Stefán Már Gunnlaugsson - 3. sæti

Kæru félagar

Ég heiti Stefán Már Gunnlaugsson og gef kost á mér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Á þessu kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og setið í skipulags- og byggingaráði. Eftir meirihlutasigur Samfylkingarinnar í Hafnarfirði árið 2002 sat ég í leikskólanefnd Hafnarfjarðar.

Mín áherslumál eru:

  • Vöxtur og framþróun bæjarins
  • Gerum Hafnarfjörð aftur að fyrirmyndarbæ fyrir fjölskylduna
  • Grænn bær og loftlagsmál
  • Efla mannlíf og lífskjör í Hafnarfirði 

Mér er umhugað um Hafnarfjörð og að hér byggist upp öflugt samfélag og atvinnulíf. Stöðnun og doði hefur ríkt við stjórn bæjarins sem birtist m.a. í fækkun íbúa á meðan mikil fjölgun er í nágrannasveitarfélögunum. Það þarf að hefja sókn með fólkinu í bænum og setja í forgang uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með áherslu á fjölbreytt og hentugt húsnæði fyrir alla, einkum ungt fólk, fyrstu kaupendur og fjölskyldufólk.

Barnafjölskyldur borga hlut­fallslega hæstu skatta í þjóðfélaginu, en þurfa á sama tíma að standa undir fjárfrekum útgjöldum. Það þarf að hlúa að
barnafjöl­skyldum með því að taka næstu skref í átt að gjaldfrjálsum leik- og grunnskóla og ókeypis í strætó fyrir börn yngri en 18 ár. Einnig að
styðja við íþrótta- og tómstundastarf sem stuðlar að jákvæðri sjálfsmynd og bættri líðan.

Umhverfis- og loftslagsmálin eru stærsta áskorun samtímans sem þarf að taka föstum tökum með grænum samgöngum, vistvænum mannvirkjum og saman þurfum við að taka stór skref að kolefnislausu samfélagi.

Hafnarfjörður hefur löngum verið til fyrirmyndar öðrum sveitarfélögum um að jafna kjör fólks, hlúa að öryrkjum, láglaunafólki og barnafjölskyldum. Sagan
staðfestir að undir forystu jafnaðarmanna voru stærstu velferðarskrefin stigin. Við þurfum að standa vörð um velferðina og því er nauðsynlegt að jafnaðarmenn í Samfylkingunni fái góða kosningu í vor til að efla mannlífið og lífskjör í Hafnarfirði.

Um mig

Ég er kvæntur Lilju Kristjánsdóttur, hjúkrunardeildarstjóra, og við eigum fjóra drengi á aldrinum 13-20 ára.