Til hamingju með daginn!

Kæru félagar!

Loksins komumst við aftur í kröfugöngur með félögum okkar og aftur eigum við þess kost að hittast yfir ljúffengum vöfflum, getum blandað geði og þétt raðirnar í baráttu okkar fyrir jafnara og öruggara samfélagi og grænni framtíð.

Þessa dagana erum við óþyrmilega minnt á hvað það þýðir að eftirláta Sjálfstæðisflokknum stjórn fjármála ríkisins. Það eru ekki allir sem vinna þar. Afslættir eru veittir sérvöldum auðmönnum þegar Sjálfstæðisflokkurinn ræður för en almenningi gefst kostur á að komast á biðlista eftir sjálfsagðri þjónustu fyrir aldraða og sjúka. Ekki eru til nægir peningar í ríkissjóði til að standa undir eðlilegu velferðarstigi í landinu vegna þess að það þarf að veita auðmönnum svo mikla afslætti.

Sum í okkar samfélagi þurfa að vinna myrkranna á milli til að hafa í sig og á. Og sum okkar þurfa til viðbótar því að sinna sjúkum og öldruðum ástvinum sem ekki er pláss fyrir í biðlistavelferð ríkisstjórnarinnar.

Við jafnaðarmenn berjumst fyrir samfélagi þar sem við fáum öll tækifæri til að lifa og dafna á eigin forsendum, þar sem enginn fær sjálfkrafa forskot og þar sem öllum eru tryggð lágmarks lífskjör.

Við berjumst fyrir barnvænu samfélagi þar sem jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs og þar sem tryggð eru þau lágmarksréttindi hverrar fjölskyldu að eiga sér heimili.

Við berjumst fyrir samfélagi þar sem fólk sem glímir við heilsubrest þarf ekki í ofanálag að takast á við fjárhagsáhyggjur vegna hans og þarf ekki að bíða á biðlistum mánuðum saman eftir því að þjáningar þess séu linaðar.

Við berjumst fyrir samfélagi þar sem mannúð ríkir gagnvart þeim sem þurfa á stuðningi að halda, og þar sem reglur eru einfaldar, sanngjarnar og mannúðlegar.

Við berjumst fyrir samfélagi þar sem grænar lausnir og skipulag tekur mið af því að vinna bug á loftslagsógninni.

Við berjumst fyrir samfélagi þar sem fólk fær sanngjörn laun fyrir vinnu sína, og tekið er hart á launaþjófnaði, svartri atvinnustarfsemi og öðrum svikum á vinnumarkaði.

Við berjumst fyrir samfélagi þar sem hugsjónir jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og samstöðu eru í öndvegi.

Fylkjum liði í dag, kæru vinir og hefjumst handa við að byggja réttlátt þjóðfélag.