Ógn við lýðræðið

Oddný banner

Í valdatafli nýta aðilar sér upplýsingaóreiðu til að rugla fólk í rýminu, til að veikja andstæðinginn og gera honum erfiðara um vik að verjast.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru alltaf hluti af stærri áætlun þeirra sem hag hafa af útbreiðslunni. Netárásir eru beinar árásir á nauðsynlega innviði samfélaga og geta bæði beinst að opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum.

Netárásir, upplýsingaóreiða og falsfréttir virða engin landamæri. Það er því afar brýnt að þjóðir vinni saman og standi saman gegn þessum ógnum. Við höfum séð skýr dæmi um afleiðingar; kosningarnar um Brexit, forsetakosningar í Bandaríkjunum árið 2016 og framferði Rússa í aðdraganda innrásar í Úkraínu.

Opin og frjáls lýðræðissamfélög líkt og okkar á Norðurlöndum eru ekki sjálfgefin. En þau eru bestu samfélög í heimi þar sem ríkir meira traust á milli manna en í öðrum löndum. Ein helsta ógn nútímans við samfélög og við lýðræðið í heild eru netárásir og upplýsingaóreiða.

Fjölmiðlar í lykilhlutverki

Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að finna leiðir til að standa vörð um opin og frjáls samfélög og líta á lýðræðið líkt og aðra nauðsynlega innviði sem tryggja þarf órofa virkni. Grípa þarf til varnar fyrir lýðræðið því án virks lýðræðis er samfélagið allt í hættu.

En hvað er til ráða? Menntun skiptir máli. Við þurfum að styrkja almennan þekkingargrundvöll og mennta unga fólkið okkar. En við þurfum einnig að mennta allan almenning sem getur dreift falsfréttum án þess að vita hvað að baki þeim býr. Við þurfum að efla tæknikunnáttu og einnig grunngildi norrænna samfélaga.

Ábyrgir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki við að greina og sjá í gegnum upplýsingaóreiðu og halda uppi lýðræðislegri umræðu meðal almennings. Blaðamenn njóta lagalegrar verndar til að geta gengt því hlutverki sem best. Árásir á blaðamenn sem sinna því mikilvæga starfi eru í raun árásir á lýðræðið og á frjáls opin samfélög.