Kolbrún Magnúsdóttir - 2. - 4. sæti

Kolbrún Magnúsdóttir heiti ég og er 45 ára gift tveggjabarna móðir uppalin í Hafnarfirði.

það skiptir mig miklu máli að bænum sé vel stjórnað með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Ég ólst upp í norðurbænum. Skólaganga mín hófst í Engidalsskóla og lauk í Víðistaðarskóla og var Hellisgerði einn af mínum uppáhaldsstöðum sem barn. heilsa og vellíðan skiptir mig miklu máli, ég var í fimleikum sem barn en í dag er áherslan á útiveru á borð við golf, skíði og göngur í nátturunni.

Ég hef góða menntun og reynslu úr atvinnulífinu sem mun nýtast vel sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Ég er með MSc í mannauðsstjórnun, BSc í viðskiptafræði og alþjólega vottun í markþjálfun. Ég hef starfað í mannauðs- og fræðslumálum síðastliðin átta ár ásamt því að vera markþjálfi og leiðbeinandi á ýmsum námskeiðum. Þar áður kom ég að ýmissi ráðgjöf í rekstri fyrirtækja, var innkaupafulltrúi hjá lyfjafyrirtæki og ráðgjafi í hugbúnaðageiranum.  Í dag starfa ég sem mannauðsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ og er hluti af stóru stefnumótunarteymi þar sem stefna Hafnarfjarðabæjar verður mótuð til næstu 15 ára. Einnig er ég markþjálfi og kennari í markþjálfunarnámi hjá Profectus.  Ég hef góða reynslu af félagsmálum og hef tekið að mér ýmis stjórnarstörf í gegnum árin.

Það eru margar áskoranir sem blasa við okkur á komandi árum og er Hafnarfjörður þar engin undanteknin, því er mikilvægt að vera með skýra sýn á framtíðina og búa yfir aðlögunarhæfni til að takast á við þær áskoranir sem verða á vegferðinni. Það eina sem við getum verið fullviss um eru stöðugar breytingar og er ég full eldmóðs að fara í þá vegferð.

Hvernig getum við gert góðan bæ enn betri!

Mannauðurinn er lykillinn að góðum árangri og mikilvægasta auðlindin sem við eigum, hvort sem er í heilu bæjarfélagi eða á vinnustaðnum. Því er lykilatrið að hlúa vel að honum. Þá þurfa innviðirnir að vera góðir og styðja við fólkið sem þarf á ólíkri þjónustu að halda og tryggja jafnan rétt allra bæjarbúa.

Meðal áherslumála minna eru:

  • Vinna að framtíðarsýn og stefnu Hafnarfjarðabæjar og gera bæinn eftirsóknaverðan valmöguleika.
  • Tryggja jafnan aðgang og tækifæri allra barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundastarfi. Með því að hækka frístundarstyrki og auka á fjölbreytileika í vali
  • Efla enn frekar heilsubæinn Hafnarfjörð, með áframhaldandi uppbyggingu á hjóla- og göngustígum og uppbyggingu útvistasvæða.
  • Tryggja gott vinnuumhverfi hjá stofnunum bæjarins með áherslu á betra vinnuumhverfi og heilsu og vellíðan bæði starfsfólks og þeirra sem nýta þjónustunna með aukinni fræðslu og endurmenntun.
  • Aukin skilvirkni í skipulagsmálum. Tryggja fjölbreytileika í húsnæðismálum til að koma til móts við íbúa. Tryggja félagslegt húsnæðiskerfi, öruggan leigumarkað, búsetuúrræði með þjónustukjarna fyrir eldri borgara og búsetuúrræði fyrir fatlað fólk.
  • Umhverfsvænt bæjarfélag með auknu aðgengi að hleðslustöðum fyrir rafbíla, efla flokkun og draga úr plastnotkun.
  • Atvinnumál með áherslu á fjölbreytileika starfa og skapa umhverfi fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Til að ná góðum áragri skiptir öllu máli að halda samtalinu gangandi, heyra raddir bæjarbúa og greina hvað skiptir mestu máli til að ná settu markmiði þar sem ávinningur heildarinnar er hafður að leiðarljósi. Raddir allra þurfa að hafa hljómgrunn á þeirri vegferð.

Hvað skiptir okkur mestu máli þegar við mælum árangur?

Góður árangur er ekki aðeins mældur með hagvexti þó svo að sá mælikvarði sé mikilvægur í stóru myndinni. Ég tel mikilvægt að allir ofangreindir þættir séu lykilmælikvarðar að góðum árangri.

Tækifærin til að efla okkar dýrmæta samfélag eru mörg og væri það mér sannur heiður að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína, reynslu og krafta til að fara þá vegferð með flokknum. Því óska ég eftir ykkar stuðningi.