Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

Kæru félagar.

Ég gef kost á mér í 5.-6. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Ég er starfandi forseti Hallveigar, ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, og hef fengist að kynnast starfi flokksins vel síðustu tvö ár. Ég hef skemmt mér konunglega og lært heilmikið á þessum stutta tíma. Á síðustu árum hefur borgin tekið stakkaskiptum til hins betra. Ég hef að mörgu leyti vaxið úr grasi, þroskast og fullorðnast samhliða borginni. Mér þykir gífurlega vænt um Reykjavík og langar að leggja mitt að mörkum við að gera borgina enn betri.

Mín áherslumál:

·       Borg fyrir fólk. Við alla ákvarðanatöku þarf að huga að því að borgin okkar á fyrst og fremst að vera fyrir fólk. Hún á að vera lífleg og aðlaðandi.

·       Hönnun borgarrýmis þarf að taka mið af virkum ferðamátum. Nærþjónusta þarf því að vera til staðar í öllum hverfum.

·       Byggja þarf hagkvæmt húsnæði fyrir ungt og efnalítið fólk.

·       Bjóða íbúum í óformlegt spjall við borgarfulltrúa í þeirra hverfi, t.d. á kaffihúsi í hverju hverfi borgarinnar.

·       Reglulegir opnir fundir með grasrót flokksins þar sem farið er yfir það sem er á döfinni og setið fyrir svörum.

Ég er þrítugur Reykvíkingur, borðtennisspilari, lögfræðingur og jafnaðarmaður. Ég ólst upp í Vesturbænum, fyrstu fimm árin í verkamannabústöðunum við Hringbraut og næstu 23 ár í Granaskjóli, með stuttum pásum þar sem ég bjó annars vegar eitt sumar á Akureyri og hálft ár í La Paz í Bólivíu. Ég hef búið á Hverfisgötu síðan í desember 2019 og kann vel við mig í miðborginni. Ég viðurkenni þó að 10 ára ég, sem tók vikulega strætó á Hverfisgötu til að fara í tónlistarskólann á Lindargötu, hefði líklega orðið áhyggjufullur að vita að ég myndi einn daginn búa á Hverfisgötu, en hún hefur sem betur fer fengið upplyftingu á síðustu árum, eins og svo margt í borginni.

Ég útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði vorið 2021. Í náminu lagði ég mesta áherslu á samskipti stjórnvalda og borgara. Ég tók því alla þá kúrsa sem ég gat í stjórnsýslurétti, sveitarstjórnarrétti og réttarheimspeki. Ég starfa nú sem lögfræðingur hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem ég fæst aðallega við að endurskoða ákvarðanir sveitarfélaga í skipulags- og byggingarmálum.

Ég hafði þó ekki tekið þátt í skipulögðu pólitísku starfi fyrr en ég tók þátt í borgarstjórnarkosningunum 2018 með Samfylkingunni. Ég var ekki skráður í flokkinn en gat einfaldlega ekki hugsað mér að meirihlutinn myndi tapa kosningunum. Borgin var á réttri leið og það mátti ekki setja í bakkgír. Ég skráði mig í flokkinn sumarið 2020 og var kosinn í stjórn Hallveigar, ungra jafnaðarmanna í Reykjavík þá um haustið. Haustið 2021 var ég svo kosinn forseti Hallveigar. Frá því að ég skráði mig í flokkinn hef ég reynt að taka eins mikinn þátt og ég hef getað. Ég hef mætt á alla þá viðburði sem ég hef komist á, hvort sem þeir hafa verið í persónu eða í netheimum og tók virkan þátt í Alþingiskosningunum síðastliðið haust sem kosningastjóri Ungra jafnaðarmanna. Niðurstaða kosningarinnar var vissulega vonbrigði fyrir flokkinn en nokkuð súrsæt fyrir kosningastjóra UJ, þar sem tveir ungir jafnaðarmenn eru nú á þingi. Gott ef ég var ekki sá eini á landinu sem náði að hringja 1000 símtöl á einum degi. Ég næ vonandi að vinna upp þann svefn sem tapaðist í kosningabaráttunni einhvern tíma á komandi sumri, að loknum borgarstjórnarkosningum.

Þegar ég ræði við fólk á aldrinum 20-30 ára er alveg ljóst að flest eru þau jafnaðarmenn. Mörg þeirra átta sig ekki endilega á því og enn færri eru skráð í Jafnaðarmannaflokk Íslands. Ég hef verið í þeirra sporum og tel mig vel geta náð til þessa stærsta kjósendahóps Samfylkingarinnar.