæðan var sú að ríkisstjórnin var ekki tilbúin með fjárlagafrumvarpið. Við í Samfylkingunni höfðum skilning á þessari seinkun því endurskoða þurfti allar fjármálaáætlanir ríkisins í dýpstu efnahagskreppu í 100 ár.

Stefnuræða

Umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra var í beinni útsendingu að vanda. Ræðumenn okkar voru Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, Guðmundur Andri Thorsson og Helga Vala Helgadóttir. Þið getið hlustað á þessar góðu ræður með því að smella á nöfnin þeirra.

Ábyrga leiðin

Í september kynntum við Ábyrgu leiðina – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Ábyrga leiðin er leið jafnaðarmanna með  markvissum aðgerðum til að fjölga störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, létta undir með atvinnulausu fólki og fjölskyldum þeirra, stíga fastar til jarðar í loftslagsmálum og beita ríkisvaldinu af krafti til að fjárfesta í grænni uppbyggingu til að renna fjölbreyttari stoðum undir útflutning og verðmætasköpun. Með því að smella hér getið þið séð kynningu á Ábyrgu leiðinni.

Fjárlög

Við höfum gagnrýnt harðlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjárlögum, fjáraukalögum og fjármálaáætlun. Við gagnrýnum sérstaklega að störfum sé hvorki fjölgað í nægilegum mæli né tekið utan um þann hóp sem hefur misst atvinnuna. Mikill kynjahalli er á úrræðum stjórnvalda. Um 85% af úrræðunum gagnast helst körlum þó að fleiri konur séu atvinnulausar í nær öllum landshlutum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar breikka enn frekar bilið á milli launamanna og þeirra öryrkja og eldri borgara sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga. Við viljum styrkja heilbrigðiskerfið okkar mun betur en ríkisstjórnin og auka aðgengi að menntunartækifærum um allt land. Og við gagnrýnum ríkisstjórnina einnig fyrir metnaðarleysi í loftlagsmálum.

Ágúst Ólafur Ágústsson er fulltrúi okkar í fjárlaganefnd. Í ræðu hans í fjárlaganefnd fór hann vel yfir okkar áherslur. Þið getið hlustað á ræðuna með því að smella á nafnið hans.

Þingmál

Þingflokkurinn hefur lagt fram mörg þingmál en forgangsmálin okkar sem við höfum mælt fyrir eru þessi:

Breyting á lögum um almannatryggingar í þá átt að lífeyrisgreiðslur hækki í takti við lífskjarasamninginn. Hér má skoða frumvarpið og greinargerðina um málið.

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar með hækkun á grunnatvinnuleysisbótum, lengra bótatímabili, 6 mánaðar tekjutengdu tímabili fyrir þau sem voru atvinnulaus í ágúst og hækkun á viðmiðun fyrir framfærslu barna atvinnulausra. Hér má skoða frumvarpið og greinargerðina um málið.

Aðgerðir í þágu sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög lenda í miklum vanda við að halda uppi félagsþjónustu og annarri góðri þjónustu við íbúana og þurfa einnig að skera niður fjárfestingar. Það mun fækka störfum þegar þörfin er til að fjölga þeim. Hér má skoða þingsályktunina með greinargerð.

Græn atvinnubylting. Með tilliti til alþjóðlegra loftslagsskuldbindinga Íslands á tímum hamfarahlýnunar og í ljósi efnahagssamdráttar, sögulegs fjöldaatvinnuleysis og framleiðsluslaka vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þarf að grípa til aðgerða til að fjölga störfum, örva eftirspurn og styðja við loftslagsvæna verðmætasköpun. Hér má skoða þingsályktunina með greinargerð.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir veitti forystu þingmáli um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu. Meðflutningsmenn voru þingflokkur Samfylkingarinnar, þingmaður utan flokka, tveir þingmenn Vg og tveir Píratar. Þingmálið var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Hér má sjá þingsályktunina og greinargerðina. Albertína flutti stutta ræðu þegar málið var tekið til atkvæðagreiðslu. Ef þið smellið á nafn hennar getið þið hlustað á ræðuna.

Óundirbúnar fyrirspurnir

Í þinginu fáum við alþingismenn tækifæri til að spyrja ráðherra út úr tvisvar í viku undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Guðjón S. Brjánsson fulltrúi okkar í umhverfis- og samgöngunefnd nýtti tækifærið eftir að svört skýrsla hafði verið birt um slaka stöðu Íslands í aðgerðum í glímunni við loftslagshamfarir af mannavöldum. Hér er góð ræða Guðjóns sem þið getið hlusta á með því að smell á nafnið hans.

Atvinnuleysi

Við í Samfylkingunni höfum lagt á það áherslu að fyrirtæki fái stuðning í atvinnukreppunni. Stjórnarliðar hafa verið með okkur í þeim áherslum að mestu. En þau hafa ekki viljað styðja nægilega fólkið sem misst hefur vinnuna hjá þessum sömu fyrirtækjum. Atvinnuleysi á landinu er nú um 12%. Sum landssvæði verða sérlega illa úti og þegar faraldurinn skall á okkur var 5% atvinnuleysi og helmingi meira á Suðurnesjum. Nokkur hundruð einstaklingar eru að klára atvinnuleysisbóta tímabilið sitt á næstu mánuðum og eiga þá þann einn kost að leita á náðir fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Ekkert nema sárafátækt blasir við því fólki sem fær ekki vinnu því enga vinnu er að fá. Þess vegna lögðum við í Samfylkingunni til að atvinnuleysisbóta tímabilið yrði lengt. Því var hafnað af stjórnarliðum. Með því að smella hér getið þið hlusta á atkvæðaskýringu mína þegar skammarleg niðurstaða stjórnarflokkanna varð kunn við atkvæðagreiðsluna um málið.

Stækkandi þingflokkur

Sá gleðilegi atburður átti sér stað 16. desember að Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk til liðs við þingflokkin. Nú erum við átta og verðum enn fleiri eftir næstu kosningar.

Jólakveðja

Kæru félagar. Við í þingflokki Samfylkingarinnar óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við erum þakklát fyrir allan ykkar stuðning á árinu sem er að líða. Saman erum við sterkari!

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður.