Guðmundur Ingi Þóroddsson - 3. - 5. sæti

Tæplega fimmtugur skáti úr Breiðholtinu  og Árbæ sem gekk snemma til liðs við Björgunarsveitina Fiskaklett og síðar Björgunarsjóflokk Ingólfs. Hef í seinni tíð lítt komið að störfum björgunarsveita landsins en sinni á hverjum degi ákveðnum björgunarstörfum í gegnum félagasamtökin Afstöðu.  Í dag vinn ég að velferðarmálum og stunda BA nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands.  

Ég hef verið hamingjusamlega giftur eiginmanni mínum Titu Ciprian Balea frá Rúmeníu í níu ár og erum við búsettir í Hólahverfinu í Breiðholti.   

Góðir félagar og vinir,  

Samfylkingin á það skilið að vera stærsti stjórnmálaflokurinn í Reykjavík. Jafnaðarstefnan hefur sjaldan verið jafn mikilvæg og einmitt núna og því afskaplega brýnt að ábyrgur og traustur jafnaðarflokkur sé við stjórnvölin.   

Það hefur verið mér mikil ánægja að taka þátt í innra starfi flokksins á undanförnum árum, meðal annars með stofnun Jafnaðarfélagsins sem þegar hefur tryggt Samfylkingunni fjölda atkvæða, en nú er kominn tími til að ég láti einnig að mér kveða út á við.  

Ég sækist eftir stuðningi ykkar í 3.-5. sæti á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum í vor og hef þá bjargföstu trú að árið 2022 sé ár Samfylkingarinnar í borginni. Það er ekki nóg að við ætlum að halda vörð um þau 15.000 atkvæði sem við fengum í borginni síðast heldur verðum við að auka þau um nokkur þúsund. Það gerist ekki nema með nýliðun.   

Eins og margir eflaust vita þá eru mannréttindamál og velferðarmálin ofarlega á blaði hjá mér. Við sem samfélag þurfum að gera meira fyrir minnihluta- og jaðarsetta hópa, við þurfum að jafna tækifærin til þess að efla borgina okkar. Í þessum málaflokki hef ég víðtæka þekkingu og fylgist grannt með því hvernig málum er háttað í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.  

Ég er aftur á móti maður margra málefna. Ég hef komið að stofnun fyrirtækja í ýmsum rekstri, bæði hér á landi og erlendis, og séð um daglegan rekstur með öllu sem fylgir. Ég hef góða kostnaðarvitund og get tekið erfiðar ákvarðanir ef með þarf en reyni ávallt að beita lausnamiðaðri hugsun og sveigjanleika. Ég er maður sáttastjórnmála.  

Fyrir mér er ljóst að smærri fyrirtæki þurfa einfaldara og jákvæðara regluverk ef þau eiga að blómstra í borginni okkar. Þá þarf að efla þjónustu í úthverfunum og byggja brú á milli ólíkra hópa til þess að sætta sjónarmið þegar kemur að uppbyggingu, samgöngum og fjölbreytileikanum.   

Nánar má fræðast um það fyrir hvað ég stend á vefsvæði mínu, www.gudmunduringi.is , eða með því að senda mér tölvupóst á netfangið [email protected]     

https://www.facebook.com/groups/gummiframbod2022/