Sara Björg flutti jómfrúarræðu sína í borgarstjórn í dag

Sara Björg skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Á kjörtímabilinu sem er að líða hefur Sara verið varaborgarfulltrúi og sinnt hlutverki formanns íbúaráðs Breiðholts. Ræðu Söru er finna hér fyrir neðan.

Forseti - ágæta Borgarstjórn 

Ég er stoltur útsvarsgreiðandi í Reykjavík, ég er stoltur Reykvíkingur, ég er stoltur Breiðhyltingur.

Saman greiðum við í samneyslu okkar allra en ársreikningur sem núna verður samþykktur dregur athygli mína að Jöfnunarsjóði Sveitarfélaga. Í sjóðinn rennur hluti útsvarstekna sveitarfélaga auk mótframlags úr ríkissjóði. Jöfnunarsjóður er því fjármagnaður með hlut útsvars vinnandi fólks í sveitarfélögum landsins og skatttekjum fólksins í landinu. 

Öll sveitarfélög landsins fá framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna barna af erlendum uppruna - nema Reykjavík. 

Öll sveitarfélög landsins fá framlög með grunnskólum sínum - nema Reykjavík.  

Borgin hefur stefnt ríkinu vegna þessa og stefnir allt í að þessi framlög verði útkljáð fyrir dómstólum. 

Öll börn í Garðabæ af erlendum uppruna fá fjármagn frá Jöfnunarsjóði, öll börn í Kópavogi, öll börn í Hafnarfirði  öll börn nema í Reykjavík. 

Mér finnst mikilvægt að kjósendur í Reykjavík, skattgreiðendur í Reykjavík og útsvarsgreiðendur í Reykjavík - viti þetta áður en gengið sé til kosninga 14. maí næstkomandi. 

Við Reykvíkingar - öll saman - borgum langmest í sjóðinn. 

Í greinargerð með fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2021 kemur fram að Reykjavíkurborg mun greiða rúmlega 50 milljarða í Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga á næsta kjörtímabili í formi útsvars. Á sama tímabili fær borgin tæpa 27 milljarðaúr sjóðnum - langstærsti hluti er framlag vegna sérþarfa fatlaðra nemenda.

Greiðsla Reykjavíkurborgar inn í sjóðinn umfram framlög eru tæplega 24 milljarðar og munar það mestu um að borgin fær ekki framlag til grunnskólanna. 

Ef við tökum saman það sem borgarbúar greiða í sjóðinn með skattgreiðslum sínum í gegnum ríkissjóð eru Reykvískir launþegar að borga 56 milljarða króna inn í sjóðinn umfram það sem þau fá greitt úr honum - og þar með að niðurgreiða þjónustu annarra sveitarfélaga - sem sum hver nýta ekki heimild til útsvars til fulls. 

Síðustu 6 árin hefur Línuleg fjölgun fjöltyngdra barna verið í leik- og grunnskólum borgarinnar.  

Þegar horft er á fjölgun barna yfir síðasta kjörtímabil í grunnskólum borgarinnar hefur þeim fjölgað úr rúmlega 2.200 yfir í tæplega 3.000 börn á árinu 2021.

Jöfnunarsjóður greiðir um 130.000 krónur með börnum annarra sveitarfélaga en Reykjavik. 

Því verða börn af erlendum uppruna í borginni af tæplega 390 milljónum króna bara fyrir árið 2021. 

Á kjörtímabilinu erum við að tala um rúmlega 1,4 milljarð króna sem þessi viðkvæmi hópur í skólakerfinu verður af - 1,4 milljarð króna og fjölmennasti hópurinn býr í hverfinu mínu, Breiðholti.

Ég hitti þau á göngum leiksskólans, mæti þeim í sundi, og úti á fótboltavelli. Þau eru partur af lífi minna barna og okkar hversdagslífi. Þess vegna er algjörlega ótækt að þeim sé mismunað á grundvelli uppruna og búsetu af ríkisstjórn Íslands með Framsóknarflokkinn fremstan í flokki.

Eru þau búin að gleyma hvað stendur í stjórnarsáttmálanum sem undirritaður var sl. haust. Þar stendur, með leyfi forseta 

…. að Styðja verður sérstaklega við börn af erlendum uppruna í skólakerfinu. 

….Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna

og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu

aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu. 

Á sama tíma eru þau að sniðganga grunnskóla í borginni og börn með annað móðurmál um svimandi háar upphæðir. 

Innviðaráðherra hefði getað komið til móts við borgina og leiðrétt þennan mismun en gerði það ekki.

Hvorki virðast barnamálaráðherra, né ráðherra íslenskunnar, heldur hafa áhuga málinu. Hvort tveggja þingmenn Reykvíkinga.

Skilaboðin gætu ekki verið skýrari. 

  • Er Ríkisstjórnin að hugsa um grunnskólabörn í borginni? Nei. 
  • Er Ríkisstjórnin að hugsa um stöðu barna af erlendum uppruna? Nei. 

Að minnsta kosti ekki þeim meirihluta barna af erlendum uppruna sem býr í Reykjavík.

Samfylkingin forgangsraðar í þágu barna af erlendum uppruna. Meirihlutinn í Reykjavík mismunar ekki börnum út frá uppruna og búsetu eins og Ríkisstjórnin gerir í gegnum Jöfnunarsjóð. 

Hvaða þátttakendur stjórnmálanna vilja taka ábyrgð á að búa til tvöfalt íslenskt samfélag? Ekki ég, fyrir mér skipta öll börn máli og það er okkar sameiginlega verkefni að gæta þau fái sinn skerf af samneyslunni, hafi skýra áheyrilega rödd inn í heim stjórnmálanna, fái öll sömu tækifæri enda framtíðin þeirra.  

Takk.