Sterk heilbrigðisþjónusta

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu er og verður forgangsmál Samfylkingarinnar.

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri heilbrigðisþjónustu á Íslandi til þess að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu er og verður forgangsmál Samfylkingarinnar.

Fullfjármögnum heilbrigðisþjónustu og styttum biðlista

Heilbrigðiskerfið er einn veigamesti einstaki þátturinn í sterkri almennri velferðarþjónustu. Grundvallaratriðið er jafnt aðgengi fyrir alla, óháð efnahag og búsetu, sem felur í sér að gjaldtöku sé ávallt haldið í lágmarki. 

Enginn á Íslandi á nokkurn tíman að þurfa að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Samfylkingin vill byggja upp sterkara heilbrigðiskerfi fyrir allan almenning, óháð búsetu og efnahag. Til þess þurfum við að rjúfa kyrrstöðu síðustu ára og hafa kjark til stórra breytinga.

Skýr heildarsýn

Vandi heilbrigðiskerfisins er viðamikill og verður hvorki leystur með harðlínustefnu um rekstrarform né meiri peningum einum saman. Það er ákall eftir að gera miklu betur og það ætlum við að gera.

Samfylkingin hefur skýra heildarsýn á þróun heilbrigðisþjónustunnar og kjark til að leiða nauðsynlegar breytingar. Það þarf vissulega að auka fjármagn til muna til heilbrigðisreksturs víða, en það þarf líka að bæta forgangsröðun í kerfinu svo að krónurnar og starfskraftarnir nýtist sem allra best.

Skerpa þarfa verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu og hlutverkum hinna ýmsu eininga kerfisins. Mótum skýra stefnu þar sem tekin er afstaða til þess hvaða starfsemi er best komin hvar og hvaða þjónustu er best að kaupa að utan.

Burt með biðlista

Það er sama sagan víða í heilbrigðiskerfinu: Kerfisbreytinga er þörf til að snúa við versnandi þróun, til dæmis í heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, til að vinna niður allt of langa biðlista og leysa viðvarandi vanda hjúkrunarheimila. Þá þarf þjóðarátak í geðheilbrigðismálum sem hafa verið vanrækt alltof lengi. 

Sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið

Samfylkingin vill halda gjaldtöku fyrir almenna heilbrigðisþjónustu í lágmarki til að tryggja jafnt aðgengi allra óháð efnahag. Brýnt er að lækka hámarksgreiðslur. Greiðsluþátttaka sjúklinga er nokkuð meiri á Íslandi en í öðrum norrænum ríkjum og það sama á við um lyfjakostnað. Koma þarf á laggirnar einu greiðsluþátttökukerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartæki og annan sambærilegan kostnað. 

Þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu - ókeypis fyrir börn

Geðheilsu barna og unglinga á Íslandi er að hraka með vaxandi einkennum kvíða og þunglyndis. Það er ólíðandi. Við viljum að niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu verði fjármögnuð ­– og byrjað á því að gera sálfræðiþjónustu barna og unglinga upp að 25 ára aldri gjaldfrjálsa. Útrýmum biðlistum á BUGL og tryggjum börnum með alvarlegar þroskaskerðingar greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Eflum geðheilbrigðisþjónustu um allt land með því að fjölga geðlæknum í föstum stöðum á landsbyggðunum. Þá viljum við tryggja að íbúar á hjúkrunarheimilum njóti fullnægjandi geðþjónustu og þverfaglegrar meðferðar.

Sterkt opinbert heilbrigðiskerfi

Samfylkingin vill að kjölfesta og meginþungi heilbrigðisþjónustunnar sé í opinberum rekstri.

Þegar einkaaðilar fara með rekstur smærri eininga í heilbrigðiskerfinu er algjör nauðsyn að hið opinbera axli ábyrgð á almannahagsmunum með því að vera upplýstur og gagnrýninn kaupandi þjónustunnar. Koma þarf á virku gæðaeftirliti með einkarekinni heilbrigðisþjónustu.

Tryggjum heilbrigði kvenna

Komum skikki á leghálsskimanir strax og suðlum að aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og atvinnurekenda um sértæka sjúkdóma kvenna og bætta þjónustu vegna þeirra. Aukum fræðslu um afleiðingar og einkenni ofbeldis í heilbrigðiskerfinu öllu og tryggjum viðeigandi viðbrögð.

Nýr Landspítali

Ljúkum uppbyggingu nýs Landspítala á tilsettum tíma og tryggjum viðunandi fjármögnun þannig að spítalinn geti sinnt hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús og í þágu landsmanna allra. Geðdeildir Landspítalans eiga þar ekki að vera undanskildar. Hefjum undirbúning uppbyggingar nýrra geðdeilda með nútímalegri nálgun að meðferð sjúklinga með geðrænar áskoranir að leiðarljósi. Gera þarf heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi til að gera nauðsynlegar breytingar á málaflokknum í þágu notenda þjónustunnar. Hugmyndafræði og innihald þjónustunnar þarfnast endurskoðunar samhliða endurskoðun á húsakostum.

Eflum heilsugæsluna enn frekar sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu um land allt. Aukum áherslu á þverfaglega teymisvinnu í heilsugæslunni.

Jafnt aðgengi óháð búsetu

Hvar þú býrð á landinu á ekki að skipta máli þegar kemur að aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Við viljum fela Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að sérhæfðri þjónustu með samningum við heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum, bæði með heimsóknum og fjarlækningum. Einkastofur lækna ættu líka að sjá íbúum dreifðari byggða fyrir þjónustu. Eflum sjúkraflutninga, bæði á landi og í lofti, og samræmum þjónustuna á landsvísu.

Bætt fjármögnun hjúkrunarheimila

Léttum á útskriftarvanda í spítalaþjónustu með áherslu á stóraukna heimaþjónustu og með markvissri fjölgun hjúkrunarrýma, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem biðlistar eru lengstir. Greiðslur til hjúkrunarheimila verða að samræmast kostnaði við rekstur þeirra. Samfylkingin vill vinna áfram að aukinni samþættingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu á vegum sveitarfélaga í nánu samstarfi við heilsugæsluna til að samstilla sem best þjónustu við aldraða og fólk með fötlun eða langvinna sjúkdóma, heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu.