Gauti Skúlason - 5. sæti

Jafnrétti að leiðarljósi

Á menntaskólaárum mínum kviknaði áhugi minn á jafnréttismálum og það mætti kannski segja að það hafi verið mín leið inn í pólitíska umræðu og síðar meir þátttöku. Sem ung manneskja sem er að taka sín fyrstu skref í stjórnmálum hef ég haft jafnrétti að leiðarljósi í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Uppruninn

Ég er Seyðfirðingur í húð og hár, ég ólst þar upp og flutti í raun og veru ekki lögheimili mitt fyrr en ég flutti hingað á Strandgötuna í Hafnarfirði árið 2019. Það voru forréttindi að fá að alast upp á Seyðisfirði. Sumrin þar voru engu öðru lík, sérstaklega þegar gekk vel í boltanum hjá okkur strákunum í Huginn.  

Þó að það muni töluvert í fólksfjölda og fjarlægðum þá finn ég oft fyrir líkindum á milli Hafnarfjarðar og Seyðisfjarðar. Hér er ég ekki bara að tala um litríku bárujárnsklæddu tréhúsin sem finna má á báðum stöðum heldur einnig bæjarandann. Á báðum stöðum þekkir fólk vel hvort annað og samfélagið stendur þétt saman. Það er því kannski ekki skrýtið að ég og tveir aðrir æskuvinir mínir frá Seyðisfirði höfum sest að hér í Hafnarfirði.  

Áframhald

Eftir menntaskólaárin þá lá leiðin í Háskólann á Bifröst. Sú ákvörðun átti eftir að verða mesta gæfuspor í mínu lífi en þar kynntist ég henni Stellu minni. Eins og sönnum Hafnfirðingi sæmir þá kom aldrei neitt annað til greina hjá Stellu en að við myndum flytja í Hafnarfjörð. Annars voru árin á Bifröst mjög mótandi fyrir mig, þar hóf ég þátttöku mína í félagsstörfum í gegnum Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) sem börðust og berjast enn fyrir betri kjörum stúdenta. 

Í dag er ég í sjálfu sér enn að berjast fyrir hagsmunum stúdenta og háskólamenntaðra þar sem ég starfa fyrir fimm stéttarfélög sem eru öll aðilar að Bandalagi háskólamanna (BHM). Sú reynsla sem ég hef öðlast þar hefur gagnast vel inn í heim stjórnmálanna og þar hef ég einnig fengið innsýn í rekstur sveitarfélaga.

Pólitík

Ég kynntist starfi Samfylkingarinnar vel í síðustu Alþingiskosningum en m.a. þá aðstoðaði ég flokkinn við að halda utan um úthringingarnar í Kraganum síðustu vikurnar fyrir kosningar. Í framhaldi af því kynntist ég mörgu af því frábæra fólki sem myndar flokkinn hérna í Hafnarfirði. Ég byrjaði í framhaldinu að taka virkan þátt í flokksstarfinu með því að aðstoða við að mynda stjórn Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði. Nú gegni ég stöðu gjaldkera félagsins og hef verið virkur við að undirbúa flokkinn fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Áherslur

Mínar helstu áherslur eru eftirfarandi:

  • Ríkt samráð við íbúa og hagsmunaaðila.
  • Uppbygging á hagkvæmu íbúðarhúsnæði.
  • Að hefja virkt umbótasamtal við stjórnendur og starfsfólk grunn- og leikskóla um þær áskoranir sem þessi tvö skólastig standa frammi fyrir.
  • Að hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við rekstur og stefnumótun sveitarfélagsins.
  • Að stuðningur við barnafólk og börn verði aukinn.
  • Uppbygging á grænu, hagkvæmu og þjónustumiðuðu nærumhverfi.
  • Að bæta almenningssamgöngur og setja kraft í skipulagningu á Borgarlínu.

Pabbi

Þótt maður geti sett á sig hina ýmsu hatta þá, þegar til kastanna kemur, er maður í sjálfu sér ekkert annað en pabbi tveggja ára orkubolta sem gleður okkur Stellu á hverjum einasta degi. Í lok dags snúast stjórnmál um að skapa samfélag sem okkur líður vel með að börnin okkar og komandi kynslóðir erfi.

Ég vill fá tækifæri til að búa til þannig samfélag og þess vegna bið ég um þinn stuðning í 5. sætið.