Reykjavík er á réttri leið

Þann 14. maí verður kosið til borgarstjórnar. Samfylkingin vill halda áfram að byggja borgina með áherslu á lífsgæði venjulegs fólks og gæta þess að lífsgæðin í borginni séu fyrir alla. Það skiptir máli. 

Húsnæðissáttmáli - húsnæði fyrir alla

Við gerðum samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Nú þurfum við húsnæðissáttmála. Síðustu 4 ár hafa verið mesta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur. Íbúum hefur fjölgað hratt og aldrei hafa verið byggðar eins margar íbúðir í borginni. Árið 2019 varaði Seðlabanki Íslands meira að segja við offramboði á húsnæðismarkaði en nú er staðan gjörbreytt. Samfylkingin í Reykjavík vill tvöfalda fyrri uppbyggingar-áætlanir með því að byggja 10 þúsund íbúðir á næstu 5 árum. Þetta verður nýtt met – en það er mögulegt með samstilltu átaki. Með húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið viljum við tryggja framboð af húsnæði fyrir alla. Til þess þarf Reykjavík að fá ríkið og nágrannasveitarfélögin til að feta í fótspor borgarinnar og ráðast í það verkefni að byggja félagslegt húsnæði og að fjölga íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga, svo sem fyrir tekjulægri hópa, stúdenta og eldri borgara. Það léttir á húsnæðismarkaðnum fyrir alla. Verkamannabústaðakerfið hefur verið endurreist í Reykjavík á síðustu árum með tilkomu íbúðafélagsins Bjargs. Á sama tíma hafa biðlistar eftir félagslegu húsnæði í borginni dregist saman um helming. Samfylkingin vill halda áfram á sömu braut og fá fleiri sveitarfélög og byggingarfyrirtæki með í verkið. Það skiptir máli.

Fjárfestum í hverfunum okkar

Fjárfestingar í hverfunum okkar hafa aldrei verið meiri en á undanförnum árum. Nýir fótboltavellir hafa litið dagsins ljós og stór fjölnota íþróttahús fyrir handbolta og körfubolta ásamt stórbættri aðstöðu fyrir fimleika. Nýir leikskólar eru að rísa um alla borg og fjölmargir leikskólar hafa verið stækkaðir með nýju húsnæði. Bókasöfn eru að breytast í fjölbreyttar menningarstofnanir í hverfum, stórátak hefur verið gert í lagningu hjólastíga, fjölgun hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla, nýir leikvellir, hverfissundlaugar, endurgerðar skólalóðir, torg, græn svæði, hreystibrautir og grænni og fallegri borg hafa verið meðal þessara fjárfestinga. Þessu verðum við að halda áfram. Græna planið er fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar til ársins 2030. Þar eru lagðar línur fyrir grænar fjárfestingar og kraftmikla innviðauppbyggingu í öllum hverfum borgarinnar, þar með talið byggingu nýrra grunnskóla og leikskóla á uppbyggingarsvæðum og stækkun skóla í grónum hverfum borgarinnar. Samfylkingin í Reykjavík vill halda áfram að vinna eftir Græna planinu og fjárfesta fyrir tugi milljarða í þeim hverfum sem við búum í nú þegar. Það er fjárfesting í lífsgæðum borgarbúa, umhverfi og aðgengi, skólum, menningu, grænum svæðum og hverfiskjörnum, aðgerðum í loftslagsmálum og betri loftgæðum – og svo mætti lengi telja. Hugmyndir um stóraukna útþenslu og dreifingu byggðar ganga gegn þessari áætlun og munu kippa fótunum undan fjárfestingu í hverfunum sem þegar eru byggð. Það er nefnilega ekki hægt að gera bæði, setja tugmilljarða í gróin hverfi og leggja tugmilljarða í ný hverfi frá grunni. Samfylkingin í Reykjavík vill frekar styrkja gróin hverfi. Það er Græna planið. Það skiptir máli.

bleikt, hjól, reykjavík

Borgarlína - klárum dæmið

Samfylkingin í Reykjavík vill klára Borgarlínu og gera það vel. Borgarlína er nýtt kerfi hágæða almenningssamgangna fyrir höfuðborgarsvæðið. Borgarlínuvagnar munu ganga fyrir umhverfisvænni orku og ferðast á sérakreinum. Með samgöngusáttmála tryggðum við fjármögnun samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu upp á 120 milljarða. Þar af fer um helmingur í Borgarlínu og uppbyggingu innviða fyrir hjólandi og gangandi. Hönnun Borgarlínu er komin vel á veg og framkvæmdir hefjast innan árs. Samhliða þessu tengjum við Hlíðarnar á nýjan leik með því að setja umferðina á Miklubraut ofan í jörðina og búa til fallegt, grænt, rólegt og aðlaðandi borgarumhverfi á yfirborðinu. Á sama hátt tengjum við Vogahverfið við Vogana með því að setja Sæbraut í stokk og fáum spennandi borgarlíf á svæðin þar á milli. Samfylkingin í Reykjavík vill klára dæmið. Það skiptir máli.

Betri borg fyrir börn

Þegar kemur að menntun, frístundastarfi og þjónustu við börn þá er Reykjavík í fararbroddi. En lengi má gott bæta. Samfylkingin í Reykjavík vill halda áfram á sömu braut og huga sérstaklega að því að skapa betri borg fyrir börn sem standa höllum fæti. Einu sinni voru engir frístundastyrkir. Samfylkingin í Hafnarfirði tók þá fyrst upp og Samfylkingin náði fram hækkun frístundakortsins í 50 þúsund í Reykjavík. Nú teljum við tímabært að hækka frístundastyrkinn enn frekar upp í 75 þúsund á ári og upp í 100 þúsund á ári fyrir börn sem koma af heimilum með lægri tekjur. Þá viljum við að ónýttir frístundastyrkir verði eftir innan hverfis og renni í verkefni til að auka þátttöku og stuðning við börn þar. Það hefur gefið góða raun í Breiðholti. ​ Við viljum efla og innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn í öllum hverfum borgarinnar. Það felur í sér víðtækt samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs Reykjavíkur um að færa þjónustu við börn út í hverfin og byggir á nánu samstarfi fagfólks í skólum og í borgarmiðstöðvum. Samfylkingin sagðist fyrir síðustu kosningar ætla að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á innan við sex árum. Nú stefnir í að við byrjum að taka á móti 12 mánaða börnum ári á undan áætlun og fjölgum leikskólaplássum um 1700 með nýjum leikskólum, viðbyggingum og nýjum leikskóladeildum. Til að gera þetta að veruleika og manna leikskólana af hæfu starfsfólki höfum við bætt kjör og starfsumhverfi í skólum borgarinnar og þar viljum við gera enn betur á næstu árum.