Helga Þóra Eiðsdóttir - 2. sæti

Kæru félagar. 

Ég óska eftir ykkar stuðningi í efstu sæti í flokksvali Samfylkingarinnar til sveitastjórnarkosninga nú í vor.

Hver er konan?

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík en flutti til Hafnarfjarðar árið 1992 þegar við hjónin keyptum okkar fyrstu íbúð uppi á Holti. Það var alltaf mikið líf og fjör að vera með barnafjölskyldu á Holtinu á þessum tíma. Ég er gift Ingvari Erni Guðjónssyni verkfræðingi og eigum við þrjár dætur og eitt barnabarn. Það að vera amma tveggja ára gutta er eiginlega það besta í heimi.

Ég hef verið í Alþýðuflokknum/Samfylkingunni síðan ég hlaut kosningarétt. Þar sem faðir minn var í stjórnmálum og sat fjögur kjörtímabil á þingi fyrir Alþýðuflokkinn má segja að ég hafi tiltölulega ung aðhyllst jafnaðarstefnu Alþýðuflokksins. 

Eftir útskrift frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1983 hélt ég til Bandaríkjanna og lauk B.Sc. gráðu í viðskipta- og markaðsfræðum sem og MBA í kjölfarið.

Hvað er ég búin að vera að gera í gegnum tíðina?

Ég hef allan minn starfsferil starfað sem stjórnandi í tengslum við markaðsmál. Eftir nám hóf ég störf hjá bókaútgáfunni Vöku-Helgafelli sem markaðs- og sölustjóri. Á þeim tíma gáfum við m.a. út bækur eftir Nóbelsskáldið okkar sem og myndasögurnar um Andrés Önd sem var skemmtileg blanda.  

Fimm árum síðar hóf ég störf hjá Icelandair sem forstöðumaður Vildarklúbbsins. Þar kynnti ég fyrir stjórnendum Icelandair hugmynd að styrktarsjóði fyrir langveik börn og börn sem búa við erfiðar aðstæður. Styrktarsjóðurinn Vildarbörn Icelandair var svo stofnaður vorið 2003. Á starfsferli mínum þá er ég einna stoltust af því að hafa átt frumkvæðið að stofnun Vildarbarna. 

Árið 2003 tók ég við stöðu svæðisstjóra Icelandair í Skandinaviu, fyrsta konan til þess að gegna þeirri stöðu hjá Icelandair.  

Árið 2007 hóf ég störf hjá Kaupþingi yfir alþjóðlegri markaðssetningu.Síðar var ég ráðin sem forstöðumaður markaðsmála Nýja Kaupþings sem varð svo Arion banki.

Ég starfaði einnig hjá Orf Líftækni og var yfir markaðs- og almannatengslum fyrir BIOEFFECT húðvörulínuna. Árið 2016 varð ég ráðgjafi í markaðsmálum hjá dönsku alþjóðlegu ráðgjafafyrirtæki, CO+. Í lok síðasta árs stofnaði ég mitt eigið ráðgjafafyrirtæki, AUKA United, með tveimur fyrrum samstarfsfélögum mínum.

Sat í stjórn IGS eða Icelandair Ground Services í fjögur ár (1999-2003). Sat einnig í stjórn Ímarks í fjögur ár. Var í stjórn Norsk-íslenska viðskiptaráðsins þegar það var stofnað árið 2006.

Af hverju að kjósa mig?

Ég hef viðamikla reynslu úr atvinnulífinu. Ég er vön því að leiða teymisvinnu og veit ekkert skemmtilegra og meira hvetjandi en að vinna í ögrandi og metnaðarfullu umhverfi sem ég veit að bæjarfélagið okkar er. Ég á gott með að aðlaga mig að nýjum og breyttum aðstæðum og að vinna með fólki með ólíkar skoðanir. Ég hef einnig mikinn sjálfsaga, legg hart að mér, hef mikið keppnisskap, er árangursmiðuð og leita nýrra leiða við úrlausn verkefna. Ég kann vel við mig í leiðtogahlutverki, er sjálfstæð í vinnubrögðum og óhrædd við að taka á mig mikla ábyrgð.

Ég mun leggja áherslu á að skila mínu dagsverki vel og markvisst. Kosningaloforð eru ekki eitthvað sem ég er hrifin af. Mér finnst að í öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur þá eigi verkin að tala. Mér finnst Hafnarfjörður hafa dregist aftur úr nágrannabæjarfélögunum nánast í öllum málaflokkum. Nægir þar að nefna íbúðahúsnæði, umhverfis- og skipulagsmál, málefni eldri borgara, leikskólamál o.s.frv. Það er kominn tími á nýja hugsun, skýra og sterka framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið okkar sem snertir okkur öll. Ég er viss um að sterkur listi Samfylkingarinnar mun láta verkin tala og leiða Hafnarfjörð inn í nýja og betri framtíð fyrir okkur öll.

Ég er svo sannarlega til í slaginn og býð mig fram til forystu í annað sæti listans.