Saman erum við sterkari

Oddný frétta banner

Þing Norðurlandaráðs stendur yfir dagana 2.-4. nóvember þar sem ákvarðanir verða teknar um málefni sem brenna á norrænum þingmönnum og sem þeir telja brýnt að ríkisstjórnirnar finni lausn á.

Ákall er um þéttara samstarf landanna um ógnir sem ná yfir landamæri, s.s. loftslagsvá, netárásir og heimsfaraldra.

Norræna módelið um velferð fyrir alla, heilbrigðan vinnumarkað og ábyrga efnahagsstjórn hefur staðist tímans tönn og ágjöf pólitískra strauma. Norðurlandaráð leggur mikla áherslu á samstarf landanna um samfélagsöryggi og það verður eitt helsta málefni þingsins. Gestaræðumaður er Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.

Norrænt samstarf er afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga. Til Norðurlandanna höfum við sótt fyrirmyndina að réttlátu velferðarsamfélagi fyrir alla. Samstarfið er um lög, reglugerðir og alls konar ákvarðanir á opinberum vettvangi, um menntun og menningu, samstarf stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja. Samstarfið er einnig á pólitískum vettvangi.

Til dæmis hittast formenn jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum reglulega og sameiginlegir fundir eru með jafnaðarmannaflokkunum og verkalýðshreyfingum landanna. Kannanir sýna að næstum allir íbúar norrænu ríkjanna eru hlynntir norrænu samstarfi.

Grundvallarmarkmið Norðurlandaráðs er að gott sé að eiga heima, lifa og starfa á Norðurlöndum. Í ráðinu sitja 87 þingmenn. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga 20 þingmenn hvert land og Ísland á sjö.

Norðurlandaráð kemur saman tvisvar ár ári. Löndin skiptast á að gegna formennsku og þingið er haldið í því landi sem fer með formennsku sem er í ár Danmörk.

Stjórnmálastarf Norðurlandaráðs fer fram í nefndum og flokkahópum. Nefndirnar eru þekkingar- og menningarnefnd, sjálfbærninefnd, hagvaxtar- og þróunarnefnd, velferðarnefnd og eftirlitsnefnd sem fylgist með hvernig fjármagni er varið.

Flokkahóparnir skiptast í jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norræn vinstri græn, norrænt frelsi en tveir þingmenn eru utan flokkahópa. Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs fyrir bókmenntir, kvikmyndir, tónlist og umhverfisverkefni er einn af hápunktum þingsins.

Greinin birtist á vísi.is 2. nóv. 2021