Sterkara samfélag

Samfylkingin vill sterkara samfélag þar sem vel er hugað að innviðum eins og heilbrigðis- og menntakerfi

Við viljum skapa sterkara samfélag

Samfylkingin vill byggja upp fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, menntakerfi sem tryggir öllum jöfn tækifæri og móta nýja atvinnustefnu um hugvit, nýsköpun og sjálfbær umskipti. Við viljum vaxa út úr Covid-kreppunni og höfnum alfarið áformum ríkisstjórnarinnar um 100 milljarða niðurskurð á næstu árum. Við viljum beita almennri skynsemi og réttlætissjónarmiðum í skattastefnu og auðlindamálum, vinna að nýrri stjórnarskrá og færa aukin völd beint til almennings.

Byggjum upp betri heilbrigðis-þjónustu

Við ætlum að snúa við blaðinu í heilbrigðismálum, fjármagna heilbrigðisþjónustuna betur og beita okkur fyrir tímabærum kerfisbreytingum og umbótum í þjónustu við fólk og fjölskyldur. Það ríkir þjóðarsátt um nauðsyn þess að byggja upp betri heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll, óháð efnahag og búsetu, og nú verður ekki lengur beðið eftir brýnum aðgerðum. Það þarf bæði að leysa brýnustu vandamálin og byggja upp þjónustuna til lengri tíma. Á bak við hvert nafn á biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum, heimsóknum til sérfræðinga og viðtölum við sálfræðinga og geðlækna eru fjölskyldur sem þurfa lausn á sínum vanda. Samfylkingin telur tíma til kominn að hlusta á raddir heilbrigðisstarfsfólks sem hefur lengi kallað eftir umbótum. Í samvinnu við það þurfum við að bæta heilbrigðisþjónustuna með öllum ráðum. Það verður ekki „lifað með veirunni“ nema við styrkjum verulega Landspítala og styðjum við heilbrigðisstarfsfólk.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu, og ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun og stytta biðlista eftir brýnum aðgerðum.
 • Ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Gera geðheilbrigðisþjónustu að hluta af almenna heilbrigðiskerfinu. Byggja nútímalegar geðdeildir og vinna markvisst niður biðlista barna og ungmenna eftir nauðsynlegri þjónustu. Innleiða gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni. 
 • Styrkja forvarnir. Bæta strax úr fyrirkomulagi skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini og taka upp skimanir fyrir fleiri gerðum krabbameins.
 • Létta álagi af Landspítala með kerfisbreytingum, nýjum búsetu- og þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk, aukinni heimaþjónustu og markvissri fjölgun hjúkrunarrýma. Leiðrétta greiðslur vegna hjúkrunarrýma.
 • Nýta betur fjármagn sem veitt er til heilbrigðismála með eflingu innri endurskoðunar hjá hinu opinbera auk stýringar, samræmingar og skilvirkara eftirlits með ólíkum þáttum heilbrigðiskerfisins.
 • Efla heilbrigðisþjónustu við fólk um allt land með ákvæðum um starfsaðstæður og kjör heilbrigðisstétta og fjárfestingu í tæknilausnum til fjarlækninga. Greiða allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð.
 • Vandi heilbrigðiskerfisins birtist í löngum biðlistum og síendurteknu neyðarástandi á bráðamóttöku Landspítalans. Það sama er uppi á teningnum víða í kerfinu, hvort sem litið er til bráðnauðsynlegrar sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, einföldustu læknisaðstoðar og fæðingarþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, leghálsskimana eða hjúkrunarrýma fyrir þá elstu og veikustu.

Ný atvinnustefna og ábyrg efnahagsstjórn

Við viljum að Ísland vaxi úr kreppunni og höfnum niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Öflug velferðarþjónusta og gengisstöðugleiki er grundvöllur þess að hér sé heilbrigt og gott atvinnulíf. Þess vegna er ábyrga leiðin í efnahagsmálum að styrkja innviði, sækja fram fyrir alþjóðageirann og styðja við nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Stærsta atvinnumál þessa áratugar er svo réttlát og sjálfbær umbreyting í efnahags- og atvinnulífi til að mæta grænni framtíð.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Fjárfesta af krafti í grunninnviðum, sér í lagi þeim sem stuðla að grænni umbreytingu, og standa að umbótum við rekstur ríkisins.
 • Hverfa frá áformum núverandi ríkisstjórnar um 100 milljarða niðurskurð, sem ógnar atvinnulífi, almannaþjónustu og hagkerfinu öllu.
 • Móta nýja atvinnustefnu, vinna að stafrænni umbreytingu í þjónustu við fólk og fyrirtæki og bæta stuðning við nýjar stoðir í atvinnulífinu, hugvit, nýsköpun, alþjóðageirann og skapandi greinar.
 • Einfalda rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja og einyrkja, auka þjónustu við þau og létta álögur á þau með setningu frítekjumarks, samanber persónuafslátt. Setja lög um nýtt félagsform fyrir frumkvöðla sem auðveldar stofnun og þróun fyrirtækja með takmörkuðum skyldum fyrstu tvö árin.
 • Byggja nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum í samvinnu við heimafólk, þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning um allt land.
 • Ráðast í sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land og standa fyrir samstilltu átaki til viðhalds og uppbyggingar á ferðamannastöðum. Móta ferðamálastefnu sem stuðlar að aukinni hagsæld.
 • Efla samkeppniseftirlit, setja lög gegn kennitöluflakki og efna fyrirheit síðustu kjarasamninga um aðgerðir gegn brotum á vinnumarkaði.
 • Samfylkingin leggur áherslu á kraftmikinn grænan hagvöxt á næstu árum. Ríkisstjórnarflokkarnir sem hóta að kippa fótunum undan hagkerfinu með 100 milljarða niðurskurði þurfa hins vegar að svara þessum spurningum: Hvar á að skera niður? Ætla þeir að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, í menntakerfinu og í velferðarmálum?

