Betra líf fyrir fjölskyldur

Betra líf fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir. Þetta er meginmarkmið Samfylkingarinnar og yfirheiti kosningastefnu okkar fyrir komandi kosningar.

Logi Einarsson Þingflokksformaður

Áherslur okkar í Samfylkingunni snúast um tvennt fyrir þessar kosningar: lífskjör almennings og loftslagsmál. Þær aðgerðir sem við leggjum til eru sannarlega metnaðarfullar, en þær eru líka raunsæjar.

Við ætlum að innleiða hér alvöru norrænt barnabótakerfi og greiða fleiri fjölskyldum út hærri barnabætur, þannig að barnafjölskyldur með meðaltekjur fái allt að 54.000 krónur í vasann mánaðarlega. Einstæðir foreldrar meira. Við ætlum að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í samvinnu við sveitarfélögin. Við ætlum að stórbæta lífskjör eldra fólks og öryrkja með því að hækka grunnlífeyri, draga úr skerðingum og hækka frítekjumörk til muna. Og við ætlum að skipta um kúrs á húsnæðismarkaðnum áður en hann fer alveg úr böndunum, auka framboð og lækka leiguverð.

Við ætlum að setja fjölskylduna í forgang.

Í loftslagsmálum ætlum við að hefja kraftmikla sókn sem líkja má við hin stóru samfélagsverkefni 20. aldar: raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Það er hægt – það er aðkallandi – og það er spennandi. En til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins. Skýrari markmið, metnaðarfyllri aðgerðaáætlun, hraðari orkuskipti, stórsókn í almenningssamgöngum; öll svið samfélagsins eru undir.

Við ætlum líka að bregðast við ákalli almennings um betri heilbrigðisþjónustu. Samfylkingin ætlar að auka fjármagn bæði í heilbrigðiskerfið og í forvarnir, bæta starfsskilyrði og mönnun, stytta biðlista og tryggja aðgengi fólks um land – og ráðast í stórátak í geðheilbrigðismálum!

Allt eru þetta hagsmunamál almennings. En til þess að ráðast í þessi stóru verkefni þurfum við annars konar ríkisstjórn en þá sem nú situr og lítur á biðlista sem eina tegund stöðugleika.

Við þurfum ríkisstjórn sem setur fjölskyldur í forgang.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. ágúst.