Auður Brynjólfsdóttir - 4. - 6. sæti

Kæru félagar.

Ég gef kost á mér í 4.-6. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Ég er ný gengin til liðs við Samfylkinguna og byrjað strax að taka virkan þátt í félagsstörfum. Ég er meðal annars ritari Bersans, félags Ungra jafnarðarmanna í Hafnarfirði.

Ég er fædd og uppalin í Hafnarfirði, stjórnmálafræðingur, foreldri barns á leikskólaaldri, starfsmaður leikskóla í bænum og hef því reynslu af Hafnarfjarðarbæ, bæði sem þjónustuþegi og sem starfsmaður.

Ég hef ekki mikla reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, en er tilbúin að henda mér í djúpu laugina í þágu fólksins í bænum. Ég er tilbúin að spyrja spurninga og vera gagnrýnin.

Ég vil að íbúar í Hafnarfirði séu stoltir af bænum sínum en til þess þurfa þeir að eiga jöfn tækifæri á að finna og nýta styrk sinn í samfélaginu.

 Áherslur:

  • Bæta kjör hjá starfsfólki leikskóla og bæta starfsumhverfi.
  • Öll börn eldri en 12 mánaða komist til dagforeldris eða inn í leikskóla.
  • Þau börn sem komast ekki inn fái fjárhagslegan stuðning til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og inngöngu í leikskóla eða til dagforeldris.
  • Hækka tekjuviðmið niðurgreiðslu dagforeldra og leikskólagjalda.
  • Auka velferð allra barna og unglinga og veita þeim hvatningu og styrk til að iðka frístundir, óháð efnahag og stöðu foreldra.
  • Jafn aðgangur barna að hollum og heitum mat í leik- og grunnskólum óháð efnahag og stöðu foreldra.
  • Bygging fjölbreytts húsnæðis fyrir alla hópa samfélagsins. Fjölgun félagsíbúða, þjónustuíbúða, íbúða fyrir fyrstu kaupendur og íbúða fyrir fjölskyldur.
  • Huga vel að því fólki sem nær ekki viðmiðum félagsþjónustu og athuga möguleika á að breyta þeim svo fleiri fái hjálp sem þurfa.
  • Auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum.

Rauði þráðurinn í mínum áherslum eru fjárfestingar í lífi barnanna okkar. Ef þau upplifa öryggi, fjárhagslegt og félagslegt og hafa góðan aðgang að sálfræðiþjónustu, mun það skila sér í sterkum einstaklingum með góða sjálfsmynd sem gerir samfélag okkar allra betra.

 Ljóst er að mörg tilefni eru til breytinga og er ég tilbúin að taka slaginn.

Með von um ykkar stuðning, 

Auður Brynjólfsdóttir