Lýðheilsustefna Reykjavíkurborgar – betri borg fyrir börn

Ellen Calmon er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og ritari stjórnar Kvenréttindafélags Íslands

Fátt verður okkur úr verki, manneskjunum ef okkur líður ekki nægilega vel, andlega, líkamlega eða félagslega. Með Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 hefur Samfylkingin sett sér markmið að þjónusta borgarbúa með ráðum og dáð, umhverfi og innviðum til að sem flestum líði vel í borginni okkar. Þannig manneskjan nái að blómstra, nýta styrkleika sína, fái stuðning við það sem þarf til að geta lifað sjálfstæðu lífi í virkni, njóti jöfnuðar, menningar, menntunar og geti leikið sér og dafnað frá æsku til eldri ára á eins heilbrigðan máta og hverri er unnt.

Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn

Á borgarstjórnarfundi þann 1. júní sl. voru lögð fram drög að Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030. Með þessari stefnu og öðrum stefnum sem eru í bígerð hjá Reykjavíkurborg eru lýðræðisleg vinnubrögð í hávegum höfð. Þar er lögð áhersla á að leita álits og ráðgjafar hjá sem flestum hagaðilum, sérfræðingum og borgarbúum. Auk víðtæks samráðs og samstarfs var einnig stuðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmálann. Þess ber að geta að sérstaklega var haft samráð við börn í ferlinu en 21% borgarbúa eru börn undir 18 ára aldri.

Heilsueflandi nálganir og íslenska forvarnarmódelið

Eitt af markmiðum stefnunnar er að vinna markvisst með áhrifaþætti heilbrigðis á öllum æviskeiðum meðal annars með heilsueflandi nálgunum í samfélaginu svo sem í leikskólum, grunnskólum, frístundastarfi. Þar er verið að huga að framtíðarheilsu einstaklingsins og lagður grunnur að góðri heilsu barna sem hefur áhrif ævina út.

Reykjavíkurborg getur nú þegar státað sig af því að frístundastarf í borginni hefur um nokkra hríð unnið markvisst að heilsueflingu en þá eru 35 af 63 leikskólum heilsueflandi leikskólar og 29 grunnskólar af 36 heilsueflandi grunnskólar.

Þá er Reykjavik fyrirmyndarborg í forvörnum en íslenska forvarnarmódelið er samfélagsmiðuð nálgun sem byggir á samstarfi fjölmargra aðila í nærumhverfi barnsins, bæði fagaðila í íþrótta- og tómstundum og foreldra. Aðferðin hefur vakið athygli víða um heim og hefur haft þau áhrif að áfengis- og vímunefnaneysla ungmenna hefur dregist margfalt saman frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Þá er frístundakort borgarinnar einnig nátengt þessu íslenska forvarnarmódeli þar sem það er hvatning fyrir börn til að stunda skipulagt tómstundastarf og vera virk undir leiðsögn fagfólks.

Hlustum á börnin

En til að viðhalda góðum árangri í forvörnum verðum við, allt samfélagið, að vera á tánum þar sem tímarnir breytast. Við verðum áfram að veita börnum og ungmennum greiðan aðgang að auðlindum borgarsamfélagsins, menningu, menntun, íþróttum, tómstundum, umhverfi og náttúru. Við eigum einnig að leggja áherslu á að leita álits hjá þeim um málefni sem þau varðar og þannig trúi ég að við búum betri borg fyrir börn.

Að lokum vil ég hvetja alla borgarbúa til að kynna sér stefnuna og senda inn umsögn í gegnum „Betri Reykjavík“ því öll getið þið haft áhrif.  https://lydheilsustefna.betrireykjavik.is/community/3284

Greinin birtist fyrst i Morgunblaðinu