Best fyrir barnafólk

Helga Vala fréttabanner

Fátækt er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk ákvörðun. Þannig er það pólitísk ákvörðun að 6000 börn búi við fátækt á Íslandi. Samfylkingin hefur sýnt að þar sem hún stjórnar beitir hún sér sérstaklega í þágu barna og barnafjölskyldna og það höfum við líka á stefnuskránni á komandi kjörtímabili við stjórn landsins.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Best fyrir börnin

Það hefur verið sérstakt metnaðarmál meirihlutans í Reykjavík undir forystu Samfylkingarinnar að bæta vinnuumhverfi barna og starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi með auknu fjármagni í faglegt starf og undirbúning, fjölgun fagfólks, fækkun barna í hverju rými ofl. Til viðbótar eru leikskólagjöld í Reykjavík með því lægsta sem þekkist hér á landi.

Bylting er að verða í leikskólaúrræðum í Reykjavík til hagsbóta fyrir ungbarnafjölskyldur þar sem búið er að opna yfir 30 ungbarnadeildir, bæta við rúmlega 300 nýjum leikskólaplássum á kjörtímabilinu og næstu fjóra mánuði fjölgar um önnur 300. Á fyrstu mánuðum nýs árs opna svo þrír nýir leikskólar til viðbótar og plássum verður fjölgað enn frekar við starfandi leikskóla. Við ætlum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla!

650 þúsund á ári í barnabætur

Á komandi kjörtímabili ætlum við í Samfylkingunni að létta róður barnafjölskyldna með uppbyggingu alvöru barnabótakerfis að norrænni fyrirmynd. Foreldrar á meðallaunum með um 600 þúsund á mánuði hvort um sig fá þannig óskertar bætur með hverju barni í hverjum mánuði þannig að fjölskyldur með tvö börn fá mánaðarlega 54 þúsund krónur eða 650 þúsund á ári. Einstætt foreldri fær mánaðarlega tæpar 78 þúsund eða 930 þúsund á ári. Þetta gerum við til að fjárfesta í börnum til framtíðar, því það er góð hagstjórn að búa vel að börnum og barnafjölskyldum.

Það er hægt að kjósa með börnum í kosningunum á laugardag með því að kjósa Samfylkinguna. Við höfum útfærðar fjármagnaðar tillögur og við stöndum við það sem við segjum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. sept.