Hildur Rós Guðbjargardóttir - 4. sæti

Kæru félagar,

Í kosningunum í vor gefst okkur Samfylkingarfólki tækifæri til að vinna sigur og taka aftur stjórnina á Hafnarfirði svo að bærinn verði betra samfélag fyrir fólk og fyrirtæki. Ég er tilbúin til að vera með í  forystu í þeirri sókn og býð mig fram í 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fer fram þann 12. maí nk.

Ég er 29 ára gömul hugsjónamanneskja með báða fætur á jörðinni, hugsa stórt og trúi á samtakamátt góðs fólks.  Málefni barna, fjölskyldna og aldraðra fá hjarta mitt til að slá hraðar, velferðar- og menntamálin eru mín mál. Þrátt fyrir ungan aldur hef ég víðtæka reynslu í leik og starfi. Ég á þrjár dætur á leik- og grunnskólaaldri, ég starfa í aðhlynningu á Hrafnistu í Hafnarfirði og lýk grunnnámi kennara í faggreinakennslu í vor. Áður lærði ég hársnyrtingu og starfaði við það í nokkur ár.  

Ég gekk til liðs við Samfylkinguna árið 2016 og hef tekið þátt í að byggja upp flokkinn á síðustu árum í ýmsum trúnaðarstörfum og sit nú í framkvæmdastjórn flokksins og sem formaður fræðsluráðs flokksins. Jafnframt er ég vara formaður Bersans, félagi ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði

Samfylkingin berst fyrir jöfnum lífskjörum sem þýðir verulega bætt lífskjör ákveðinna hópa, sem oft bera skarðan hlut frá borði. En það er helsta ástæða þess að ég vil láta til mín taka og hef fulla trú á því að ég geti verið málsvari stórra hópa í samfélaginu okkar. Hafnarfjörður var byggður upp af jafnaðarmönnum og ber bærinn þess sannarlega merki. En margt má bæta til betri lífskjara og jafnari tækifæra fólksins í bænum og til þess þarf Samfylkingin taka stjórnina aftur.

Mínar áherslur fyrir betri Hafnarfjörð:

  • Börn foreldra í lágtekjuhópi og börnum einstæðra foreldra þurfum við að tryggja jöfn tækifæri.
  • Hækka frístundastyrkinn og endurskoða í kjölfarið kerfið í heild sinni.
  • Lækka útgjöld heimila vegna grunnskóla.
  • Fjölbreytt framboð húsnæðis, félagslegar íbúðir, þjónustuíbúðir og almennar íbúðir.
  • Samstilla heilbrigðisþjónustu við aðra velferðarþjónustu með þverfaglegri nálgun í þjónustu sveitarfélagsins. 
  • Tryggja fötluðu fólki á öllum aldri, tækifæri til sjálfstæðs lífs með fjármögnun stuðningsþjónustu. 
  • Auka tækifæri eldri borgara til félagslegra samskipta og tryggja þeim heilsueflandi umhverfi.
  • Styrkja starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélagsins með fjölgun stöðugilda og hvetjandi umhverfi fyrir fagfólk. 
  • Minnka kolefnis- og vistspor sveitarfélagsins með kolefnisjöfnun og fræðslu með áherslu á  sjálfbærni. 
  • Hafnarfjörður hefur upp á margt að bjóða. Styðja þarf ríkulega við menningarlíf til þess að gera bæinn eftirsóknarverðan stað til búsetu og heimsókna.
  • Efla bókasafn Hafnarfjarðar sem samfélagsmiðstöð til að stuðla að sjálfbærni og efla hringrásarhagkerfið, vinna gegn félagslegri einangrun og styðja við heilsueflandi samfélag.

Til þess að Samfylkingin taki stjórnina á Hafnarfirði aftur þurfum við að tryggja góða kosningu í vor, slíkt gerum við með öflugum og breiðum hópi frambjóðenda með sterka framtíðarsýn. Að endalykt óska ég eftir stuðningi ykkar í 4. Sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.