Borgarlína í Grafarvog 2025 – mikilvægur valkostur fyrir íbúa Grafarvogs

Á liðnu kjörtímabili hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 16.000. Þar af Reykvíkingum um 10.000.

Sara Björg Sigurðardóttir Formaður Öldungaráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi

Áætlanir gera ráð fyrir svipaðri fjölgun íbúa næstu fjögur árin. Með hverjum 4.000 nýjum íbúum fylgja um 3.000 bílar. Þetta þýðir að á einu kjörtímabili hafa bæst við 12.000 bílar á höfuðborgarsvæðið. Margir íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur sækja vinnu eða skóla til borgarinnar og hefur þessi bílaaukning því sín áhrif á umferðarþunga í borginni og loftgæði, sérstaklega íbúa í Grafarvogi og Árbæ.

Það er því algert lykilatriði fyrir íbúa Grafarvogs að áfangar og tenging Borgarlínu komi sem fyrst inn í hverfið áður en nýtt land er numið undir byggð eins og Keldur og Keldnaholt. Uppbygging Borgar­línunnar er langtímaverkefni en íbúar í Grafarvogi munu fá borgalínutengingu árið 2025. Samkvæmt nýju leiðaneti verður það í kjölfar fyrstu framkvæmdalotu Borgar­línunnar sem felst í að byggja sérrými – borgarlínubrautir – á um 14,5 km löngum kafla, frá Hamraborg í Kópa­vogi um miðborg Reykjavíkur að Ártúnshöfða. Viss sveigj­anleiki verður fyrir vagna sem geta keyrt inn og út úr sérrými, sem býður upp á að hægt verður að byggja upp innviði í lotum.

Leið B fer í Grafarvog

Borgar­línu­vagnar geta ekið á venjulegu gatnakerfi og mun borgar­línu­vagn, leið B, aka frá Ártúnshöfða, við Krossamýrartorg, í blandaðri umferð í gegnum Spöngina að endastöð við Egilshöll. Ástæðan fyrir þessari röð framkvæmda er einföld. Hvorki Ártúnsbrekka né Miklabraut þolir fleiri bíla í dag, hvað þá þann fjölda sem fylgir nýrri byggð á Keldum. Milli 3.000-4.000 viðbótar bílar færu daglega um Ártúnsbrekku ef farið væri strax í nýja byggð í Keldnalandi og myndu blandast umferð úr Grafarvogi og Árbæ. Hitt er svo annað mál að uppbygging á Keldnalandi er ráðgerð seinna enda gerir uppbygging Borgarlínu beinlínis ráð fyrir því árið 2034.

Skýr framtíðarsýn

Samfylkingin hefur sterka og skýra framtíðarsýn á þróun hverfa borgarinnar. Við viljum forgangsraða fjármagni í þau hverfi sem fyrir eru eins og nýta þá innviði sem búið er að fjárfesta í með áframhaldandi uppbyggingu og fjárfestingu í stað þess að þenja byggðina út strax með nýrri uppbyggingu. Með tilkomu Borgarlínu við Krossamýrartorg skapast raunhæfur valkostur fyrir íbúa Grafarvogs að skilja bílinn eftir heima, hoppa upp í leið B og ferðast í sérrými niður í miðborg.