Sigurður M. Grétarsson - 2. sæti

Ég heiti Sigurður M. Grétarsson og gef kost á mér í 2. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi. Ég er giftur Evu Nittaya S. Grétarsdóttur. Ég er faðir 4 barna og afi 2 ungra stráka.

Ég hef verið virkur í Samfylkingunni síðan árið 2003 og hef nokkrum sinnum verið í stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi auk þess að hafa stafað í nefndum Kópavogs á sviði umferðamála og leikskólamála. Ég hef einnig verið starfað í málefnanefndum á vegum Samfylkingarinnar á landsvísu.

Ég hef komið að foreldrastarfi meðal annars í stjórn foreldrafélaga í bæði leikskóla og grunnskóla og var eitt ár formaður foreldrafélags Álfhólsskóla.

Ég hef megnið af minni starfsæfi starfað hjá Tryggingastofnun ríkisins sem sérfræðingur í lífeyristryggingum.

Á sveitastjórnarstigi brenn ég mikið fyrir skólamálum og stuðningi við barnafjölskyldur auk skipulagsmála þjónustu við aldraða og fatlaða og samgöngumál þar sem ég er mikill áhugamaður um aukningu vistvænna samgangna bæði bættum almenningssamgöngum og aðstöðu til hjólreiða.

Eitt af þeim málum sem ég tel brýnt að taka á strax á þessu ári er viðbrögð við mikilli fjölgun barnsfæðinga á seinasta ári sem stefnir í að vera svipuð á þessu ári. Þetta leiðir til mikillar aukningar í þörf fyrir leikskólarými og þjónustu dagforeldra en á sama tíma er ekki í farvatninu nein fjölgun leikskólarýma á þessu ári og meira að segja ekki öruggt að þeim fjölgi á næsta ári þó vissulega sé stefnt að því. Það er ekki heldur neitt sem bendir til þess að dagforeldrum fjölgi á næsta ári og er reyndar ekki til staðar nein áætlun um að reyna slíikt.

Það er því ljóst að ef ekkert verður að gert mun mikill fjöldi foreldra ungbarna ekki komast til vinnu nema þá í mesta lagi stopult í langan tíma eftir að fæðingarorlofi lýkur sem getur haft slæmar afleiðingar fyrir fjárhag þeirra og jafnvel stöðu á sínum vinnustað. Við erum ekki enn farin að sjá þetta vandamál aukast mikið því foreldrar þeirra barna sem fæddust í þessari fæðingarsprengju eru flestir enn í fæðingarorlofi. En vandinn mun koma þegar því líkur og þá er orðið of seint að bregðast við.

Þar sem ekkert bendir til að hægt sé að leysa þennan vanda með hefðbundnum aðgerðum enda tekur langan tíma að byggja leikskóla þá þarf að skoða nýjar leiðir og meta hvort þær geti gengið upp. Það er væntanlega margt sem er hægt að gera en tvær leiðir sem ég tel vert að skoða eru annars vegar að kanna hvort hægt sé að bjóða upp á 5 ára bekki í einhverjum grunnskólum þar sem foreldrar geta sótt um fyrir sín börn og með þeim hætti létt á leikskólunum og hins vegar að bjóða upp á sömu niðurgreiðslu og nú býðst til þeirra foreldra sem eru með börn hjá dagforeldrum fyrir þá sem ráða til sín au pair. Vissulega hentar það ekki öllum enda þarf að hafa auka herbergi í húsinu til að geta það en þeir foreldrar sem myndu nýta sér þá leið eru þá ekki að taka pláss hjá dagforeldrum sem einhverjir aðrir fá þá í staðinn. Svo má líka benda á að þegar nýtt barn fæðist munu foreldrar hvort eð er þurfa að stækka við sig ef þeir hafa ekki þegar herbergi fyrir barnið og þurfa þá í raun bara að gera það einhverjum mánuðum fyrr en ella. Þetta eru bara hugmyndir sem ég tel vert að skoða og það eru örugglega til fleiri leiðir en eitt ættum við ekki að gera varðandi þetta vandamál og það er að gera ekki neitt.