Lýðræðið og þjóðaröryggi

Oddný frétta banner

Það var aðfaranótt 13. júní, fyrir fimm mánuðum síðan, sem fundum Alþingis var frestað. Frá kosningum eru liðnar sjö vikur og ekkert bólar á stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Reyndar sætir það furðu hversu langan tíma sú vinna hefur tekið.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Þingflokksformaður

Þetta eru jú sömu flokkar sem samþykktu í júní sl. stefnu fyrir öll málasvið ríkisins og fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Og gengu samstíga til kosninga.

Á meðan vinna þingmenn allra flokka við að skoða kosningaklúðrið í Norðvesturkjördæmi þar sem ásýnd lýðræðisins hefur beðið hnekki, heimsfaraldurinn nær hæstu hæðum með tilheyrandi afleiðingum og stefnt er að sölu eins af mikilvægustu innviðum landsins til erlendra fjárfesta.

Salan á Mílu ehf. er stórmál sem varðar íslenskan almenning og öryggi þjóðarinnar. Míla á stærsta hlutinn í stofnljósleiðara landsins á móti NATO og Míla sér um rekstur og viðhald allra þráðanna í strengnum.

Ljósleiðarastrengirnir eru undirstaða flestra fjarskiptakerfa sem notuð eru á Íslandi, þar á meðal símakerfis, farsímakerfis, Tetraneyðarfjarskiptakerfis, mikilvægra gagnatenginga fyrir helstu stoðkerfi landsins og almennrar internettengingar landsmanna.

Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri segir að ef erlend fjárfesting ógni öryggi landsins geti ráðherra stöðvað slíka fjárfestingu, enda kynni ráðherra ákvörðun sína innan átta vikna frá því að samningur er gerður. Samningurinn var gerður 23. október síðastliðinn. Því er hægt að stöðva söluna fyrir 17. desember.

Það væru stórkostleg mistök að ganga frá sölunni á Mílu án þess að stjórnvöld setji skýr skilyrði og Alþingi telji tryggt að þjóðaröryggis sé gætt.

Við Íslendingar höfum verið stolt af sjálfstæði okkar, af lýðveldinu og þingræðinu. En nú er staðan sú að Alþingi fær ekki að koma saman til að fjalla um mikilvæg mál sem varðar ásýnd lýðræðisins, heimsfaraldur eða öryggi þjóðarinnar, vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn dregur lappirnar við að koma saman stjórnarsáttmála og kosningu til Alþingis var klúðrað í NV-kjördæmi.

Eftir hverju er verið að bíða?