Eldhúsdagur - ræða Loga

Það er vor í lofti og tilhlökkun í fólki. Með góðum árangri í bólusetningum, ættum við sem flest að komast inn í sumarið með von um bjartari tíma.

Við skulum vera þakklát framlínufólkinu sem hefur staðið í stafni baráttunnar síðasta árið;  hlúð að þeim sem hafa veikst, varið okkur hin, og tryggt að börn geti sótt skóla og lífið gengi eins vel og mögulegt var.

Það berast líka jákvæðar fréttir úr ferðaþjónustunni - þeirri mikilvægu atvinnugrein.  Það er gleðilegt að heyra af smáum fyrirtækjum um allt land - fjölskyldufyrirtækjum og einyrkjum sem sjá bókanirnar lifna við eftir að hafa þreytt erfiðan þorrann.

Um leið og við gleðjumst yfir því að lífið sé að færast í eðlilegra horf, skulum við tryggja að vel takist til við uppbyggingu atvinnulífsins: Ekki ræsa vélina óbreytta, heldur fjölga stoðunum, slá nýja tóna, styðjum miklu betur við nýsköpun, og fjárfesta þannig að ferðamenn dreifist vel um okkar fallega land.

Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að faraldurinn hefur lagst mis þungt á fólk – heilsufarslega – en ekki síður efnahagslega.

að teiknast upp: er ljóst að það stefnir í það sem hagfræðingar kalla K-laga kreppa: sumir verða miklu efnaðri, en aðrir hafa ennþá minna milli handanna en áður: Það var ekki gripið til nægilega markvissra aðgerða fyrir þau sem þurftu mest á aðstoð að halda. Það fólk hef­ur neyðst til að eyða sparnaði sínum eða skuld­setja sig til að ráða við hrikalega erfiðar aðstæður.

Síðasta ár höfum við séð einstaklega skýrt hversu lítið samhengi getur verið á milli meðaltala og aðstæðna einstakra hópa.

Og þótt tekjujöfnuður mælist hér mikill fer eignaójöfnuður hratt vaxandi og tölur frá fjármálaráðuneytinu stðfesta að fámennur hópur rakar til sín obbanum af nýjum auði.  Bilið breikkar á milli almennings og fárra auðjöfra, sem herða sífellt tökin á flestum sviðum samfélagsins.

En við þurfum líka að horfa í gegnum gegnum kófið - sem veirufaldurinn þyrlaði upp - skoða hvað þessi ríkisstjórn hefur áorkað og hversu vel núverandi stjórnarmynstur er í stakk búið til að mæta flókinni framtíð.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf kjörtímabilsins sagði heilbrigðisráðherra: Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu.… Skoðum þá aðeins stöðu heilbrigðiskerfisins í lok þessaa kjörtímabils.

Að sögn formanns félags bráðalækna hefur aldrei verið jafn alvarleg undirmönnun á bráðadeild Landspítalans og stefnir í í sumar og yfirgnæfandi líkur á alvarlegum atvikum,  jafnvel mannslátum á deildinni. -  Hjúkrunarheimili víða um land stefna í þrot vegna áralangrar vanfjármögnunar ríkisins og íslensk ungmenni fá ekki nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Það er enginn geðlæknir í fastri stöðu á landsbyggðunum. Öllu þessu ber ríkisstjórnin ábyrgð á.

Nú í kjölfar heimsfaraldurs, eigum við að verðlauna ósérhlífni heilbrigðisstarfsfólks og samstöðu almennings síðustu mánuði með því að fjármagna íslenskt heilbrigðiskerfi með fullnægjandi hætti. Almenningur hefur kallað eftir því árum saman.

Af þessu er hægt að draga eina niðurstöðu og allt aðra en heilbrigðisráðherra gaf sér: heilbrigðiskerfinu verður ekki bjargað í ríkisstjórn málamiðlana, kyrrstöðu, jafnvel niðurskurðar.

Herra forseti,

Það getur vel verið að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokka hafi hentað til að kæla stöðuna eftir skandala fyrri stjórna, en þessir flokkar munu ekki finna samhljóm til að ráða við risastór verkefni framundan.

Við höfum séð fjölda framfaramála stranda uppá sjálfu ríkisstjórnarborðinu - þrátt fyrir líklegan meirihluta í þingsal. Ég nefni afglæpavæðingu, rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og almennilegt auðlindaákvæði.

Málamiðlanir sem ósamstíga ríkisstjórn þarf að gera við hvert fótmál er rangt svar við flestu sem bíður okkar.

Það er nauðsynlegt að greiða veginn fyrir nýja ríkisstjórn að loknum kosningum sem er sammála um megin verkefnin framundan. Ríkisstjórn sem er óhrædd við nýja framtíð og nógu opin til að nýta skapandi lausnir til að takast á við ójöfnuð, loftslagsógnina og breytingar á vinnumarkaði.

Kæru landsmenn,

Samfylkingin er tilbúin í ríkisstjórn um framfarir, aukinn jöfnuð almannahagsmuni og sókn út úr þessaa kreppu.

Gleðilegt sumar!