Betri borg fyrir börn

Reykjavíkurborg hefur tekið ótvíræða forystu í menntamálum síðustu ár og ber þar hæst menntastefnu borgarinnar sem vakið hefur athygli fyrir áherslu á námsárangur og læsi en jafnframt þætti sem auka velferð og bæta líðan barna, s.s. heilbrigði, félagsfærni, sjálfseflingu og sköpun.

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Reykjavík hefur verið leiðandi í að bæta starfsumhverfi í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi og varið til þess yfir 5 milljörðum króna. Samfylkingin mun áfram leggja áherslu á bætt starfsumhverfi varðandi laun, starfskjör, húsnæði og annan aðbúnað enda er það forsenda þess að skólarnir í borginni séu eftirsóknarverðir vinnustaðir.

Frístundastyrkur hækki í 75 þúsund

Á nýju kjörtímabili skiptir mestu máli að jafna aðstöðu barna og styrkja sérstaklega stöðu barna sem eru í viðkvæmri stöðu. Við viljum hækka frístundastyrk í 75 þúsund með hverju barni og auka til viðbótar stuðning við börn fjölskyldna með þröngan efnahag. Við viljum auka fjármagn til skóla þar sem félagsleg og efnahagsleg staða foreldra er þrengri, auka stuðning við börn og tryggja að hann miðist við þarfir þeirra fremur en greiningar. Stuðninginn á að veita sem mest í nærumhverfi barna strax í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla í þéttu samstarfi skóla- og velferðarsviða úti í hverfum borgarinnar. Við höfum opnað 2 nýja leikskóla á þessu ári og opnum 6 til viðbótar á árinu til að geta boðið börnum frá 12 mánaða aldri í leikskóla, samhliða því að vinna með ríki og háskólum að því að fjölga kennaranemum og greiða leið starfsfólks til meiri menntunar.

Samfylkingin setur í forgang að efla geðrækt og heilbrigði barna og ungmenna og mun leita eftir samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Geðhjálp og heilbrigðisyfirvöld um virkar forvarnir og stuðning við börn sem finna fyrir kvíða, vanlíðan og þunglyndi. Markvissar aðgerðir strax í æsku til að efla geðrækt og andlegt heilbrigði munu spara háar fjárhæðir síðar meir og stuðla að góðu samfélagi fyrir okkur öll.