Jóna Grétar Þórsson - 3. - 5. sæti

Kæru félagar og vinir

Ég býð mig fram til þess að starfa fyrir Hafnfirðinga og því gef ég kost á mér í 3.-5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði laugardaginn 12. febrúar næstkomandi.

Ástæða þess að ég býð mig fram er fremur einföld, ég er uppalinn á Urðarsígnum í miðju hrauninu og hef frá því ég man eftir mér verið baráttumaður fyrir því að Hafnarfjörður uppfylli möguleika sína til að vera fyrsta flokks sveitarfélag fyrir sína íbúa. Það má segja að baráttuviljinn hafi komið með móðurmjólkinni en móðir mín var virk í störfum Kvennalistans og þar fékk ég sem barna að læra að til þess að samfélagið verði betra þá þarf að vinna fyrir því. Það er eitthvað sem við krakkarnir í hverfinu tókum með okkur þegar við fórum í undirskriftasöfnun fyrir því að leiksvæði væri byggt í hrauninu 1987. Það er af þessari einlægu hugsjón sem ég býð mig fram til þess að starfa fyrir starfa fyrir sveitarfélagið okkar, ég veit nefnilega að við getum gert betur, við getum bætt kjör og aðstæður. 

Ég er frekar hefðbundinn 39 ára Hafnfirðingur. Fékk hálfan dag á leikskólanum Álfabergi sem var þá á Álfaskeiðinu en fyrir það skiptast foreldrar mínir á að vera heima hálfan daginn hvort. Þá þótti fínt að komast á leikskóla frá fjögurra ára að aldri. Eftir stutta dvöl í leikskóla gekk ég í Lækjarskóla og síðan Flensborg eða þangað til að ég fékk bílpróf, þá keyrði ég í skólann.

Ég æfði körfubolta með Haukum og frjálsar hjá Fimleikafélaginu (sem var frítt), ég var líka látinn læra á blokkflautu í tónlistarskólanum en það skilaði ekki miklu. Á unglingsárum starfaði ég á Hróa Hetti eins og þriðji hver Flensborgari gerði einhvern tímann á þessum árum.

Ég hef búið næstum alla mína ævi í Hafnarfirði fyrir utan stutta dvöl í Bandaríkjunum þar sem móðir mín var í námi. Þar vaknaði áhugi minn á pólitík, kosningum og félagsstarfi. Ég hef setið í stjórnum ýmissa félaga. Þar á meðal verið ritari nemendafélagsins í Flensborg, gjaldkeri Kaldársels, og verið í framkvæmdastjórn og miðstjórn Ungs jafnaðarfólks. Einnig hef ég verið bæði formaður UjH og Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði. En í síðast nefnda hlutverkinu hef ég verið síðan 2016. Frá 2018 hef ég setið í hafnarstjórn og þar á undan menningar- og ferðamálanefnd.

Síðistu 9 ár hef ég starfað fyrir Hafnarfjarðarbæ í ýmsum hlutverkum t.d. sem Umsjónarmaður Vinnuskólans, miðbæjarstjóri, aðstoðarmaður hjá fötluðu fólki og haldið úti ýmsu sérstöku hópastarfi. Það hefur verið mér sönn ánægða að fá að vinna fyrir Hafnarfjarðarkaupstað því ég er mjög stoltur Hafnfirðingur.

Í dag bý ég á Álfskeiðinu með 18 ára dóttur minni og er ánægður að geta gefið henni þá æsku að alast upp í Hafnarfirði.

Eftirfarandi eru nokkur mál sem ég vil leggja áherslu á:

  • Það sem brennur helst á mér er að fólk geti sótt þá þjónustu sem það þarf í sínu nærumhverfi.
  • Ég vil efla ungmennahúsin og Vinnuskólann með því að auka samstarf og deila þekkingu milli starfsfólks.
  • Fjölga fjölbreyttum húsnæðismöguleikum. Það er mikilvægt að stöðva flótta ungs fólk úr bænum sem leitar annað eftir húsnæði þar sem framboð í Hafnarfirði hefur ekki verið mikið á síðustu árum.
  • Fjölbreyttari grænir samgöngumöguleikar. Mikilvægit er að gera átak í hjólastígagerð. Gerum hjólreiðar að raunverulegum samgöngumáta í Hafnarfirði, ekkert sveitarfélag á eins góðan grunn að byggja á. Mikilvægt er að bæta líka aðgengi að göngustígum, færa ljósastóra og tryggja aðgengi sé í lagi með því að rampar séu alls staðar og gangstéttar ekki ójafnar.
  • Fjölga búsetukjörnum fyrir fatlað fólk og uppfæra núverandi sambýli að þeim kröfum sem við gerum í dag.
  • Útrýma biðlistum fyrir félagslegt húsnæði
  • Bæta þjónustu og upplýsingagjöf fyrir Hafnfirðinga sem hafa annað móðurmál en íslensku með fræðslu og mæta þeim með opnum örmum.
  • Tryggja rafíþróttadeild í Hafnarfirði. Það er nauðsynlegt að hafa fjölbreytt æskulýðsstarf í bænum þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
  • Tryggja borgarlínu til bæjarins með sanngjörnum og réttláttum hætti og gera Hafnarfjörð að tengimiðju við Reykjanesið og nærliggjandi byggðir.