Ólöf Helga Jakobsdóttir - 4. - 6. sæti

Ég heiti Ólöf Helga Jakobsdóttir og er 38 ára, fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég er matreiðslumeistari og rek ásamt fjölskyldu minni veitingahúsið Hornið í miðbæ Reykjavíkur.

Ég gef kost á mér í 4-6. sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.

Ég er gift móðir 3 dásamlegra barna sem eru bæði í leik- og grunnskólum, frístundastarfi og tómstundum. Ég er komin af miklu jafnaðarfólki en amma mín, Ingibjörg Vilhjálmsdóttir (1912–2005) var önnur af tveimur konum sem tóku þátt í að stofna félag ungra jafnaðarmanna og ég verð alltaf stolt af ömmu minni fyrir að hafa tekið þátt í slíkri starfsemi. Það hefur ekki verið sjálfgefið á þessum tíma. En bróðir hennar var einnig öflugur liðsmaður jafnaðarmannahreyfingarinnar, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson.

Sjálf var ég virk í starfi ungra jafnaðarmanna sem unglingur og er alin upp í anda jafnaðarstefnunnar. Svo ég hef alla mína tíð verið mikil jafnaðarkona.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér vegna þess að ég hef setið við gluggann á veitingahúsinu mínu á hverjum morgni síðastliðin 20 ár og fylgst með borginni okkar breytast, vaxa og dafna. Breytingar eru alla jafna jákvæðar, en þær þarf að vinna vel og rétt og í góðu samtali við fólkið sem þær hafa áhrif á. Þar sem ég rek fyrirtæki í miðbænum verð ég meira vör við lífið þar og hefur áhugi minn fyrir miðbæjarpólitík aukist síðastliðin ár og ég er stútfull af hugmyndum, réttlætiskennd og forvitni um borgina okkar.

Við fjölskyldan eigum og höfum rekið veitingastaðinn Hornið í tæp 43 ár. Með framkvæmdum í miðbænum höfum við þurft að eiga samskipti við Reykjavíkurborg og það var upp úr því sem ég áttaði mig á að starfsemi borgarinnar er eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á, ekki bara miðborginni heldur allri borginni.

Ég er meðlimur og hef setið í stjórn klúbbs matreiðslumeistara og náði síðasta vor þeim stóra áfanga að stofna innan klúbbsins jafnréttisnefnd sem stendur vörð um jafnrétti allra innan klúbbsins.
Ólöf Jakobsdóttir: „Kannski vegna þess hvað ég er lærð hef ég þurft að vera smá karlremba“ - DV

Ég hef verið virk í skólastarfi barnanna minna síðastliðin 5 ár og hef setið í stjórn foreldrafélags, ráðum og nefndum. Þessi þátttaka hefur veitt mér mikla innsýn inn í skólastarfið sjálft og kennt mér að samskipti aðstandenda barna og skólans eru einn mikilvægasti þáttur í því að barninu líði vel og gangi vel í skólanum og að aðstandendum finni sig örugga með barnið innan skólakerfisins.

Öryggi barna er mér hjartans mál. Eftir að keyrt var á barn á Hringbrautinni fyrir þremur árum barðist ég ásamt manninum mínum og fleiri foreldrum fyrir því að fá gangbrautarvörð og vorum við hjónin gangbrautarverðir í sjálfboðastarfi í nokkrar vikur þar til skólinn lagði til gangbrautarvörð og hámarkshraði var lækkaður niður í 40 km/klst. Boða til mótmæla í kjölfar slyss (mbl.is)

Þegar það átti að senda Mohammed litla í Vesturbæjarskóla aftur til Pakistan ásamt fjölskyldu sinni stóð ég ásamt öðrum foreldrum í Vesturbæjarskóla fyrir samstöðufundi í skólanum „Við fyrir hann“ og það er eitt af því sem ég er stoltust af að hafa afrekað, því sá samstöðufundur endaði með því að mótmælaundirskriftum var afhent dómsmálaráðherra og úr varð að drengurinn og fjölskylda hans fékk að vera hér og þessi litli drengur og sonur minn eru saman í bekk og góðir vinir enn í dag.
Að vera hluti af því að bjarga lífi fólks á þennan hátt er algjörlega ólýsanlegt. Hundruð sýndu Muhammed og fjölskyldu samstöðu | RÚV (ruv.is)

Eftir að hafa verið hafnað af yfir 40 dagforeldrum fórum við, ég og maðurinn minn, í viðtal þar sem við reyndum að vekja athygli á því að daggæslu barna í Reykjavík er verulega ábótavant. Gjá sem grefur undan fjölskyldum | RÚV (ruv.is)

Ég er stútfull af spurningum og forvitni um ýmis mál og er mjög spennt að fá að tækifæri til að læra og skilja meira því ég held að ástæða þess að vera ósáttur eða reiður er einfaldlega skilningsleysi og samskiptaleysi. Það er eitt af því sem ég lærði vel í innra starfi í skólum barnanna minna.
Það er gott að gefa kost á sér, vera með og þannig að læra og skilja.

Ég vona að ég fái að vera með í starfinu um ókomin ár, hvort sem ég næ sæti í þetta skipti eða bara að fá að starfa meira innan flokksins því þetta er spennandi vettvangur og fullur af tækifærum til að fá að hafa áhrif,  til að læra og til að skilja.

Njótið lífsins og gangi okkur öllum vel.

Ólöf Helga Jakobsdóttir.