Sigurbjörg Anna Guðnadóttir - 3. - 5. sæti

Kæru félagar og vinir

Ég gef kost á mér í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði vegna komandi bæjarstjórnarkosninga. Ég vona að sem allra flest ykkar taki þátt og óska ég eftir stuðningi ykkar í 3.-5. sæti listans.

Ég hef búið í Hafnarfirði frá barnæsku og er mjög umhugað um að bænum sé sem best stjórnað með framfarir, sanngirni og jöfnuð að leiðarljósi.

Í síðustu bæjarstjórnarkosningum var ég á lista Samfylkingarinnar og hef síðan starfað í umboði hennar fyrir Hafnarfjörð í menningar- og ferðamálanefnd bæjarins.

Einnig er ég varafulltrúi í umhverfis- og framkvæmdaráði, ásamt því að hafa verið varaformaður Kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi síðustu tvö ár.

Framundan eru mikilvæg verkefni en það er allra mikilvægasta er að Samfylkingin fái góða kosningu í vor. Sem kjölfesta í nýjum meirihluta getum við meðal annars:

  • Aukið framboð íbúðarhúsnæðis, sérstaklega öruggs leiguhúsnæðis
  • Forgangsraðað gjöldum og skattheimtu með tilliti til tekjulægri íbúa bæjarins
  • Tryggt samkeppnishæfni vinnustaða bæjarins um starfsfólk, m.a. grunnskólanna
  • Komið á friði í leikskólum bæjarins og hlustað á raddir starfsfólks og foreldra
  • Stytt biðlista félagslegs húsnæðis og gert úthlutunarferlið gagnsærra
  • Bætt upplifun íbúa varðandi skipulagsmál og framkvæmdir bæjarins
  • Byggt upp betra útivistarsvæði í upplandinu, m.a. í kringum Hvaleyrarvatn

Þetta þarf allt að gera með ábyrgri stjórn á fjármálum bæjarins, bæði með skammtíma og langtíma hagsmuni að leiðarljósi.

Ég er með B.sc og M.paed gráðu í stærðfræði og réttindi sem framhaldsskólakennari. Þessa dagana er ég tölfræðingur hjá Áfallasögu kvenna og doktorsnemi. Ég hef unnið sem stærðfræðikennari og sviðstjóri við Flensborgarskólann, sem og við útreikning fasteignmatsins hjá Þjóðskrá Íslands og aðstoðardeildarstjóri þar. Einnig hef ég unnið sem tölfræðiráðgjafi.

Bakgrunnur minn, sem er annars vegar stærðfræði og tölfræði og hins vegar kennsla, er mjög hentugur fyrir starf sem fulltrúi flokksins í bæjarstjórn, ráðum og nefndum.
Þar nýtist vel að geta skilið tölur og útreikninga, geta unnið sjálfstætt sem og með fólki.

Ég er einnig móður tveggja ungra manna og amma lítillar dömu, ég hef því verið foreldri á öllum skólastigum bæjarins og þekki vel hvernig er að vera foreldri í bænum og þjónustuþegi.

Mér finnst mikilvægast að stjórnkerfið sé gagnsætt, unnið sé að sem mestum jöfnuði, hlúð að þeim sem minna mega sín og tryggt að allir geti notið sín í samfélaginu, óháð uppruna, aldri, kyni og því hvort fólk sé með fötlun eða ekki.