Sara Björg Sigurðardóttir - 4. - 6. sæti

Menntun og fyrri reynsla

Ég heiti Sara Björg Sigurðardóttir og fædd í Reykjavík, sleit barnsskónum í Kópavogi, Hrísey og uppsveitum Borgarfjarðar. Í tæpan áratug æfði ég sund með sundfélaginu Ægi, keppti með landsliðinu og þjálfaði yngri börn. Eftir fjögur ár í Menntaskólanum við Sund, með árs viðkomu í Suður - Kaliforníu þar sem fjölskyldan mín bjó, fluttist ég til Spánar til að læra spænsku. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á fólki, tungumálum, menningu og ólíkum samfélögum. Þessi áhugi minn leiddi mig í stjórnmálafræðina í HÍ. Eftir B.A. próf fluttist ég til Danmerkur, lærði bæði danska stjórnsýslu og dönsku. Eftir dvölina í Danmörku flutti ég heim og lauk ég meistaraprófi í stjórnsýslufræðum frá HÍ. Lokaverkefnið mitt fjallaði um stjórnsýslu sveitarfélaga og flutning verkefna frá ríki til þeirra. Ég hef hef búið í borginni í 20 ár en síðustu tíu árin í Breiðholti með eignmanni og þremur börnum á aldrinum 6 til 13 ára.  Starfsreynslan er fjölbreytt. Ég hef unnið í fiski, við sundþjálfun, sölu- og þjónustustörf en lengst af sem sérfræðingur hjá ríkinu. Hjá stjórnsýslu héraðsdómstóla þjónustaði starfsfólk víðsvegar um landið, fór fyrir fjölbreyttum verkefnum, annaðist m.a. tölfræðiúrvinnslu og samskipti við hagaðila. Í störfum mínum fyrir Sýslumann þjónusta ég viðskiptavini skammtímagistingar, kom að mótun heimagistingar og forgangsröðun verkefna tengt starfrænni þróun. 

Á kjörtímabilinu varð ég varaborgarfulltrúi haustið 2019 í skipulags - og samgönguráði, skóla- og frístundaráði og menninga- íþrótta og tómstundaráði. Jafnframt gegni ég formennsku í Íbúaráði Breiðholts, leiddi hverfið í gegnum vinnuferli nýsamþykkts hverfisskipulags og sat í stýrihópi um framtíðarskipan Elliðaárdals. Árið 2018 tók sæti í stjórn SffR og gegndi formennsku í félaginu að stjórnarskiptum 2020. 

Málaflokkar

Börn okkar allra

Hjarta mitt slær fyrir hverfið mitt, Breiðholt og þann fjölbreytta hóp sem þar býr. Það voru ekki síst hagsmunir barna í Breiðholti sem drógu mig inn í stjórnmálin þegar ég tók 16. sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar. Ég vil halda áfram að skapa samfélag þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri óháð uppruna, tekjum, búsetu og félagslegri stöðu.

Þátttaka í nærsamfélaginu 

Bakgrunnur minn úr íþróttum hefur hjálpað mér að skapa öfluga, samheldna liðsheild víðsvegar um hverfið. Félagsleg virkni í nærsamfélaginu skiptir máli og það er töfrum líkast hvað hún smitar út frá sér. Með þátttöku verðum við hluti af stórum fjölbreyttum hópi, verðum virkir samfélagsþegnar og eflumst í umhverfi sem okkur líður vel í. Blómleg aðstaða til íþrótta- og frístundastarfs er einn liður í því og er málaflokkur sem ég brenn fyrir.

Skipulagsmál, vistvænir ferðamátar og sjálfbær hverfi

Kveikjan að áhuga mínum á skipulagsmálum, sjálfbærni hverfa og fjölbreyttum ferðamáta er búseta mín í útlöndum. Myljandi sóknarfæri liggja í austurborginni til að skapa sterkar hverfiseiningar innan úthverfanna með fjölbreyttri þjónustu, blandaðri byggð og þéttara neti hjólastíga. 

Hvers vegna Sara í borgarstjórn?

Framundan eru mikilvægar borgarstjórnarkosningar, kannski þær mikilvægustu sem við stöndum frammi fyrir til að tryggja áframhaldandi þróun Nýju Reykjavíkur. Eftir að hafa verið hryggjarstykki í meirihlutanum síðustu þrjú kjörtímabil er mikilvægt fyrir Samfylkinguna að velja sér fjölbreyttan hóp fulltrúa þar sem sterk rödd úthverfanna fær að heyrast og reynsla í bland við ferska vinda er tryggð. Ég er öflugur fulltrúi úr austurborginni, hef unnið af heilindum fyrir hverfið mitt í mörg ár og vil halda áfram að gefa af mér fyrir borgina og borgarbúa. 

Með mér kemur meiri breidd í borgarstjórn.