Aron Leví Beck - 4. - 6. sæti

Ég heiti Aron Leví Beck og er að óska eftir 4. - 6. sæti í forvali Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ég er 32 ára og er fæddur í Reykjavík. Foreldrar mínir eru Inga Rún Sigfúsdóttir leikskólakennari og félagsráðgjafi og Rúnar Þór Pétursson tónlistarmaður. Stjúpfaðir minn er Helgi Már Haraldsson. Sambýliskona mín er Karitas Harpa tónlistarkona og saman ölum við þrjú börn, Ómar Elí 7 ára, Hrafn Leví 2 ára og Bogey Lóu 1 árs.

Barnsskónum sleit ég í Grafarvogi en sem unglingur fluttist fjölskyldan í Langholtið. Að grunnskóla loknum lá leiðin í Tækniskólann á málarabraut og stuttu eftir útskrift tók við nám í byggingafræði við Háskólann í Reykjavík. Þegar því var lokið heillaði meistaranám í skipulagsfræði mig og lét ég af því verða. Í skipulagsfræðinni kviknaði áhuginn á borgarmálunum því sveitarfélögin láta skipulagsmálin verða að veruleika. Ég fór þá að taka þátt í ungliðastarfi Samfylkingarinnar, sat í stjórnum Ungra jafnaðarmanna og síðar forseti Hallveigar, félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Þessi ár voru algjörlega frábær og ég fékk tækifæri til að kynnast ótrúlega mörgum frábærum jafnaðarmönnum á stuttum tíma. Ég sat sem forseti Hallveigar í þrjú ár og bauð mig fram á lista Samfylkingarinnar vorið 2018 og varð kjörinn varaborgarfulltrúi. Á kjörtímabilinu sem er að líða hef ég svo verið sitjandi borgarfulltrúi nærri hálft kjörtímabilið vegna mannabreytinga í borgarstjórnarflokknum okkar og setið í hinum ýmsu ráðum og nefndum en einnig stýrt borgarstjórnarfundum. Fyrsti ungi jafnaðarmaðurinn í óra langan tíma sem hefur verið forseti borgarstjórnar þori ég að fullyrða.

Allt kjörtímabilið hef ég setið í skipulagsráði, fyrst sem varamaður og síðan sem borgarfulltrúi og þar eru mínar ær og kýr. Það má segja að þar brenn ég sérstaklega fyrir grænum samgöngum, þéttri og blómlegri byggð, borgarlínu og bættu aðgengi fyrir okkur öll. Á þessu kjörtímabili sem er að ljúka fór ég m.a. fyrir bættu aðgengi á strætóstoppustöðvum í borginni en það er verkefni sem ég vissi strax í upphafi að ég vildi láta verða að veruleika. Þá yrðu tekin öll strætóskýli og yfir þau farið skipulega til að bæta aðgengi. Ég trúi því að aðgengismál og algild hönnun sé okkur öllum til bóta.

Reykjavík hefur alla burði til þess að halda áfram að vaxa og dafna sem áhugaverður staður til að búa á eða heimsækja fyrir fólk á öllum aldri. Borg sem heldur utan um þau sem minna mega sín og kemur til móts við ólíkar þarfir fólks. Borg þar sem börnin okkar eru örugg, á heimilum sínum, skólum sem og á götum úti, að þau fái frelsi til að vera börn. Að fullorðna fólkið okkar hafi aðgang að fjölbreyttri einstaklingsmiðaðri þjónustu og geti notið sín sem allra best á efri árum. Síðast en ekki síst að jafnaðarmenn í Reykjavík noti völd sín í borginni til að skapa meiri jöfnuð fyrir hinn almenna borgara, því það er eitthvað sem við getum gert.

Ég tel mikilvægt að ungt fólk sé í forystu og ungt fólk með reynslu er ekki að finna á hverju strái. Sú reynsla sem ég hef öðlast innan borgarstjórnar veitir mér kraft til að ganga beint til verks, óhikandi og ákveðinn.