Gunnar Þór Sigurjónsson - 3. sæti

Ég heiti Gunnar Þór Sigurjónsson og sækist eftir 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Ég er tæknimenntaður tveggja barna faðir og formaður ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ég hef starfað við öryggismál, m.a. hjá Vodafone og Securitas og sem upplýsingaöryggisstjóri Samkeppniseftirlitsins. Undanfarinn áratug hef ég verið virkur í margs konar félagsstörfum og störfum fyrir Samfylkinguna, meðal annars verið varaforseti Junior Chamber Íslands, gjaldkeri og nú formaður ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar og varamaður í stjórn Rafíþróttasamtaka Íslands, auk þess að sitja í stjórnum fjögurra nemendafélaga á skólaárum mínum.

Ég er jafnaðarmaður fyrst og fremst, brenn fyrir velferðar- og húsnæðismálum, mannréttindum og betra samfélagi fyrir okkur öll. Ég trúi því að núna þurfi nýtt fólk og ný sjónarmið að taka við stjórn bæjarins til þess að Hafnarfjörður vaxi og dafni. En vöxtur er ekki nægur einn og sér, heldur þurfum við að vaxa á ábyrgan og grænan máta á grunni aðgerða með jöfnuð og virðingu fyrir bæjarbúum að leiðarljósi.

Nýtt fólk fyrir nýjan tíma

Kosningarnar í vor þurfa að marka upphaf nýs tíma Samfylkingarinnar sem leiðandi afls í Hafnarfirði. Tíma jöfnuðar í velferðar- og fjölskyldumálum. Tíma raunverulegrar sóknar í húsnæðismálum. Tíma réttlætis í leikskólamálum. Tími jafnréttis í íþróttastarfi í bænum. Tími virðingar fyrir fólki í málefnum fatlaðra bæjarbúa.

  • Tími jöfnuðar í velferðar- og fjölskyldumálum – tími misskiptingar er liðinn
    Öll börn í Hafnarfirði eiga skilið jöfn tækifæri og eflandi umhverfi, óháð efnahag eða aðstæðum að öðru leyti. Hafnarfjörður á að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga í félags- og fjölskylduþjónustu, ekki eftirbátur. Til þess þarf félagsþjónustan að vera mönnuð öflugu fólki sem lætur verkin tala og er stutt af heilindum af stjórn bæjarins.
  • Tími raunverulegrar sóknar í húsnæðismálum - tími afsakana og aðgerðaleysis er liðinn
    Hafnarfjörður þarf aftur að verða raunhæfur valkostur fyrir venjulegar fjölskyldur og ungt fólk, m.a. með því að bjóða upp á hagkvæmt húsnæði í grænum hverfum. Það þarf skýrar aðgerðir í húsnæðismálum til að Hafnarfjörður geti vaxið til framtíðar sem sterkasta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu.
  • Tími réttlætis og virðingar í leikskólamálum – tími andvaraleysis og flumbrugangs er liðinn
    Hafnarfjörður þarf að sýna leikskólastarfi virðingu, bæði gagnvart starfsfólki leikskólanna og gagnvart foreldrum og börnum. Leikskólinn er fyrsta skólastigið fyrir börnin okkar en ekki geymslustaður og Hafnarfjörður á að vinna markvisst að því að laða til sín hæft starfsfólk og umbuna því með góðum aðbúnaði og kjörum.
  • Tími jafnréttis og fjölbreytni í íþróttastarfi í bænum – tími meðalmennsku er liðinn
    Hafnarfjörður á að vera íþróttabær fyrir alla og styðja við fjölbreytt íþróttastarf. Frístundastyrkurinn á að gera öllum börnum í Hafnarfirði kleift að stunda íþróttir. Þar á meðal annars að horfa til þess sem vel hefur verið gert í nágrannasveitarfélögum. Sterkt og árangursríkt íþróttastarf þarf markvissan stuðning og aðgerðir sem styðja við þarfir iðkenda og foreldra.
  • Tími virðingar fyrir fötluðum bæjarbúum – tími mannréttindabrota og lögbrota er liðinn
    Hafnarfjarðarbær á að standa við gerða samninga og fara að lögum í málefnum fatlaðs fólks. Bæjarfélagið á að gera NPA samninga og sýna fötluðu fólki þá virðingu sem þeim ber í stað þess að brjóta lögvarin réttindi á íbúum bæjarins í nafni sparnaðar.