Rauð viðvörun og hvað svo?

Rósa Björk er þingkona og skipar 2. sæti í Reykjavík suður. Hér skrifar hún um loftslagsbreytingar og nýja skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Rósa Björk,
Rósa Björk Brynjólfsdóttir Þingmaður

Nýjasta skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) inniheldur óhugnanlegustu fregnir nefndarinnar hingað til en þær hafa verið gefnar út á 7 ára fresti. Helstu tíðindi skýrslunnar staðfesta það sem vísinda – og fræðifólk hefur varað við um árabil; að athafnir mannanna eru meginástæða fyrir margvíslegum og afdrifaríkum loftslagsbreytingum og nánast fullkomin fylgni er á milli losunar og hlýnunar loftlags.

Enn eitt sumarið höfum við séð miklar öfgar í veðurfari. Erlendis hafa hitabylgjur geisað í Evrópu, Ameríku, Afríku og Ástralíu með ofsalegum hitum, þurrkum og ofankomu sem slá öll met. Afleiðingarnar er mikið tjón á húsum, vegum, brúm og öðrum innviðum en skógareldarnir hafa líka verið  mannskæðir bæði Vestanhafs og í Evrópu og mannskæð flóð í Evrópu og Asíu. Enda hafa undanfarin sex ár verið þau hlýjustu frá upphafi mælinga.

En samkvæmt skýrslu milliríkjanefndarinnar er þetta bara forsmekkurinn af því sem koma skal. Öfgar í veðurfari á borð við hitabylgjur, þurrkar og ofsaregn með tilheyrandi hamförum hafa aukist og munu halda áfram að aukast ef ekki tekst að halda hlýnun jarðar undir settu marki um 1,5 gráður umfram meðalhita fyrir iðnbyltingu. Hlýnunin er nú 1,25 gráður og mun ef ekki er tekið í handbremsuna fara yfir 1,5 gráður á næstu tveimur áratugum. Það brýtur yfirlýst markmið Parísarsamkomulagsins og verður líklega yfir 2 gráður fyrir lok aldarinnar. Það mun hafa í för með sér enn frekari öfgar í veðri með tilheyrandi eyðileggingu og mannskaða. 

Ísland er ekki eyland

Hér á landi förum við ekki varhluta af loftslagsbreytingum þó sumir vilji halda því fram. Bráðnum jökla er á áður óþekktum hraða, enda kemur fram í skýrslu IPCC að meðalrýrnun jökla síðustu 30 ára samsvari því að bæði Hofsjökull og Langjökull hverfi á hverju ári í heiminum. Á hverju ári.  Á Íslandi eru hitamet slegin hvað eftir annað, breytingar á lífríki sjávar og lands eru vel merkjanlegar og jarðsig verða sem eiga rætur að rekja til gríðarlegrar mikillar ofankomu á stuttum tíma eins og urðu á Seyðisfirði í vor. 

Viðbrögð á Íslandi ekki í samræmi við viðbrögð erlendis

Ef ástandið er ekki neyðarástand, þá veit ég ekki hvað getur talist til þess.  Þó hefur forsvarsfólks ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar neitað að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Þó leiðtogar heims, umhverfisverndarsamtök og ótal sérfræðingar í loftslagsmálum krefjist mun róttækari og kraftmeiri aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum, hefur alls ekki verið stemmning fyrir því hjá núverandi ríkisstjórn.  Viðbrögð æðstu ráðamanna Þýskalands við mannskæðum flóðum voru öll á eina lund; loftslagsbreytingar væru greinilega ein af aðalástæðunum fyrir mannskaðaflóðunum.

Þetta sögðu Þýskalandsforseti, innanríkisráðherra Þýskalands og Angela Merkel, Þýskalandskanslari, sem hefur lagt mikla áherslu á að í viðbrögðum við flóðunum þar, þurfi að bregðast miklu hraðar og sterkar við loftslagsbreytingum en áður. Í sama streng taka ráðamenn í Kaliforníu og í Kanada vegna ógnarhita þar í sumar. Ef við beinum sjónum okkar til Íslands hefur lítið sem ekkert farið fyrir loftslagsmálunum í sumar í máli forystufólks ríkisstjórnarinnar sem virðist vera að þrotum komin eftir eftirgjöf í Miðhálendisþjóðgarðsmálinu og borin von er að þessi ríkisstjórn sameinist í því að boða róttækari, skýrari og afdráttarlausari aðgerðir í loftlagsmálum. Enda ekki hægt að ætlast til að ríkisstjórn sem nær ekki saman um 2 metra í sóttvörnum nái saman um loftlagsmál. Þar skortir pólitíska framsýni og samheldni. 

Hvað þarf að gera? 

Það er alveg ljóst að við þurfum að bregðast við þessum upplýsingum í IPCC skýrslunni með mun róttækari og afgerandi hætti en hefur verið gert. Samfylkingin vill gera það. Og hefur gert það sem leiðandi stjórnmálaafl í Reykjavíkurborg og víðar um land þar sem hún situr við stjórnvölinn. Græna planið í Reykjavík er afar metnaðarfullt merki um þennan vilja og aðgerðir. Hamfarahlýnun af mannavöldum kallar nefnilega á stórtækari aðgerðir strax og nýja hugsun á öllum sviðum samfélagsins.

