Jöfnum aðstöðu barna

Jafnt aðgengi barna að menntun og velferð eru hjartans mál okkar jafnaðarmanna.

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Nú þegar við erum að komast út úr faraldrinum er mikilvægara en nokkru sinni að hafa þessi grunngildi að leiðarljósi og standa sérstakan vörð um börn í viðkvæmri stöðu. Þar duga ekki bara orð á blaði, við þurfum að láta jafnaðarstefnuna ráða för við úthlutun fjármuna og erum að stíga mikilvægt skref í þeim efnum með því að úthluta fjármunum til grunnskóla m.a. á grundvelli félagslegra og efnahagslegrar stöðu foreldra. Á mannamáli þýðir þetta að skólar í hverfum þar sem þörf er á auknum stuðningi við börn fá hærri fjárveitingar til að jafna aðstöðu barna óháð efnahag, uppruna og menntunarstigi foreldra. Þetta nýtist m.a. í Miðborg og Hlíðum en hverfin búa yfir miklum og fjölbreyttum félagsauði og hlutfall fjölskyldna af erlendum uppruna er yfir meðallagi.

Samfylkingin vill stíga fleiri skref í átt til aukins jöfnuðar á komandi árum. Við viljum hækka frístundastyrkinn fyrir öll börn og koma að auki sérstaklega til móts við tekjulágar fjölskyldur með fjármögnun sérstakra útgjalda sem tengjast skólanum. Við viljum auka framlög til íslenskukennslu og móðurmálsstuðnings barna með annað móðurmál en íslensku. Við viljum fjölga börnum í tónlistarnámi og sérstaklega í hverfum þar sem þátttaka barna í tónlistarnámi hefur verið undir meðallagi.

Eflum geðrækt

Við þurfum á komandi árum að auka til muna áherslu á geðrækt og andlegt heilbrigði barna og ungmenna, fræða öll börn um mikilvægi geðræktar, stunda virkar forvarnir á því sviði og styðja við bakið á börnum sem finna fyrir vanlíðan, kvíða og þunglyndi. Við viljum efna til samstarfs við Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embætti landlæknis um fjölbreytta geðrækt í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Við þurfum að taka höndum saman með foreldrum og innleiða viðmið um svefn, hæfilegan skjátíma og mæta spurn ungmenna eftir öflugri kynfræðslu og hinseginfræðslu í efri bekkjum grunnskóla samhliða kröftugu viðnámi gegn hvers kyns ofbeldi.

Betri borg fyrir börn

Við viljum tryggja að stuðningur við börn miðist við þarfir þeirra en sé ekki háður greiningum. Við viljum beita snemmtækum stuðningi í auknum mæli, í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla til að mæta svo fljótt sem verða má þörfum barna með fjölþættan vanda. Stuðningur við börn fari fyrst og fremst fram innan skólanna og lögð meiri áhersla á þverfaglega samvinnu fagfólks undir stjórn umsjónarkennara. Við tölum fyrir því að notaðar séu í auknum mæli aðferðir við kennslu og stuðning sem rannsóknir sýna að skila börnum skýrum framförum.

Með samstarfsverkefninu Betri borg fyrir börn höfum við lagt grunn að einfaldara, markvissara og betra stuðningsneti þar sem skólar og velferðarþjónusta borgarinnar vinna þétt saman að því að mæta þörfum barnanna í borginni.

Grein sem birtast í apríl útgáfu í hverfablaði Miðbæ og Hlíða.