Stein Olav Romslo - 5. - 6. sæti

Ég er 28 ára stærðfræðikennari og norskur sveitastrákur. Ég er fæddur og uppalinn í bæ sem heitir Ål í Hallingdal í Noregi en ég flutti til Íslands sumarið 2018. Fyrst lærði ég íslensku í Háskóla Íslands og síðan fékk ég vinnu í Hagaskóla. Þar hef ég tekið að mér mörg og stór hlutverk þrátt fyrir skamman tíma í starfi; ég er teymisstjóri 10. bekkjar, leiði þróunarverkefni um lesskilning unglinga og tók nýlega að mér að vera umsjónarkennari.

Ég kenni unglingum sem þroskast í borg sem verður flottari ár hvert og því þurfum við að vinna áfram að með meirihluta í borgarstjórn. Þá þurfum við að gera enn meira fyrir börn, ungmenni, kennara og skólastarfsfólk borgarinnar. Við þurfum að efla og halda áfram að vinna að menntastefnu borgarinnar – vinna að því að láta draumana rætast. Draumur minn er að kennarar fái tíma til að sinna öllum þeim verkefnum sem þarf í skólum, og geti gert það í nútímalegum kennslustofum og fjölbreyttum rýmum og koma þannig til móts við mismunandi þarfir nemenda.

Á hverjum degi fæ ég að njóta stefnu borgarinnar um 15 mínútna hverfið. Ég labba í vinnuna, í búðina, niður í bæ og tek strætó eða rafhlaupahjól ef ég ætla lengra. Í þessu felast aukin lífsgæði og ætti að vera möguleiki fyrir alla borgarbúa – sama hvar í borginni við búum!

Borgarlínan spilar stórt hlutverk í því að 15 mínútna hverfið verði að raunveruleika í öllum hverfum borgarinnar. Hún stuðlar ekki eingöngu að bættum almenningssamgöngum og þar með auknum lífsgæðum borgarbúa heldur er hún einnig risastórt skref í átt að grænni og loftslagsvænni borg. Borgarlínan er fullkomið dæmi um sigur síðustu kosninga um framsækna framtíðarsýn í borginni. Við höfum sýnt þar styrkleika og verðum að halda óhrædd áfram á þeirri braut – og standa í lappirnar þegar kemur að því að fylgja verkefninu eftir.

Sem innflytjandi þekki ég að einhverju leyti hvernig stórum hluta íbúa Reykjavíkur líður, sem ekki er hér fæddur og uppalinn. Það getur verið krefjandi að flytja til nýs lands og tala ekki tungumálið en eins og staðan er í dag eru það forréttindi að hafa færi á að sækja íslenskunámskeið og læra það. Ég myndi vilja sjá framsækna áætlun um að greiða aðgengi starfsfólks borgarinnar að íslenskunámskeiðum snemma – tungumálið opnar dyr. Unnið hefur verið eftir góðri stefnu borgarinnar í málefnum innflytjenda en þó stendur enn eftir að kanna stöðu okkar sem starfsfólks og þjónustuþega. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að kortleggja stöðuna til að raunverulega sé hægt að taka á móti þessum hópi og styðja. 

Innan Samfylkingarinnar hef ég tekið þátt í starfi Ungra jafnaðarmanna og Hallveigar, setið í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og lagt mitt af mörkum í harðri kosningabaráttu flokksins síðastliðið haust. Ég er gríðarlega stoltur af kosningabaráttunni sem einkenndist af mikilli gleði, orku og samvinnu tugi félaga. Ég bind miklar vonir við það að kosningabaráttan í maí verði ekki síður öflug og er tilbúinn að leggja allt mitt í hana.

Næði ég kjöri myndi ég leggja mig fram eins og í kennarastarfinu. Ég er metnaðarfullur í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur, vil þróa starf og starfsumhverfi mitt eins og kostur er og trúi því að margt sé hægt að gera betur á öllum sviðum. 

Nemendur mínir lýsa mér sem frumlegum, skemmtilegum og duglegum. Það myndi ég vilja taka með mér inn í starfið sem borgarfulltrúi. Ég hef einlægan áhuga á að vinna á sterkum grunni meirihlutans í borginni og halda áfram að gera borgina okkar enn betri. Því sækist ég eftir ykkar stuðningi í 5.-6. sæti.

Med beste helsing,

Stein Olav Romslo