Styðjum Afgana

Rósa Björk er þingkona Samfylkingarinnar og fyrrv. varaformaður Flótta-mannanefndar Evrópuráðsþingsins - hún skipar 2. sæti í Reykjavík suður í komandi alþingiskosningum.
Mikil óvissa ríkir í Afganistan og algjört áfall að talíbanar hafi lagt landið undir sig.
Eins og í öllum stríðum hafa átökin síðustu 20 ár bitnað mest á saklausum íbúum landsins. Konur og börn eru 80% þeirra tæplega 3 milljóna Afgana sem hafa flúið heimili sín frá því stríðið hófst. Fjöldi Afgana sem flýja til Evrópu hefur vaxið mikið og sérstaklega afganskra barna á flótta.
Þátttaka Íslands í Afganistan var ein umfangsmesta aðkoma okkar að verkefni öryggismála, endurreisnar og eflingu stjórnarfars í erlendu ríki. Landið er eitt af okkar áherslulöndum í þróunarsamvinnu og áherslan á stuðning við afganskar konur og jafnréttismál.
Vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við innrásina í Afganistan og þátttöku í friðargæslu, berum við ábyrgð og skyldu til að sýna Afgönum stuðning. Ekki bara af því að það er hluti af okkar skyldum á alþjóðavettvangi, heldur af því við tókum þátt í því að byggja landið upp eftir stríðsátök.
Nú þegar bæði félagsmálaráðherra og forsætisráðherra hafa lýst því yfir að skoða þurfi nánar móttöku afganskra flóttamanna, þá er rétt að minna á að þessir ráðherrar lofuðu 2019 að taka á móti viðkvæmum hópum afganskra flóttamanna en þau loforð hafa ekki raungerst. Eins og loforð sömu ráðherra um móttöku barna á flótta í Moria-flóttamannabúðunum sem brunnu til grunna á síðasta ári. Ekkert hefur spurst til þeirra flóttabarna næstum ári síðar. Trúverðugleikinn í málefnum flóttafólks er því ekki mikill.
Við þurfum að ákveða strax hvers konar stuðningur gagnast Afgönum í neyð sem okkur ber að styðja við, til dæmis móttaka kvenna og barna og samstarfsfólks Íslendinga í Afganistan. Við verðum að vinna þétt með hinum Norðurlöndunum, Flóttamannastofnun S.Þ., ESB og taka virkan þátt í umræðum á vettvangi NATO, hjá Sameinuðu þjóðunum og í Mannréttindaráði S.Þ.
Setjum núna sérstakan fókus á málefni flóttamanna frá Afganistan og ákveðum strax að setja umsóknir Afgana sem hafa sótt um hæli hér á landi í forgang.
Styðjum Afgana út frá ábyrgð okkar og reynslu.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. ágúst 2021.