Markmið Samfylkingarinnar um efnahagslega endurreisn eftir COVID-19 faraldurinn helst þétt í hendur við stefnu okkar um græna umbyltingu í íslensku atvinnulífi. Samfylkingin vill að stefnt verði að minnst 60 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, svo áætlanir okkar standist samanburð við loftslagsmarkmið annarra norrænna ríkja, og að Ísland stefni á að verða kolefnislaust frá og með árinu 2040. Þessi markmið verði fest í lög án tafar og lagðar fram tíma- og tölusettar aðgerðaáætlanir með áfangamarkmiðum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Við viljum að öll sveitarfélög geri sér metnaðarfulla áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem er að minnsta kosti með sömu markmið og ríkið. Brýnt er að viðhaft verði fullt gagnsæi í samvinnu stjórnvalda við ESB-ríkin og staðið við fyrirheit og tímasetningar því Samfylkingin vill að Íslendingar standi að fullu við tímasettar alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Ekki má einblína á þá losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda samkvæmt þeim skuldbindingum, heldur verður einnig að greina raunverulega heildarlosun, þar sem landnotkun og stóriðja eru tekin með í reikninginn, og setja metnaðarfull markmið um samdrátt.

Styrkja þarf stjórnsýslu loftslagsmála og Loftslagsráð á að gegna sjálfstæðu aðhalds- og eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum. Við viljum banna bruna og flutning á svartolíu á Norðurslóðum og Ísland á ​að vinna að þessu markmiði á vettvangi IMO, Norðurskautsráðsins, á vettvangi norrænnar samvinnu og í samvinnu við önnur Evrópuríki. Banna skal með lögum borun eftir jarðefnaeldsneyti á íslensku yfirráðasvæði.  Við verðum að gera byltingu í almenningssamgöngum því raf-, metan- eða vetnisbílavæðing dugar skammt ef ná á markmiðum Parísarsáttmálans.

Brýnt er að framkvæmdum vegna Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingu stofnleiða fyrir hjólreiðar verði flýtt eins og kostur er.  Við viljum líka að það verði einfalt og aðgengilegt að ferðast um Ísland án þess að eiga eða leigja einkabíl. Koma þarf upp heildstæðu og umhverfisvænu neti almenningssamgangna sem er knúið vistvænum innlendum orkugjöfum. Móta þarf metnaðarfulla stefnu um rafvæðingu innanlandsflugs og annarra styttri flugferða. Samfylkingin vill beita skattalegum hvötum til að draga úr kolefnisspori sjávarútvegsins og tryggja að öll ný skip gangi fyrir endurnýjanlegri orku að fullu eða að hluta. Hættan sem sjávarútvegi okkar stafar af loftslagsbreytingum er mikil, ekki síst vegna súrnun sjávar, og við viljum beita okkur fyrir stórauknum rannsóknum á því sviði

Samfylkingin vill styðja við þróun loftslagslausna og græns hátækniiðnaðar og auka vægi loftslagsvænnar atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Þetta verður meðal annars gert með stofnun græns fjárfestingarsjóðs í eigu hins opinbera í samstarfi við einkafjárfesta og sveitarfélög og tekur mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og af vísinda- og tæknistefnu Íslands í allri sinni starfsemi og ýtir undir góða stjórnarhætti í félögum sem hann fjárfestir í. 

Til þess að ná árangri í loftslagsmálum þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum í samgöngum og iðnaði, á sjó, landi og í innanlandsflugi. Við viljum líka styðja við uppbyggingu rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land svo raunhæft verði að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025. Samhliða þessu þarf að styrkja flutnings- og dreifikerfi rafmagns svo að orkan í kerfinu sé betur nýtt og standi undir auknu álagi vegna orkuskiptanna.

Bregðumst við núna áður en of seint 

Allt þetta og miklu meira til í loftslags – og umhverfismálum viljum við gera ef Samfylkingin kemst til valda eftir næstu kosningar. Það þarf bráðnauðsynlega að grípa til róttækra aðgerða til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Góðu fréttirnar eru þær, að það er ekki of seint að bregðast við þótt tíminn sé að renna okkur úr greipum. Með róttækum aðgerðum til að stöðva losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda má enn koma í veg fyrir að hlýnunin verði meiri en þær 1,5 gráður sem að er stefnt í Parísarsamkomulaginu.

Það er hægt EF samfélagslegur og pólitískur vilji er fyrir hendi. Athafnir okkar mannanna eru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi eins og segir í kynningu Háskóla Íslands og Veðurstofunnar á IPCC skýrslunni. Það er því skylda okkar mannanna og ábyrgð að bregðast við þessum ógnvænlegu tíðindum. Við  getum það ef við viljum. 

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 10. ágúst.