Þorkell Heiðarsson - 5. sæti

Ég heiti Þorkell Heiðarsson, fæddur 3. ágúst 1970, og gef kost á mér í fimmta sætið. Ég er náttúrufræðingur og tónlistarmaður, er giftur og á fjögur börn. Ég hef starfað lengi innan Samfylkingarinnar sem og launþegahreyfingarinnar í Félagi íslenskra náttúrufræðinga og Bandalagi Háskólamanna. Ég hef komið víða við í tónlist, leikið á hljómborð og harmonikku í ýmsum hljómsveitum eins og Geirfuglunum og Hinum Ástsælu Spöðum og færði landsmönnum tónlistina úr Línu Langsokk, börnum til gleði og foreldrum til ama.
Ég hef búið í úthverfum borgarinnar allt mitt líf ef frá eru talin nokkur ár þar sem ég gerðist Þróttari og bjó í Laugarnesinu. Nú bý ég í Árbæ þar sem ég hef leitt íbúaráðið, en þangað flutti ég eftir að hafa búið tíu ár í Grafarvoginum. Ég hef góða tilfinningu fyrir hvað brennur á íbúum í þessum hluta borgarinnar. Á lista flokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar þurfa að vera fulltrúar úr sem flestum hverfum og hverfin austan Elliðaáa mega þar ekki gleymast.
Ég hef unnið mikið að borgarmálunum síðustu kjörtímabil, nú síðast sem varaborgarfulltrúi. Þar hef ég gegnt trúnaðarstörfum innan borgarstjórnarflokksins sem utan. Ég legg mig fram um að hlusta eftir öllum sjónarmiðum og hef það að reglu að fara ekki í manninn heldur boltann.
Á þessu kjörtímabili hefur mér verið treyst til þess að vinna að og leiða fjölmörg mikilvæg mál með setu í nefndum og stýrihópum. Í þessum málum liggja ekki eftir mig hálfkláruð verk!

Mér finnst mikilvægt að vinna með grasrótinni í borgarmálefnum. Það hef ég gert í tengslum við málefni dýra og umhverfis enda hef ég komið mikið fram á þeim vettvangi undanfarin ár. Ég hef unnið ötullega ásamt öðrum að innleiðingu breyttrar nálgunar að málefnum dýra í borginni og betra skipulagi á þeim málaflokki og ætla mér að halda því áfram.
Umhverfismálin þarf að taka föstum tökum. Við eigum að auka frumkvæði í vöktun og rannsóknum á lífríki borgarlandsins því Það er skylda okkar að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Kolefnishlutlaus borg er raunhæft markmið sem við eigum að vinna ótrauð að. Ég vil byggja upp grænt endurvinnsluþorp þar sem hægt verður að skapa fjölda starfa við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Við eigum að taka afgerandi forystu í umhverfismálum og vera öðrum fyrirmynd á heimsvísu.
Aðgengi fyrir okkur öll er sjálfsagt en alls ekki sjálfgefið. Ég hef unnið með grasrótinni í þeim málaflokki sem formaður hinar nýju Aðgengis- og samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks sem vinnur að bættu aðgengi á öllum sviðum samfélagsins. Ég vil gera gangskör að stórbættu aðgengi í borginni og halda áfram að byggja upp sterka aðgengisnefnd með samtökunum sem eiga aðild að henni. Verkefnið Römpum upp Reykjavík sem ég hef tekið þátt í að stýra hefur sýnt okkur að samtakamáttur getur lyft grettistaki í þessum málum.
Íbúalýðræði er mér hugleikið. Ég hef gegnt formennsku í hverfisráði, nú íbúaráði, Árbæjar- og Norðlingaholts frá árinu 2014 og hef því reynslu af þeim vettvangi. Í vinnu stýrihóps um íbúaráð lagði ég áherslu á að halda í það sem vel hafði reynst í hverfisráðunum en jafnframt að auka vægi ráðanna og ekki hvað síst auka það fé sem þau geta veitt í styrki innan hverfa. Lýðræði kallar á þróun og lýðræðisverkefni stökkva sjaldnast fram fullsköpuð. Það á sannarlega við um þetta verkefni og ég hef fullan hug á að halda áfram þróun þessa verkefnis – því þarna eins og víðar eigum við að vera í fararbroddi.

Grænni og aðgengilegri borg.