Fjölskyldur í forgang

Samfylkingin vill styðja við fjölskyldur, stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og bæta kjör eldra fólks og öryrkja.

Betra líf fyrir fjölbreyttar fjölskyldur

Samfylkingin vill endurreisa stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur, ráðast í kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði og bæta kjör eldra fólks og öryrkja, sem hafa dregist langt aftur úr öðrum hópum á undanförnum árum.

Stóraukinn stuðningur við barnafjölskyldur 

Við ætlum að greiða barnafjölskyldum hærri barnabætur og gera það í hverjum mánuði til þess að þær nýtist betur. Þá njóta fleiri barnabóta en áður og allar fjölskyldur upp að meðaltekjum fá þær óskertar. Þannig endurreisum við stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur á Íslandi. Það munar um það á flestum heimilum.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Greiða fullar barnabætur með öllum börnum til foreldra með allt að meðaltekjum (u.þ.b. 1200 þúsund á mánuði hjá pari eða 600 þúsund krónur fyrir einstætt foreldri), þannig að meðalfjölskylda með tvö börn, sem nú fær engar barnabætur, fái 54 þúsund krónur í hverjum mánuði og einstæðir foreldrar 77 þúsund krónur á mánuði.
 • Hækka þak á greiðslur í fæðingarorlofi í samræmi við launaþróun og vinna með sveitarfélögum að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hækka fæðingarstyrk námsmanna og foreldra utan vinnumarkaðar í dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.
 • Á Íslandi fær meðaltekjufjölskylda með tvö börn engar barnabætur en annars staðar á Norðurlöndum fengi sama fjölskylda allt að 50 þúsund krónur á mánuði. Frá árinu 1990 hefur stuðningur með hverju barni minnkað um meira en helming hérlendis í hlutfalli við landsframleiðslu.

Heilbrigðari húsnæðismarkaður

Við ætlum að hafa forystu um grundvallarstefnubreytingu í húsnæðismálum til að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað til framtíðar. Við teljum að lausnin felist í stórauknum framlögum til að byggja hagkvæmt húsnæði. Það dregur úr sveiflum og neikvæðum áhrifum á verðlag og vexti. Fjölskyldur eiga rétt á húsnæðisöryggi hvort sem þær eiga heimili sitt eða leigja. Húsnæðiskostnaður er mesti útgjaldaliður flestra heimila og verðsveiflur á fasteignamarkaði, miklar breytingar á vöxtum og ófyrirsjáanleiki um leigu skapa óöryggi og ýta undir ójöfnuð og fátækt.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Byggja 1000 leigu- og búseturéttaríbúðir á hverju ári með húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða, sem yrðu þá 1/3 af árlegu byggingarmagni. Það kallar á tvöföldun stofnframlaga. Með því fjölgum við íbúðum um allt land fyrir tekjulægri hópa og temprum verð fyrir alla. Þannig lækkar húsaleigan.
 • Styðja við rannsóknir og nýsköpun í þróun bygginga og húsnæðis til að ná niður byggingarkostnaði og byggja ný græn íbúðarhverfi.
 • Huga sérstaklega að því að tryggja framboð á íbúðum fyrir ungt fólk og húsnæðiskjarna fyrir eldra fólk.
 • Færa húsnæðis- og byggingarmál undir eitt ráðuneyti sem hefur yfirsýn og ber ábyrgð á uppbyggingu um land allt. 
 • Við viljum styðja í miklu meiri mæli beint við byggingu íbúða. Það er besta leiðin til að auka framboð og tempra verð á húsnæði fyrir alla. Húsnæði er grunninnviðir og stjórnvöld eiga að skapa kjölfestu sem markaðurinn getur síðan byggt á. Þetta er langtímaverkefni sem Samfylkingin vill hafa forgöngu um í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. 

Betri kjör fyrir eldra fólk og öryrkja

Við ætlum að stórbæta kjör eldra fólks og öryrkja með því að hækka greiðslur í skrefum og byrja strax. Eldra fólk og öryrkjar hafa dregist langt aftur úr í lífskjörum á síðustu árum og hvergi eru skerðingar í almannatryggingum meiri en á Íslandi. Þessu verður að breyta. Það vill Samfylkingin gera með því að stíga markviss skref í upphafi kjörtímabilsins og vinna að frekari kjarabótum í framhaldinu. Samfylkingin vill heildarendurskoðun almannatrygginga á næsta kjörtímabili. Markmið okkar er að lífeyrir verði ekki lægri en lægstu laun, að dregið verði úr skerðingum, að frítekjumark lífeyrisgreiðslna verði fjórfaldað upp í 100.000 og að frítekjumark atvinnutekna verði þrefaldað upp í 300.000.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera strax?

 • Hækka greiðslur almannatrygginga til samræmis við krónutöluhækkun kjarasamninga og stöðva kjaragliðnun síðustu ára. Það yrði fyrsta skref í hækkun lífeyris og þess gætt að hækkanirnar hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur. 
 • Hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna, sem hefur staðið í stað síðan árið 2010, úr tæpum 110 þúsund krónum á mánuði upp í 200 þúsund.
 • Tvöfalda frítekjumark eldra fólks vegna lífeyrissjóðsgreiðslna úr 25 þúsund krónum á mánuði upp í 50 þúsund og hækka frítekjumark atvinnutekna eldra fólks í 200 þúsund krónur.

Hlaða niður stefnu

Viltu skoða stefnuna á PDF? Gjörðu svo vel!

Hlaða niður á PDF