Rannsökum Íslandsbankasöluna undanbragðalaust

Þórunn,  kraginn, banner,

Íslendingar hafa slæma reynslu af einkavæðingu banka.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Í ljósi hennar var á Alþingi lagt kapp á að setja eignarhaldi ríkisins á bönkum (sem það fékk í fangið eftir hrun) skýra lagaumgjörð, m.a. með stofnun Bankasýslu og setningu sérstakra laga um það hvernig skuli staðið að sölu eignarhluta ríkisins – almennings – í bönkum. Nú er þetta fyrirkomulag í uppnámi og krafan um rannsókn á sölu 22,5% hlutar ríkisins í Íslandsbanka skýr og skiljanleg. Það eina sem erfitt er að skilja í stöðunni er afstaða ríkisstjórnarflokkanna til málsins.

Alþingi getur lögum samkvæmt sett á fót rannsóknarnefndir sem hafa víðtækar heimildir til gagna- og upplýsingaöflunar. Einstaklingum, lögaðilum og stofnunum er skylt að afhenda rannsóknarnefnd gögn og lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka  ekki rétt rannsóknarnefnda til upplýsinga. Þær hafa einnig heimildir til þess að kalla einstaklinga til skýrslugjafar og úrræði til þess að fá einstakling kallaðan fyrir dóm verði hann ekki við ósk um skýrslugjöf. Lögin hafa einnig að geyma ákvæði um réttarstöðu einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd og vernd uppljóstrara. Rannsóknarnefnd er sjálfstæð í störfum sínum og lýtur ekki fyrirmælum neinna.

Skoðunarheimildir Ríkisendurskoðanda afmarkast við þá aðila sem falla undir starfssvið hans, þ.e. aðila innan stjórnkerfisins. Hann skal í störfum sínum hafa eftirlit með nýtingu tekna ríkisins og meðferð fjárheimilda og að ráðstöfun þeirra sé hagkvæm og í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis. Í svari sínu við beiðni fjármála- og efnahagsráðherra um úttekt á bankasölunni vísaði Ríkisendurskoðun ekki til lagaákvæða um meginverkefni stofnunarinnar, heldur til greinar þar sem vísað er til sérstakra ástæðna og heimildar til gjaldtöku.

Fyrir liggur að heimildir rannsóknarnefnda eru víðtækari og annars eðlis en þær sem Ríkisendurskoðandi býr yfir. Á þessu tvennu er grundvallarmunur og því mikilvægt að Alþingi setji á fót rannsóknarnefnd um Íslandsbankasöluna. Á það verður látið reyna strax og þing kemur saman á ný.  

Útdráttur: Það eina sem erfitt er að skilja í stöðunni er afstaða ríkisstjórnarflokkanna til málsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis