Engin innantóm flugeldasýning heldur raunverulegar aðgerðir

Viðar, reykjavík,

Eldra fólk og öryrkjar hafa dregist langt aftur úr í lífskjörumá síðustu árum og hvergi eru skerðingar í almannatryggingum meiri en á Íslandi. Þessu verður að breyta. Það vill Samfylkingin gera með því að stíga markviss skref í upphafi kjörtímabilsins og vinna að frekari kjarabótum í framhaldinu.

Samfylkingin vill ekki draga saman í ríkisfjármálum um 100 milljarða eins og ríkistjórnarflokkarnir hyggjast gera ef þeir halda völdum. Þetta er yfirlýst markmið í fjármálastefnu stjórnvalda fyrir næstu 4 ár.

Það er fullljóst hvar þeir ætla að skera niður: Það er á velferðarsviði; skera niður velferð almennings. Hins almenna Íslendings.

Samfylkingin vill halda sjó í málaflokkum sem varðar almenning og þeirra daglega líf og lítur á ríkisfjármál sem langhlaup, en ekki skammhlaup. Ríkið getur tekið á sig byrðar til lengri tíma sem venjulegt fólk sem rekur sín heimili frá degi til dags getur að jafnaði ekki gert.

Samfylkingin vill byggja upp til framtíðar því það er góð fjárfesting.

Því leggur Samfylkingin til að ekki verði dregið úr almannaþjónustu og velferð, heldur gefið í. Þeim til hagsbóta sem lakar standa og eru í viðkvæmri stöðu. 

Markmið okkar í Samfylkingingunni er:

·      Að lífeyrir verði ekki lægri en lægstu laun.  

·      Að frítekjumark lífeyristekna verði fjórfaldað, upp í 100.000 kr.

·      Að frítekjumark atvinnutekna verði þrefaldað, upp í 300.000 kr.

Þetta gerum við strax

Samfylkingin veit að það er ekki hægt að bíða eftir því réttlæti sem ríkisstjórnin lofaði og hefur svikið.

Samfylkingin lofar því ákveðnum kjarabótum strax í haust komist hún í ríkisstjórn.

·      Að hækka greiðslur almannatrygginga til samræmis við krónutöluhækkun kjarasamninga og stöðva kjaragliðnun síðustu ár. Það yrði fyrsta skref í hækkun lífeyris og þess gætt að hækkanirnar hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur.

·      Hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna, sem hefur staðið í stað síðan árið 2010, úr tæpum 110 þúsund krónum á mánuði upp í 200 þúsund.

·      Tvöfalda rítekjumark eldra fólks vegna lífeyrissjóðstekna úr 25 þúsund króna á mánuði í 50 þúsund og hækka frítekjumark atvinnutekna eldra fólks í 200 þúsund krónur.

Einnig að þá strax hefjist endurskoðun laga um almannatryggingar sem miði að því að rétta hlut stórs hóps lág- og meðaltekju eftirlaunafólks. Sérstaklega þarf að horfa til þess að tekjutengingar verði ekki skarpar og þeim ekki beitt af því miskunnarleysi sem hefur einkennt lögin um almannatryggingar sem við höfum búið við allt þetta kjörtímabil.

Skarpar tekjutengingar og skerðingar sem bíta snemma geta hæglega skapað fátæktargildru fyrir fólk í lægri tekjuhópum.

Því viljum við endurskoða almannatryggingar í heild sinni. Einnig þarf að endurskoða skattalöggjöfina svo hinir tekjulægri, þar á meðal eldra fólk á eftirlaunum, sé ekki skattpínt inn að beini eins og nú er.

Fleira er matur en feitt kjöt

Stefna Samfylkingarinnar í málefnum eldra fólks og öryrkja nær ekki einungis til lífeyris. Enda skiptir líka máli hvað fæst fyrir fjármunina sem fólk hefur á milli handana.

Við erum með sterka og afgerandi stefnu varðandi lífsgæðakjarna með fjölbreyttum búsetuúrræðum eldra fólks, heimaþjónustu og -hjúkrun. Uppbyggingu heilbrigðiskerfis sem þjónustar fólk í þeirra nærumhverfi, hvar sem það býr á landinu.

Debet og kredit

Þessar aðgerðir kosta. Sá rekstrarkostnaður ríkissjóðs sem þarf að fjármagna á hverju ári vegna þeirra tillagna sem Samfylkingin vill innleiða eftir kosningar er um 25 milljarðar króna.  

Stærstu liðirnir eru stuðningurinn við barnafólk, öryrkja og eldra fólk.

Beinn kostnaður af þessum tillögum þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda er um 20 milljarðar króna á ári hverju. Til viðbótar þurfi að auka fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar.

Við leggjum til að lífskjarabæturnar verði fjármagnaðar með stóreignaskatti, hærri veiðigjöldum á stórútgerðir og hertu skatteftirliti.

Það hefur nefnilega verið dekrað nóg við sérhagsmunaöflin í landinu. Nú er kominn tími á almenning.

Við bætast áætlanir um arðbærar fjárfestingar í húsnæðismálum og grænni atvinnubyltingu sem er skynsamlegt að fjármagna með lántöku líkt og nágrannalöndin okkar í Evrópu ætla að gera. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að þjóðhagsleg arðsemi slíkra fjárfestinga er mikil enda skila þær sér í lægri rekstrarkostnaði víða um samfélagið auk þess að borga sig hratt upp.

Ekki skammvinn og fögur flugeldasýning

Stefna Samfykingarinnar varðandi næsta kjörtímabil er raunsönn og vel framkvæmanleg. Samfylkingin leggur hana fram til stjórnarmyndunar. Vissulega gætum við lagt fram stefnuskrá sem væri flugeldasýning til að ganga í augun á kjósendum. Slíkar flugeldasýnngar hverfa strax í næturmyrkrið, þá er betra að halda á lofti vönduðum  björtum kyndli sem lýsir fram á nýjan dag; inn í framtíðina.

Við ætlum í stjórn til að framkvæma. Við erum ekki að bjóða okkur fram til að hrópa úr ræðustól Alþingis án nokkurra áhrifa allt næsta kjörtímabil.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. sept.