Menntakerfi sem tryggir öllum jöfn tækifæri

Við viljum raunverulegt jafnrétti til náms á öllum skólastigum. Með fjölbreyttu menntakerfi sem byggist á jöfnuði ræktum við styrkleika hvers og eins. Þannig búum við best í haginn fyrir samfélagið allt til framtíðar. Við viljum skapa menntakerfi þar sem enginn er skilinn eftir, og hver nemandi fær fræðslu og tekur út þroska á eigin forsendum. Nú þarf sérstaklega að styðja við framhaldsskólanema sem hafa þurft að sæta takmörkunum til náms og félagslífs, og grípa til aðgerða til að forða brottfalli.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Hækka grunnframfærslu námsmanna í dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins og tryggja að frítekjumark fylgi launaþróun.
 • Styrkja nýsköpun og þróunarstarf í menntamálum, efla stoðþjónustu við kennara og nemendur og bæta aðgengi að sálfræðingum, félagsráðgjöfum og annarri stuðningsþjónustu í skólum.
 • Styðja sveitarfélög og skóla þar sem hátt hlutfall barna hefur íslensku ekki að móðurmáli svo að efla megi íslensku- og móðurmálskennslu á öllum skólastigum.
 • Auka við framlög til rannsóknar- og vísindasjóða og liðka fyrir þátttöku Íslendinga í stórum alþjóðlegum nýsköpunar- og rannsóknarverkefnum.
 • Efla listnám með lækkun skólagjalda við Listaháskóla Íslands og greiðara aðgengi fólks að listnámi um allt land.
 • Efla iðn-, verk- og starfsnám og auka þar framboð til þess að fleiri fái inngöngu í skólana.

Sókn gegn sérhagsmunum

Við viljum almenna skynsemi ásamt réttlætissjónarmiðum í skatta- og auðlindamálum og að skattkerfinu sé beitt til að draga úr ójöfnuði. Það er nóg til, en vanda verður til verks við tekjuöflun hins opinbera.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

 • Hækka veiðigjöld og taka upp sérstakt álag á stærstu útgerðir (afla yfir fimm þúsund þorskígildistonnum á ári). Það leggst aðeins á um tuttugu stærstu fyrirtækin.
 • Gera gagngera úttekt á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og móta tillögur að breytingum til að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindinni, draga úr samþjöppun og stuðla að nýliðun. Kanna sérstaklega áhrif af útboði tímabundinna veiðiheimilda.
 • Innleiða á ný stóreignaskatt á hreina eign umfram 200 milljónir. 
 • Efla skatteftirlit og skattrannsóknir til að draga úr undanskotum og fela embætti skattrannsóknarstjóra ákæruvald.
 • Það er vitlaust gefið. Á Íslandi eru skattar á venjulegt fólk með því hæsta sem gerist innan OECD. Hér greiða allra tekjuhæstu og eignamestu hóparnir hins vegar minna til samfélagsins en annars staðar á Norðurlöndum og þeir tekjulægstu meira. Við viljum nýta skattkerfið til að afla tekna og jafna leikinn í samfélagi þar sem eignir fólks ráða sífellt meiru um tækifæri þess og barna þeirra.  

 • Sérhagsmunir ráða för á of mörgum sviðum samfélagsins, og næsta ríkisstjórn verður að hafa kjark til að takast á við þetta. Veiðigjöld eru nú lægri en tóbaksgjöld. Stórútgerðin á ekki að fá meðgjöf umfram önnur fyrirtæki í formi kvóta langt undir markaðsvirði. Samfylkingin vill binda þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá, þannig að þjóðin fái fullt gjald fyrir fiskinn í sjónum. Samfylkingin telur skynsamlegustu leiðina við úthlutun aflaheimilda að bjóða út árlega ákveðinn hluta þeirra í afmarkaðan tíma en er tilbúin að skoða aðrar leiðir í átt að sömu markmiðum. Fram að því þarf að hækka veiðigjöld.

Hlaða niður stefnu

Viltu skoða stefnuna á PDF? Gjörðu svo vel!

Hlaða niður stefnu á PDF