Misskilin förgun

Kristrún, þingflokkur, banner

Það verður varla þverfótað fyrir greinum í alþjóðlegum miðlum um stórkostleg afrek íslenska kolefnisförgunarfyrirtækisins Carbfix. Íslensk stjórnvöld hreykja sér af fyrirtækinu og vitna til förgunarlausnarinnar sem eins helsta drifkraft kolefnishlutleysis 2040.

Sé aðgerða­áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hins vegar skoðuð má sjá að fyrirtækið, líkt og önnur sem vinna að tæknilausnum í loftslagsmálum, hefur ekki séð krónu af fjármagni frá ríkinu.

Enginn skilningur virðist vera á mikilvægi skipulags stuðnings við svona verkefni, sem stjórnvöld þó byggja sín losunarmarkmið á.

Íhaldsstjórn Breta tekur skipulega utan um kolefnisförgunarferlið og fjármagnar skölun á verkefnum svo að þau séu fýsileg fyrir iðnaðinn í landinu. Eins milljarðs punda sjóður fyrir kolefnisförgunarinnviði hefur verið stofnaður. Ígildi 1,5 milljarða kr. innviðasjóðs hér á landi m.v. landsframleiðslu.

Hér heima höfum við Loftslagssjóð, þróunarsjóð sem úthlutaði 170 milljónum kr. til 24 verkefna í vor. Verkefni sem telja um 5 milljónir hvert. Nú eða styrkjakerfi Evrópusambandsins. Sem einmitt veitti Carbfix 600 milljóna kr. styrk um daginn, þann fyrsta úr þróunarsjóði sem fjármagnaður er með losunarheimildum.

Enda eru þau stórhuga í Evrópu. „Græni díllinn“ á að veita fjármagni sem nemur hátt í 2% af landsframleiðslu Evrópulandanna árlega til 2030 í græna umbreytingu. Þetta er fimmfalt á við árlegt framlag hér heima þegar best lætur samkvæmt núgildandi fjármálaáætlun; 13 ma. kr. árið 2023 eða 0,4% af landsframleiðslu.

Stærsti hluti þess fjármagns rennur svo til niðurgreiðslu á bílakaupum, sem eru að litlum hluta hreinir rafmagnsbílar, og til breyttra ferðavenja. Brotabrot fer í þróun lausna og mótun stefnu sem skapar áhugaverð störf fyrir ungt fólk hér á landi og hrindir hugmyndum í framkvæmd.

Stjórnvöld úthýsa fjármögnun á slíkum tækifærum, og mögulega síðar meir störfum, til Evrópusambandsins þrátt fyrir áhugaleysi um frekari samþættingu við sambandið.

Þetta er annað hvort gífurlegur misskilingur á eðli vandans eða afleiðing úreltrar og skammsýnnar efnahagsstefnu sem vegur á fjárfestingu í framtíðartækifæru

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. nóv. 2021