Kynnstu Loga!

Logi er formaður Samfylkingarinnar, fjölskyldumaður og arkitekt

Logi tók við formennsku Samfylkingarinnar árið 2016, og naut yfirgnæfandi stuðnings flokksmanna til endurkjörs á Landsfundi 2017 og 2020. Logi hefur verið Alþingismaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2016 en þar áður lét hann til sín taka sem bæjarfulltrúi á Akureyri. 

Logi á fjölbreyttan feril að baki en áður en hann hellti sér út í pólitík rak hann arkitektastofuna Kollgátu á Akureyri um margra ára skeið. „Ég lagði fyrir mig arkitektúr því mér fannst það sameina hið skapandi og hið praktíska. Ég held að fátt hafi verið jafn gott veganesti í stjórnmálin en einmitt það; að geta nýtt skapandi hugsun til að nálgast mjög flókin viðfangsefni samtímans. Og geta gert það í víðtæku samstarfi við aðra.”

Áður en Logi lagði fyrir sig fyrirtækjarekstur þótti hann efnilegur í handbolta, vann meðal annars á sjó á Fáskrúðsfirði, klóakinu á Akureyri og var meira að segja um sinn vel þekktur sem einn af dönsurum og textahöfundum sveitaballahljómsveitarinnar Skriðjökla.

Vinir og samstarfsfólk Loga lýsa honum sem óhefðbundnum og litríkum leiðtoga sem er laus alla tilgerð og lunkinn við að greina hismið frá kjarnanum. Hann sjái hæfileika fólks í öllum hugsanlegum myndum, taki öllum eins og þeir eru og lyfti þeim upp.

Þegar þingstörfin kalla ekki á viðveru Loga í Reykjavík býr hann á Akureyri ásamt eiginkonu sinni Arnbjörgu, dóttur sinni Hrefnu og kettinum Pipar.

Stjórnmálaferill

Fæddur á Akureyri 21. ágúst 1964. Foreldrar: Einar Helgason (fæddur 11. október 1932, dáinn 15. desember 2013) myndlistarmaður og kennari og Ásdís Karlsdóttir (fædd 6. júní 1935) íþróttakennari. Maki: Arnbjörg Sigurðardóttir (fædd 10. janúar 1973) hæstaréttarlögmaður. Foreldrar: Sigurður Óli Brynjólfsson og Hólmfríður Kristjánsdóttir. Börn: Úlfur (1997), Hrefna (2004).

Stúdentspróf MA 1985. Próf í arkitektúr frá Arkitekthøgskolen í Ósló 1992.

Arkitekt hjá H.J. teiknistofu 1992–1994, skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1994–1996, Teiknistofunni Form 1996–1997, Úti og inni arkitektastofu 1997–2003, Arkitektúr.is arkitektastofu 2003–2004 og Kollgátu arkitektastofu 2003–2016. Stundakennari við HR 2010–2012.

Varabæjarfulltrúi á Akureyri 2010–2012, bæjarfulltrúi 2012–2016. Formaður Akureyrarstofu 2014–2015, formaður skólanefndar 2015–2016. Í stjórn Arkitektafélags Íslands 2010–2013, formaður 2010–2012. Varaformaður Samfylkingarinnar 2016, formaður síðan 2016.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis 2016 (Samfylkingin).

Varaþingmaður Norðausturkjördæmis október 2010, apríl, október og desember 2011 og janúar–mars 2013 (Samfylkingin).

Efnahags- og viðskiptanefnd 2016–2017, atvinnuveganefnd 2017, utanríkismálanefnd 2017–.

Æviágripi síðast breytt 30. maí 2018.